Úr safni Björns Bjarnasonar (‘Stríð við hryðjuverkamenn’)
Stríð við hryðjuverkamenn vika símenntunar ráðherrar og R-listinn þráhyggja vegna Davíðs.
16.9.2001
Björn Bjarnason
http://www.bjorn.is/pistlar/nr/699
Þegar við stöndum frammi fyrir þeirri staðreynd, að stríðsárás hefur verið gerð á Bandaríkin og forseti þeirra hefur lýst yfir því, að Bandaríkin séu komin í styrjöld samhliða því sem aðildarríki Atlantshafsbandalagsins hafa komist að þeirri sameiginlegu niðurstöðu, að árásin á Bandaríkin sé árás á þau öll, verða aðrir atburðir næsta léttvægir. George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, hefur sýnt góða forystu frá því að fólskuverkið var unnið. Hann hefur hugað að skaðanum á Pentagon og í New York og heitið björgunarmönnum, að þeir, sem ollu skaðanum muni fá að gjalda fyrir hann. Hann hefur fengið einróma fjárheimildir og lögformlegar heimildir frá Bandaríkjaþingi til að gera það, sem þarf. Hann hefur kallað út aukinn herafla heima fyrir og hafið undirbúning undir styrjöld. Hann hefur leitað eftir samstöðu annarra ríkja og tekist að skapa hana. Böndin beinast að Osama bin Laden, sem hefur starfað í skjóli talibana í Afganistan, en því virðast engin takmörk sett, hvaða hörmungar af mannavöldum afganska þjóðin má þola. Frá því að talibanar náðu undirtökum í Afganistan hafa margir spáð því, að undir handarjaðri þeirra yrðu unnin illvirki, sem hefðu áhrif á alla heimsbyggðina og hefur það nú ræst.
Heimspekilegar vangaveltur um stríð og frið eða gildi refsinga gagnvart hryðjuverkamönnum og spádómar um, að verði einum refsað, komi aðrir til sögunnar, eru sjálfsagðar í frjálsum og opnum þjóðfélögum, en þær mega sín næsta lítils, þegar litið er til þeirra frumskyldu stjórnvalda hvers ríkis að skapa borgurum sínum öryggi. Á sínum tíma voru þeir, sem tóku upp hanskann fyrir nasista, og töldu, að lýðræðisþjóðir yrðu að læra að lifa í sátt við þá, eða nytsömu sakleysingarnir, sem vörðu illvirki kommúnista, og töldu, að þau væru nauðsynleg til að bæta böl mannkyns. Sagan geymir mörg dæmi um málsvara friðkaupa við hið illa, hún kennir okkur á hinn bóginn líka, að leiðin til að skapa frið og frelsi og stuðla að framgangi mannkyns er að snúast gegn illvirkjum og leitast við að uppræta þá, helst með friðsamlegum hætti en án ótta við að nota vald, dugi það eitt.
Við stöndum á þeim krossgötum núna, að illvirkjum, sem vega úr launsátri að saklausum borgurum með hryðjuverkum, hefur verið sagt stríð á hendur undir forystu Bandaríkjanna með stuðningi allra þjóða. Lagt er á ráðin um baráttuna gegn þeim á þeirri forsendu, að hún verði langvinn og erfið og háð á annan hátt, en áður hefur þekkst í stríði. Þegar litið verður til baka, kunna menn að líta á sögu þessara átaka í því ljósi, að þau hafi staðið í áratugi, áður en þau tóku á sig nýja mynd hinn 11. september, 2001.
Spurt er, hvað við Íslendingar getum lagt af mörkum við þessar erfiðu aðstæður. Hlutdeild okkar tekur mið af því, að við ráðum ekki yfir herafla og höfum ekki þjálfað neina Íslendinga til slíkra starfa, en að öðru leyti hljótum við að leggja fram aðstöðu, tæki og mannafla í samræmi við nauðsyn hverju sinni. Jafnframt er nauðsynlegt fyrir okkur að líta í eigin barm og huga að því, hvort nægilegar ráðstafanir hafi verið gerðar innan íslenska stjórnkerfisins í því skyni að tryggja öryggi þjóðarinnar gagnvart árásum hryðjuverkamanna. Ég hef lýst skoðunum mínum í því efni við önnur tækifæri og nefni nýjustu grein mína um það efni, sem birtist í Morgunblaðinu í tilefni af 50 ára afmæli varnarsamningsins við Bandaríkin í maí síðastliðnum.
Einhvers staðar var látið að því liggja, að í ræðu , sem Bjarni Benediktsson, þáverandi utanríkisráðherra, flutti við undirritun Atlantshafssáttmálans, stofnskrá NATO, í Washington, 4. apríl 1949, hefði komið fram sú afstaða, að Íslendingar gætu ekki tekið þátt í skuldbindingum, sem felast í 5. gr. sáttmálans um að árás á eitt aðildarríki sé árás á þau öll. Fráleitt er að túlka ræðuna á þennan veg. Í henni er sagt afdráttarlaust, að Íslendingar hafi ekki her og geti ekki haft, þeir geti ekki og muni ekki segja annarri þjóð stríð á hendur og þeir geti alls ekki varið sig gegn neinni erlendri, vopnaðri árás, þeir hafi þess vegna verið í vafa um aðild að varnarbandalaginu en svo gæti staðið á, að Ísland hafi úrslitaþýðingu um öryggi landanna við Norður-Atlantshaf. Með aðildinni að NATO sýni Íslendingar, að bæði sjálfra sín vegna og annarra vilji þeir svipaða skipan á vörnum landsins og var í síðari heimsstyrjöldinni fyrir frumkvæði Breta og með samningi við stjórn Bandaríkjanna. Þá vilji Íslendingar jafnframt láta það koma óvtírætt fram, að þeir tilheyri og vilji tilheyra því frjálsa samfélagi frjálsra þjóða, sem stofnað var með NATO. Og í ræðunni segir orðrétt: Sömu upplausnaröflin eru hvarvetna að sinni ömurlegu iðju. Alls staðar ásaka þau okkur, sem erum að vinna fyrir friðinn, um að við viljum spilla honum. Þegar samningur þessi var ræddur á Alþingi Íslendinga, reyndu þessi öfl með valdi að hindra hina fornhelgu stofnun í starfi sínu. Slíkt ofbeldi hefur aldrei fyrr verið reynt gegn hinu þúsund ára gamla Alþingi Íslendinga. Sá afvegaleiddi hópur, sem þetta reyndi, þóttist með köllum sínum vera að hrópa á frið. Þetta framferði, að kasta grjóti með höndunum, en að hrópa á frið með vörunum, er hvorki í samræmi við arfleifð Íslendinga né vestræna menningu. Allir vitum við, hvar slíkir hættir eiga upptök sín. Heiminum stafar sannarlega ekki meiri hætta nú af öðru en þessu hugarfari……Allir tilheyrum við sömu menningunni, allir mundum við fremur kjósa að missa lífið en frelsið, hvort heldur frelsi sjálfra okkar eða þjóða okkar. Allir trúum við á vinsamlega samvinnu þjóða í milli allir óskum við heiminum friðar og mannkyninu velferðar.
Að túlka þessa ræðu á þann veg, að íslensk stjórnvöld hafi skorast undan ábyrgð samkvæmt Atlantshafssáttmálanum er fráleitt, hins vegar hétu þau því, að taka þátt í NATO á eigin forsendum, sem her- og varnarlaus þjóð. Meira en hálf öld er liðin og nú í fyrsta sinn reynir á ákvæðin um hinar sameiginlegu varnir, þá hljótum við að standa með bandamönnum okkar og jafnframt huga að því, hvort við teljum enn skynsamlegt að standa í sömu sporum varðandi eigið framlag og árið 1949.