Saksóknari ákveður hvenær barnadráp eru lögleg
Saksóknari ákveður hvenær barnadráp eru lögleg
Elías Davíðsson / Nóvember 1996
Lengi hélt ég að barnadráp væru hinn mesti glæpur sem hugsast getur. Ég hélt að barnadráp væri almennt talið refsivert athæfi. Því brá mér heldur í brún þegar ég fékk bréf frá fulltrúa ríkissaksóknara dags. 19. júní 1996 þar sem hann svarar ítarlegu erindi mínu til embættisins frá 14. maí. Í erindi mínu skoraði ég á ríkissaksóknara að lögsækja íslenskan ríkisborgara sem ég tel hafi stutt með embættisaðgerðum sínum stórfellt dráp á erlendum börnum.
Í erindu mínu, The Economic Sanctions Against the Iraqi People: Consequences and Legal Aspects, sem rúmar 38 blaðsíður og tilgreinir bæði vitneskju og lagalegar forsendur, er sýnt fram á að aðgerðir sem leiða til dauða þúsunda barna er refsivert athæfi og að þeir sem bera ábyrgð á þessum aðgerðum, án tillits til stöðu eða búsetu, bera lagalega ábyrgð á afleiðingum slíkra aðgerða. Sá verknaður sem um ræðir er mjög alvarlegur alþjóðaglæpur sem er í senn alþjóðlegt hryðjuverk og stríðsglæpur.
Svar fulltrúa ríkissaksóknara er stutt: "Á grundvelli erindis yðar verður eigi aðhafst af hálfu ákæruvalds". Enginn rökstuðningur fylgir. Af svarinu verður eigi séð hvað liggur að baki þess, stjórnmálaviðhorf höfundar, kunningsskapur við hinn ákærða, lagaleg úttekt eða eintóm leti.
Ég er því knúinn til að leggja eigið mat á þennan úrskurð. Og túlkun mín er þessi: Samkvæmt þessu svari er íslenskum ríkisborgurum heimilt að taka þátt í drápum á erlendum börnum ef það er persónuleg skoðun ríkissaksóknara að þessi dráp séu réttlætanleg.
Hér er verið að brjóta blað í réttarþróun á Íslandi. Svo virðist að íslensk lög leggja það í hendur eins manns að meta, án dóms og laga, hvort tiltekin manndráp séu réttlætanleg eða ei. Ef ríkissaksóknari hefur heimild til að taka slíka ákvörðun án nokkurs rökstuðnings og ákvörðun hans verði ekki áfrýjað til æðri dómstóla, er ljóst að Ísland getur ekki talist réttarríki. Það er því ósk mín að lögmenn kanni nánar þennan úrskurð og þær afleiðingar fyrir réttarþróun sem hann kann að hafa í för með sér. Ennfremur væri æskilegt að kanna lögmæti þessa úrskurðar í ljósi alþjóðlegra skuldbindinga Íslands.
Elías Davíðsson