Árni Páll og viðskiptabönnin
Árni Páll og viðskiptabönnin
Steingrímur J. Sigfússon / Morgunblaðið 20. janúar 1999
Viðskipti Viðskiptaþvinganir eiga ekki margt sameiginlegt, segir Steingrímur J. Sigfússon, nema nafnið. ÁRNI Páll Árnason lögmaður skrifar grein í Morgunblaðið laugardaginn 9. janúar sl. undir fyrirsögninni: Til varnar viðskiptabönnum.
Þetta finnst mér nokkuð hreystilega gert af Árna Páli og þó einkum og sér í lagi vegna þess að greinin hefst á umfjöllun um viðskiptabann Sameinuðu þjóðanna gegn Írak. Telur Árni margt misskynsamlegt hafa verið rætt og ritað um það mál að undanförnu. Einn gallinn við grein Árna er frjálsleg umfjöllun hans um þá sem hafa leyft sér að andæfa viðskiptabanninu á Írak.
Árni gefur sér að þar séu á ferðinni menn sem allir hafi úthrópað íslensk stjórnvöld, jafnframt verið í fararbroddi í baráttu fyrir viðskiptabanni gegn Suður-Afríku og þeir hinir sömu hafi hins vegar ekki andmælt viðskiptabanni á Burma eða Júgóslavíu. Satt best að segja er hér um afar sérkennilegar og grautarlegar alhæfingar að ræða og ekki vitnar Árni í neina könnun eða úttekt á þessu máli sínu til stuðnings. Fæst af því sem Árni tínir til í grein sinni tek ég til mín þótt hitt sé rétt að ég hef gagnrýnt viðskiptabannið á Írak og barðist jafnframt fyrir því á sínum tíma að Ísland gerðist þátttakandi í viðskiptaþvingunum gegn kynþáttaaðskilnaðarstefnu ríkisstjórnar Suður-Afríku.
Nokkur orð um viðskiptabannið á Írak
Fyrst nokkur orð um viðskiptabannið á Írak. Landið var sprengt aftur á steinaldarstig í Persaflóastríðinu. Innviðir samfélagsins höfðu meira og minna hrunið og eyðilagst, orkudreifing, vatnsveitur og samgöngukerfi voru í molum og hið nánast algera viðskiptabann leiddi fljótlega til vöruskorts og skorts á lyfjum, lækningatækjum og öðrum nauðsynjum. Fórnarlömbin eða þolendurnir hafa allan tímann verið bláfátækur almúginn. Heil kynslóð írakskra barna hefur búið við hungursneyð og nánast þurrkast út. Þau sem lifa munu aldrei bíða þess bætur. Áreiðanlegar upplýsingar stofnana eins og Rauða krossins, Rauða hálfmánans, Barnahjálpar SÞ og fleiri aðila benda til að um 750.000 börn hafi látist af völdum viðskiptabannsins og mannfallið í heild sé komið á aðra milljón. Átta árum síðar situr Saddam Hussein enn við völd og sýnir ekkert fararsnið á sér þrátt fyrir endurnýjaðar árásir. Sú spurning hlýtur að vakna hversu lengi menn ætla að láta þetta ástand vara. Loks má spyrja; fyrir hvaða samþykktum og sáttmálum Sameinuðu þjóðanna eiga menn að bera virðingu? Á ekki einnig að bera virðingu fyrir Genfarsáttmálanum og öðrum viðurkenndum mannréttindasáttmálum og grundvallarreglum á því sviði réttarins?
Skuldbinding stofnskrár Sameinuðu þjóðanna
Í greininni er lagt út af því að Ísland sé sem aðildarríki að Sameinuðu þjóðunum skuldbundið til þess skv. stofnskránni að fullnusta ákvarðanir öryggisráðsins. Það er vissulega rétt að almennt fylgir aðild að samtökunum sú skylda að virða lögmætar ákvarðanir þess en hvert og eitt aðildarríki þarf eftir sem áður að fullgilda slíkar ákvarðanir. Hér á Íslandi var þátttaka í viðskiptabanninu gegn Írak staðfest með reglugerð undirritaðri af utanríkisráðherra. Ákvarðanir Öryggisráðsins eru ekki án samhengis við aðra hluti. Ef það t.d. væri skoðun einstakra aðildarríkja að í því fælist glæpur gegn mannkyninu að standa að framkvæmd einhverrar slíkrar ályktunar dettur þá lögmanninum í hug að sjálfstætt og fullvalda ríki komi engum vörnum við? Málið snýst heldur ekki um það að neita að taka þátt í ákvörðunum Sameinuðu þjóðanna. Sú tillaga sem ég hef endurtekið flutt á Alþingi felur í sér kröfu um þá pólitísku stefnumótun af Íslands hálfu að við viljum að viðskiptabannið á Írak verði endurskoðað. Hvað sem allri lögfræði líður er ljóst að ekkert hindrar íslensk stjórnvöld í að móta slíka pólitíska stefnu. Rökin eru að mannkynið geti einfaldlega ekki horft upp á barnadauðann og ástandið eins og það er.
Írak og Suður-Afríka
Fráleitt er að leggja að jöfnu viðskiptaþvinganirnar sem Suður-Afríka var beitt til að knýja stjórnvöld þar til að hverfa frá kynþáttaaðskilnaðarstefnunni og hins vegar aðgerðirnar nú gegn Írak. Bæði eðli aðgerðanna og allar aðstæður eru gjörólíkar. Í Suður-Afríku hafði ekki geisað styrjöld, Suður-Afríka var ríkt land og þar varð ekki hungursneyð eða skortur í neinni líkingu við Írak í dag. Viðskiptabannið var í raun aðallega pólitísks eðlis. Þeldökki meirihlutinn í Suður-Afríku bað sjálfur um viðskiptaþvinganirnar og að þeim yrði við haldið. Hvert og eitt aðildarríki SÞ tók sjálfstæða ákvörðun um þátttöku í aðgerðum gegn S-Afríku og Ísland var reyndar í hópi síðustu landa til þess. Undirritaður hefur flutt tillögur bæði á Alþingi Íslendinga og einnig í Norðurlandaráði um að framkvæmd viðskiptaþvingana almennt sem tækis í alþjóðastjórnmálum verði tekin til endurskoðunar. Reynt verði að setja um framkvæmd slíkra aðgerða ákveðnar reglur sem tryggi að beiting þeirra valdi saklausum almenningi sem minnstum þjáningum og aldrei hungursneyð. Staðreyndin er sú að viðskiptaþvinganir eiga ekki margt sameiginlegt nema nafnið.
Þeim fjölgar nú sífellt sem draga það í efa að það fái með nokkrum hætti samrýmst alþjóðlegum mannréttindasáttmálum, t.d. Genfarsáttmálanum, að alþjóðasamfélagið horfi áfram aðgerðalaust upp á afleiðingar viðskiptabannsins á Írak . Í þann hóp hafa bæst nafntogaðir menn úr forystuliði Sameinuðu þjóðanna eins og Dennis Haliday og Scott Ritter, fyrir utan fjölda lögfræðinga og talsmenn mannréttindasamtaka og hjálparstofnana. Eftir því sem gagnrýnin vex í umræðum á alþjóðavettvangi og andúðin á framferði Bandaríkjastjórnar og taglhnýtinga þeirra, Breta, í málefnum Íraks verður meiri þá virðast hér uppi á Íslandi ákveðnir málsvarar viðskiptabannsins á Írak forherðast í afstöðu sinni.
Höfundur er alþingismaður
Steingrímur J. Sigfússon