Sigurður A. Magnússon: Furðulegt að setja mann í ritbann
Elías og Morgunblaðið: Furðulegt að setja mann í ritbann
Þjóðviljinn, 1. mars 1990
Mér finnst alveg furðulegt að setja mann í ritbann, en ég þekki þessar tilteknu ástæður. Þetta er mjög fátítt í vestrænum löndum en ber sterkan keim af því sem gerðist til skamms tíma fyrir austan tjald, sagði Sigurður A. Magnússon rithöfundur um þá ákvörðun Morgunblaðsins að setja Elías Davíðsson skólastjóra í ritbann.
Eins og Þjóðviljinn skýrði frá í gær fékk Elías bréf frá öðrum ritstjóra Morgunblaðsins í síðustu viku þar sem honum var tilkynnt að blaðið hefði ekki áhuga á að birta greinar hans.
Sigurður sagðist ekki í svipinn muna eftir öðru slíku dæmi þar sem einstaklingur væri settur, að því er virðist, í ævilangt ritbann í einu dagblaði. Þetta hefur sennilega verið tíðkað í praxís án þess að það hafi nokkurn tíma verið tilkynnt. Þetta er sögulegt að því leyti, sagði hann.
Sigurður telur að einkafyrirtæki, eins og Morgunblaðið, hafi leyfi til að hafna mönnum. Þeir segjast ekki vera að setja hann í þetta bann út af skoðunum hans. En það er alltaf hægt að segja eitt og meina annað. Ég hef grun um að þetta hafi eitthvað með gagnrýni hans á Morgunblaðið að gera. Þá finnst mér lítilmannlegt að þola það ekki.
Sigurður sagði að í reynd væri stunduð hér stórkostleg ritskoðun. Bæði Stöð 2 og ríkissjónvarpið eru nánast rekin sem útibú Sjálfstæðisflokksins. Tvö stærstu blöðin eru algerlega á þeim kantinum, þannig að 80-90 prósent af allri fjölmiðlun í landinu er á einni hendi og gersamlega undir hælnum á þessum hægriöflum í landinu. Það er svo skrýtið að Ísland virðist vera að færast í þátt (sic) sem austantjaldslöndin eru að fara úr. Við erum að vera algerlega einlitt þjóðfélag og það líst mér mjög illa á, sagði Siguður A. Magnússon rithöfundur.