Sigurjón Þórðarson um áhuga Björns Bjarnasonar á símahlerunum
Sigurjón Þórðarson, alþingismaður
Þriðjudagur 30. maí 2006
Pistill á Útvarpi Sögu í dag
Ágætu hlustendur Útvarps Sögu.
Það er Sigurjón Þórðarson þingmaður Frjálslynda flokksins sem flytur ykkur hér skoðun dagsins.
Þetta hefur verið viðburðarík helgi í íslenskum stjórnmálum, sveitarstjórnarkosningar við þær aðstæður að mikil spenna er í efnahagslífinu, verðbólgan geisar og mikil óánægja stórra þjóðfélagshópa er með kjör sín, s.s. aldraðra.
Fyrir helginu urðu reyndar talsverð tíðindi, en þá náði Björn Bjarnason sér verulega á strik þegar hann lét hugann reika aftur til þess tíma sem hann kann best við sig í, þ.e. gamla góða kaldastríðsins. Ástæðan fyrir hugleiðingum Björns voru nýjar uppljóstranir Guðna Th. Jóhannessonar um að símar herstöðvaandstæðinga hefðu verið hleraðir á dögum kaldastríðsins. Einn af þeim sem heimilaði hleranirnar var einn af mikilvægustu stjórnmálaleiðtogum 20. aldarinnar, Bjarni Benediktsson, faðir núverandi dómsmálaráðherra.
Það þurfti ekki að koma mjög á óvart að Birni Bjarnasyni væri fyrirmunað að sjá nokkuð athugavert við embættisfærslu föðurins, Bjarna Benediktssonar, þegar Bjarni heimilaði símhleranir hjá pólitískum andstæðingum sínum. Björn Bjarnason dómsmálaráðherra tjáði sig um málið á heimasíðu sinni og má greina í gegnum skrifin sérkennilega hræru af gremju og gleði.
Það skein gleði í gegn yfir því að vera dottinn aftur í tíma kaldastríðsins og síðan gremju og ólund yfir því að það sé yfirhöfuð talið óeðlilegt nú í dag að hleranir hafi tíðkast á símum sósíalista.
Björn Bjarnason hefur átt erfitt með að komast út úr hugsanagangi kaldastríðsins og honum er greinilega fyrirmunað að sjá að eitt og annað sem viðgekkst þá hafi orkað tvímælis.
Björn föðurbetrungur
Ég þekki það í gegnum störf mín á Alþingi að Björn er einstakur áhugamaður um hleranir og hefur hann lagt fram hvert frumvarpið á fætur öðru þar sem hefur átt að rýmka allar heimildir til hlerana.
Birni hefði verið í lófa lagið að svara fyrir þetta mál með því að skipa nefnd og fara í gegnum margra áratuga sagnfræði með málefnalegum hætti en manninum virðist algerlega fyrirmunað að laga hugsanagang sinn að nútímanum.
Það sem ég vonast til þess að komi út úr þeirri umræðu sem nú fer af stað um hleranir er hvernig staðið er að þeim í dag og nauðsyn þess að skipuð sé þverpólitísk þingnefnd sem hafi eftirlit með hlerunum og fyrirhugaðri greiningardeild ríkislögreglustjóra.
Það er nauðsynlegt að tryggja borgarleg réttindi almennings og ef yfirvöld neyðast til þess að fylgjast með og njósna um borgarana sé það tryggt eins og nokkur kostur er að það sé ekki misnotað.
[…]