Skýrsla utanríkisráðherra 3. október 2001 og umræður
3.10.2001
Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):
[…] Hryðjuverkaárásirnar á Bandaríkin hafa þegar haft djúpstæð áhrif um heim allan og ekki sér fyrir endann á afleiðingum þeirra. Seint eða aldrei mun mönnum líða úr minni þær ógnvekjandi myndir sem fyrir augu bar er tveimur farþegaþotum var flogið á turnana tvo í New York borg að morgni 11. september síðastliðins, og síðan einnig á Pentagon. Eflaust verður þess einnig langt að bíða að við áttum okkur til fullnustu á þýðingu þeirra voveiflegu atburða sem öll heimsbyggðin fylgdist með þennan örlagaríka dag fyrir þremur vikum. Eitt er þó hafið yfir allan vafa, að veröld okkar verður aldrei söm á eftir.
[…]
Áður en lengra er haldið veit ég að þingheimur allur tekur undir samúðarkveðjur mínar til bandarísku þjóðarinnar, ríkisstjórnar Bandaríkjanna og allra þeirra fjölmörgu um heim allan sem syrgja lát ættingja og vina.
Hverjir stóðu að baki hinum samviskulausu árásunum þennan dag er sú spurning sem bandarísk stjórnvöld í samvinnu við fjölmörg ríki hafa leitast við að svara að undanförnu. Hinir seku verða dregnir til ábyrgðar. [Ath. 1] Um réttmæti þess efast enginn. Böndin bárust skjótt að hinum samviskulausa hryðjuverkamanni Osama bin Laden og samverkamönnum hans í Al Qaeda hreyfingunni sem láta fyrir berast í Afganistan í skjóli talibanastjórnarinnar í Kabúl. Á ráðsfundi í Atlantshafsbandalaginu í gær lögðu Bandaríkjamenn fram gögn um að árásirnar voru skipulagðar af Al Qaeda með vitund og vilja bin Ladens. [Ath. 2]
Menn leita skýringa á voðaverkunum. En látum ekki blekkjast. Þau hryðjuverkasamtök sem hér voru að verki eru ekki knúin áfram af háleitum pólitískum eða trúarlegum markmiðum heldur vakir einungis fyrir þeim að valda sem mestri eyðileggingu, sem dýpstum harmi og sem mestri upplausn. Þau ráðast að kjarna siðmenningar okkar og reyna með huglausum og grimmilegum árásum að grafa undan lýðræði og frelsi sem þau ríki sem samtökin beina helst spjótum sínum að hafa í hávegum.
[…]
Til að skipuleggja og hrinda í framkvæmd voðaverkunum þann 11. september hefur þurft umtalsvert skipulag og ekki síður fjármagn. Hvaðan skyldi það komið? [Ath. 3] Tengsl alþjóðlegra hryðjuverkasamtaka við smygl og sölu eiturlyfja og vopna eru löngu kunn.[Ath. 4] Í skýrslu Sameinuðu þjóðanna um eiturlyf árið 2000 segir m.a. að Afganistan sé stærsti framleiðandi ópíums í heiminum og að framleiðsla hafi aukist um helming frá árinu 1999, auk þess sem landið væri að verða hið stórtækasta í heiminum í framleiðslu á heróíni.[Ath. 5] Alþjóðlegir glæpahringir í samvinnu við herskáar sveitir hryðjuverkamanna gæta þess að halda smyglleiðum um fáfarna fjallvegi opnum. Baráttan gegn hryðjuverkum tengist með beinum hætti hinni almennu baráttu gegn skipulagðri glæpastarfsemi, svo sem peningaþvætti, smygli á eiturlyfjum, smygli á vopnum og mansali.
[…]
Einstök samstaða hefur myndast um heim allan um nauðsyn þess að ríki standi saman í baráttunni gegn hryðjuverkamönnum. [Ath. 6] Starfsemi þeirra þekkir engin landamæri og því duga skammt þau ráð sem einstakar ríkisstjórnir geta beitt. Það ber að fagna frumkvæði Bandaríkjastjórnar að vinna málefninu lið og baráttunni stuðning með myndun alþjóðlegs bandalags gegn hryðjuverkamönnum.
Samstaða innan alþjóðastofnana sem Ísland á aðild að hefur verið meiri en nokkru sinni fyrr. Evrópuráðið, Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu og Sameinuðu þjóðinar hafa allar sem ein fordæmt árásirnar harðlega. Yfirlýsing öryggisráðsins frá 12. september tekur af allan vafa um rétt ríkja til sjálfsvarnar og hvetur ríki heims að víkja hvergi í baráttunni við þessa ógn við frið og öryggi í heiminum.[Ath.7]
Mestu skiptir að þjóðir heims taki höndum saman í baráttunni við að tryggja að slíkir atburðir endurtaki sig ekki. Öll ábyrg ríki verða að leggjast á eitt um að útrýma þeirri vá sem heimsbyggðinni og þá ekki síst saklausum borgurum, stafar af alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi. Fleira þarf til. Uppræta verður samskiptanet og stoðkerfi afla sem að árásinni standa. Efla verður viðbúnað ríkja til að bregðast við hryðjuverkum og afleiðingum þeirra. Nauðsynlegt er að samfélag þjóðanna samhæfi diplómatískar aðgerðir á vettvangi alþjóðasamtaka, ekki síst Sameinuðu þjóðanna og undirstofnana þeirra. Efla þarf samstarf á fjölmörgum ólíkum sviðum, svo sem upplýsingaöflunar, réttarfars, löggæslu, bankamála, útlendingaeftirlits og almannavarna. Síðast en ekki síst er óhjákvæmilegt að þau ríki sem skuldbundist hafa hvert öðru um stuðning og aðstoð ef á þau yrði ráðist, geri viðeigandi ráðstafanir á sviði varnar- og öryggismála og er þar komið að hinum mikilvæga þætti Atlantshafsbandalagsins.
Í fyrsta sinn í sögu Atlantshafsbandalagsins var ákveðið að fólskuleg árás hryðjuverkamanna á Bandaríkin jafngilti árás á öll aðildarríki bandalagsins eftir að í ljós kæmi að hún yrði skilgreind sem utanaðkomandi árás. Nú liggur fyrir að svo hefur verið.[Ath. 8] Yfirlýsing bandalagsins markar straumhvörf í hálfrar aldar sögu þess. Ákvæði 5. greinar koma nú til framkvæmda í fyrsta skipti. Enn fremur ber nú að líta svo á að gagnkvæmar varnarskuldbindingar aðildarríkja geti einnig átt við um skipulagða hryðjuverkastarfsemi sem beint er gegn einu eða fleirum aðildarríkja.[Ath. 9] Ákvæði 5. gr. byggja á 51. gr. sáttmála Sameinuðu þjóðanna sem tryggir öllum ríkjum rétt til eigin varna og sameiginlegra.
Enn er óvíst með aðgerðir af hálfu bandalagsins. Ekki ber að líta svo á að sá sem verður fyrir árásinni sé háður samþykki allra aðildarríkja um þær aðgerðir sem hann hyggst grípa til, enda væri það í mótsögn við réttinn til sjálfsvarnar sem sáttmáli Sameinuðu þjóðanna tryggir öllum öllum ríkjum. Íslensk stjórnvöld hafa lýst samstöðu með bandarískum stjórnvöldum við tilraunir þeirra til að hafa hendur í hári sökudólganna og draga þá til ábyrgðar. Hin nýja öryggisstefna bandalagsins sem samþykkt var á leiðtogafundi bandalagsins í Washington 1999 gerir ráð fyrir að bandalagið geti í auknum mæli þurft að bregðast við nýjum hættum og ógnum, svo sem hryðjuverkum, skipulagðri glæpastarfsemi og útbreiðslu gereyðingarvopna.
Mikilvægt er að Ísland taki virkan þátt í hinu alþjóðlega bandalagi gegn alþjóðahryðjuverkasamtökum og gerist svo skjótt sem kostur er aðili að þeim samningum sem miða að því að vinna gegn hryðjuverkum. Aðlaga þarf lög og reglur innan lands og er þessi vinna þegar hafin, meðal annars var lagður fyrir Alþingi á mánudag listi yfir samninga þarf að fullgilda á þessu þingi.
Fórnarlömb hryðjuverkamanna eru ekki einungis saklausir borgarar ríkja sem eru skotmörk þeirra heldur einnig saklausir borgarar þeirra ríkja sem styðja hryðjuverkamenn.[Ath. 10]
Almenningur í Afganistan er langþjáður af hungri og öðrum hörmulegum afleiðingum stríða og ógnarstjórna. Milljónir flóttamanna eru í nálægum löndum. Þrjár milljónir Afgana hafa á undanförnum 25 árum flúið til Pakistan. Ótti almennings í Afganistan við hernaðaraðgerðir vegna tregðu talibanastjórnarinnar til samvinnu [Ath. 11] hefur hrint af stað nýrri öldu flóttamanna. Margir eiga hvergi höfði sínu að halla. Okkur ber skylda til að veita þessu fólki aðstoð.
Ríkisstjórnin hefur því ákveðið að veita 10 millj. kr. til aðstoðar flóttamönnum frá Afganistan og verður haft samráð við Rauða kross Íslands og Hjálparstofnun kirkjunnar um ráðstöfun fjárins. Þessar mikilvægu stofnanir munu leita til almennings um stuðning við hjálparstarf í Afganistan og hvet ég landsmenn til að leggja því máli lið.
Þær aðgerðir sem Evrópusambandið hefur ákveðið að grípa til eru líklegar til að varða Ísland beint þar sem þær tengjast á ýmsum sviðum Schengen-samstarfinu og því samstarfi sem Ísland á við Europol á grundvelli sérstaks samstarfssamnings. Mun Ísland ekki láta sitt eftir liggja að grípa til þeirra aðgerða sem þörf er á á sviði alþjóðlegrar lögreglusamvinnu í því skyni að efla enn frekar samstarf þjóða í baráttunni gegn þeim vágesti sem hér um ræðir. Þetta kann að kalla á ýmsar lagabreytingar hér á landi sem nú er til athugunar hjá hæstv. dómsmrh.
Nauðsyn er á samstöðu þjóðarinnar á þessum viðsjárverðu tímum. Grunur leikur á að fleiri ódæðisverk séu í undirbúningi [Ath. 12] en mikil óvissa ríkir um hvort, hvenær og hvar. Enginn er óhultur. Með samhentu átaki ríkja heims vona ég að koma megi í veg fyrir frekari ódæðisverk. Við verðum að taka höndum saman og berjast gegn þessari vá. Sú barátta er hafin yfir flokkadrætti. Landsmenn allir verða að standa saman.[Ath. 13] Ekki verður hjá því komist að um leið og öryggi landsmanna er gætt eins og frekast er kostur hljótist af því einhver óþægindi. Þegar hafa menn lent í töfum á flugi og lengri bið á flugvöllum vegna herts eftirlits.
Við megum ekki láta hryðjuverkamenn komast upp með það ætlunarverk sitt að grafa undan þeim gildum sem samfélag þjóðanna byggir á. Hryðjuverk eru glæpur gegn mannkyninu og aldrei réttlætanleg.[Ath. 14] Baráttan gegn hryðjuverkum er ekki barátta gegn einhverjum kynþætti, þjóðarbroti eða trúarhópi, heldur barátta gegn þeim sem standa að baki tilræðum og árásum á saklausa borgara og svífast einskis í þeim efnum. Baráttan verður ekki háð nema með samstöðu, innan lands og milli ríkja. Hér duga engar skammtímalausnir. Þörf er sameiginlegs langtímaátaks ef takast á að koma lögum yfir þá sem með beinum eða óbeinum hætti bera ábyrgð á ódæðunum.
Baráttan gegn hryðjuverkum er barátta fyrir framtíð okkar, fyrir frelsi, menningu, réttlæti og öryggi fyrir okkur sjálf og kynslóðirnar sem á eftir koma.[Ath. 15] Sú barátta er jafnframt barátta fyrir bættum hag og framtíð þess fólks sem nú líður fyrir návist hryðjuverkamanna. Í þessu máli geta því allir sameinast.
Össur Skarphéðinsson:
Herra forseti. Við erum öll, Íslendingar allir, slegin djúpri hryggð yfir þeim atburðum sem við urðum vitni að svo að segja í beinni útsendingu gegnum hið alsjáandi auga myndavélarinnar þann 11. sept. Ég tek heils hugar undir samúðarkveðjur sem íslensk stjórnvöld, hæstv. forsrh. og utanrrh., hafa sent bandarísku þjóðinni.
[…]
Þessi atburður hefur kallað fram órofa samstöðu nánast allra þjóða heimsins. [Ath. 16] Síðast í gær var Pútín Rússlandsforseti á ferðalagi í Brussel til þess að lýsa yfir gagnvart yfirstjórn NATO að hann væri reiðubúinn að taka upp sérstök og ný og önnur tengsl við NATO til að vinna gegn þeirri nýju vá sem við stöndum andspænis.[Ath. 17] Hæstv. utanrrh. kallar eftir samstöðu þjóðarinnar. Hann segir: Þetta mál er hafið yfir flokkadrætti. Við stöndum andspænis atburðum af því tagi að við þurfum að standa saman. Ég vil af því tilefni, herra forseti, segja það að mér hefur fundist málflutningur hæstv. utanrrh. ákaflega jákvæður og hófstilltur. Þó að ég geti ekki lofað hæstv. utanrrh. að ég muni verða honum samferða alla leið þá heiti ég honum samstöðu Samfylkingarinnar í þeim ákvörðunum sem hann hefur tekið nú þegar.
Herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar að sá mikli stuðningur sem Atlantshafsbandalagið og Evrópusambandið og þær þjóðir sem við finnum til skyldleika við hafa sýnt Bandaríkjamönnum hafi leitt til þess að viðbrögð þeirra hafi orðið miklu hófstilltari en ella. Einhvern tíma hefði maður búist við því að fyrstu viðbrögð Bandaríkjamanna gegn svona svívirðilegri árás huglausra hermdarverkamanna hefði leitt til eldflaugaárása, strax fyrsta kvöldið.[Ath. 18] En þeir sem e.t.v má kalla dúfur, skynsemismenn, menn yfirvegunar, menn eins og utanríkisráðherra Bandaríkjanna, réðu ferðinni [Ath. 19] og kannski var það blökkudrengurinn, sonur fátæku blökkuforeldranna úr gettóunum í Bandaríkjunum, sem skynjaði hvað þarna var á ferð og réð förinni vegna þess að aðgerðir Bandaríkjamanna hafa verið miklu hófstilltari síðustu daga en fyrstu yfirlýsingar gáfu til kynna eins, t.d. yfirlýsingar Bush forseta sem mér líkuðu ekki til að byrja með. Veröldin verður aldrei söm aftur.
En það skiptir máli að við tökum saman höndum til þess að berjast gegn þessum voðaverkum. [Ath. 20] Mér líkaði vel sú greining sem hæstv. utanrrh. var með hér áðan, þar sem hann tengdi saman þessar þrjár nýju ógnir sem steðja að okkur, þ.e. það eru hermdarverkin sem eru fjármögnuð með sölu fíkniefna og með mansali sem er e.t.v. það allra ógeðfelldasta af þessu öllu, þegar verið er að selja konur og börn til þess að fjármagna voðaverk af þessu tagi.[Ath. 21]
Herra forseti. Það skiptir mestu að tryggja að þessi atburður endurtaki sig ekki. Ég er sammála hæstv. utanrrh. um það. Við eigum að taka yfirvegaðar og hófstilltar ákvarðanir. Auðvitað þarf að sýna hramm valdsins, það er rétt. En við eigum að hafa í huga þau orð sem formaður breska Verkamannaflokksins lét falla á þingi flokksins í gær: ,,Hinir látnu vilja ekki hefnd. Þeir vilja annars konar og jákvæðari minningu í huga eftirlifenda.“
Ég tek heils hugar undir þessi orð. Ég er viss um að hæstv. utanrrh. a.m.k. gerir það líka í hjarta sínu. Það breytir ekki hinu að með einhverjum hætti verðum við að koma lögum yfir misindismennina, og hvernig gerum við það?
Ódæðismaðurinn Osama bin Laden situr í skjóli afganskra stjórnvalda. Það hefur komið fram að 94% íslensku þjóðarinnar vilja að sá kóni verði dreginn fyrir lög og dóm, enda hefur nú komið fram óræk sönnun fyrir því að hann stendur á bak við þetta.[Ath. 22] Með hvaða hætti drögum við hann þá fyrir lög og dóm? Hann situr í skjóli stjórnvalda sem virðast ekki vilja láta hann af hendi. [Ath. 23]. Það þýðir einfaldlega að við verðum að fara og sækja hann. Hvers konar skilaboð væru það til annarra svipaðra hryðjuverkasamtaka ef við létum afgönsk stjórnvöld komast upp með að skjóta áfram skjólshúsi yfir hann? Það gengur ekki. Það þýðir að það verður að sækja hann. En það verður að gera með þeim hætti að það kosti ekki fórnir af hálfu óbreyttra borgara, barna, kvenna og karla sem eiga enga sök á þessu. Maður treystir því auðvitað að sameinuð herveldi heimsins geti gert slíkt.
Herra forseti. Heimurinn er breyttur eftir þetta. Hæstv. utanrrh. sagði: ,,Osama bin Laden og samtök hans vilja kalla glundroða yfir heiminn.`` Hvað hafa þau hafa gert nú þegar? Þau hafa lostið hrammi sínum á tvær táknmyndir bandarísks samfélags, annars vegar miðstöð hinnar alþjóðlegu fríverslunar, miðstöð hins alþjóðlega fjármagns, þ.e. World Trade Center, og hins vegar táknmynd bandarískrar stjórnsýslu. Þessu tvennu náðu þau. En auðvitað vilja þau þriðja líka. Þessir menn, þessir fúndamentalistar, vilja auðvitað kalla fram stríð á milli Vesturlanda og hins íslamska heims, m.a. til þess að geta hrundið frá völdum tiltölulega hófsömum ríkisstjórnum við Persaflóa. Það er eitt af því sem þeir eru að gera. Við á Vesturlöndum verðum auðvitað að gæta þess, þegar við svörum þessum hryðjuverkum, að við færum þeim ekki þann áfanga upp í hendur. Það skiptir öllu máli og það er þess vegna sem hófstillt viðbrögð skipta máli.
Ég hef áður sagt að a.m.k. af hálfu Íslendinga hafa viðbrögðin verið hófstillt til þessa þó að auðvitað hafi líka heyrst, jafnvel frá þeim sem síst skyldi, tal sem ekki er hægt að kalla annað eða telja til skyldleika við einhvers konar stríðsæsingar. En það kemur ekki úr utanrrn.
Hæstv. utanrrh. hefur lýst því ferli sem orðið hefur til þess að 5. gr. stofnsáttmála Atlantshafsbandalagsins hefur verið virkjuð. Ákvörðun Íslendinga um að taka þátt í þeirri virkjun var auðvitað meiri háttar ákvörðun sem var borin undir utanrmn. Eins og hæstv. utanrrh. hefur lýst hafa Bandaríkin hvaða rétt sem þau vilja, samkvæmt 51. gr. sáttmála Sameinuðu þjóðanna, til þess að grípa til þeirra aðgerða sem þau kjósa. En ef um er að ræða aðgerðir sem eru sameiginlegar af hálfu Atlantshafsbandalagsins og eru beinlínis hernaðaraðgerðir þá hlýtur líka að vera um meiri háttar aðgerðir að ræða sem eru bornar undir Atlantshafsráðið og þar með ræddar sérstaklega í ríkisstjórn Íslands. Þess vegna vil ég leyfa mér að varpa spurningu til hæstv. utanrrh. Komi til þess að Atlantshafsbandalagið verði aðili að hernaðaraðgerðum er þá ekki alveg ljóst að það verði rætt í ríkisstjórn Íslands og líka borið undir Alþingi, þ.e. þá nefnd Alþingis sem með þetta fer, utanrmn., í krafti þess sérstaka ákvæðis þingskapa um að meiri háttar ákvarðanir skuli bornar undir Alþingi Íslendinga með þeim hætti?
Að lokum, herra forseti. Við blasa nýjar ógnir. Þær blasa ekki bara við þessum stóru ríkjum úti í heimi heldur líka gagnvart okkur Íslendingum. Sú hætta er alltaf fyrir hendi að erlend hryðjuverkasamtök kjósi að slá tjöldum sínum hér á Íslandi. Menn kynnu að segja að það væri ótrúlegt og ótrúverðugt að halda slíku fram. En, herra forseti, fyrir 11. sept. hefði ég hlegið að þeim manni sem hefði sagt mér að erlend hryðjuverkasamtök gætu tekið herskildi fjórar flugvélar í innanlandsflugi í Bandaríkjunum, molað efnahagskerfi Bandaríkjanna, gert Bandaríkin stjórnlaus í nokkrar klukkustundir og skekið þannig skellum að Vesturlöndum öllum að sjálft efnahagskerfi okkar riðaði til falls. Allt getur gerst og við verðum að líta svo á að allt sé mögulegt. Hæstv. utanrrh. skilaði þinginu merkilegri skýrslu árið 1999 þar sem þetta mál er reifað með skynsamlegum hætti. Þar er einmitt sagt að það þurfi að meta þær raunverulegu hættur sem Íslandi sé búið í stjórnkerfi og mannvirkjum og það er sérstaklega tekið til hermdarverkastarfs. Þess vegna vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. utanrrh.: Með hvaða hætti hefur hann undirbúið varnir Íslands gagnvart þessari nýju ógn? Hefur hann gert þetta mat? Ég spyr hann líka: Mun hann í þeim viðræðum sem fyrirhugaðar eru um bókun við varnarsamninginn einnig gera þessar nýju ógnir að meginatriði?
Tómas Ingi Olrich:
Herra forseti. Árás hryðjuverkamanna á Bandaríkin 11. sept. sl. markar dapurleg þáttaskil í alþjóðlegum samskiptum og öryggismálum. Ekki beinlínis vegna þess að siðleysi hryðjuverkahópa, takmarkalaus fyrirlitning þeirra, mannfyrirlitning þeirra og grimmd hafi ekki áður endurspeglast í árásum á saklausa borgara. Þessi þáttaskil markast heldur ekki af því að okkur væri ekki kunnugt um að hryðjuverkahópar nytu velþóknunar og hernaðarlegs og fjárhagslegs stuðnings ákveðinna ríkja. Upplýsingar um beinan stuðning Sovétríkjanna og leppríkja þeirra við hryðjuverkamenn liggja fyrir, eru skjalfestar og hafa verið gefnar út.[?]
Þáttaskilin urðu jafnvel ekki vegna þess að okkur væri ókunnugt um að hryðjuverkahópar og verndarar þeirra leituðu allra leiða, þar á meðal efna- og sýklavopna, til að koma höggi á hinn siðmenntaða heim. Upplýsingar liggja fyrir um tilraunir Íraka til að koma sér upp kjarnavopnum og efnavopnum. Þessar upplýsingar hafa einnig verið gefnar út á prenti.
Nei, hin dapurlegu þáttaskil hafa orðið vegna þess að á einum degi skilgreindu atburðirnir sjálfir og umfang þessara atburða þá meginógn sem nú steðjar að þjóðum heimsins.[Ath. 24] Og þessi ógn steðjar að þjóðum heimsins en öllu öðru framar steðjar hún að lýðræðisþjóðfélögum þar sem frelsi á öllum sviðum mannlegra samskipta er orðið undirstaða samfélagsins. Árásin á Bandaríkin er því aðför að lýðfrelsi og einstaklingsfrelsi, aðför að opnum og greiðum samskiptum í markaðshagkerfi sem hefur öðru fremur bætt hag þjóða heimsins.
Árásin var umfram allt aðför að þeirri öryggistilfinningu sem er undirstaða slíkra opinna samfélaga, undirstaða mannlegra samskipta, undirstaða ferðalaga, alþjóðlegs samstarfs og samskipta.
Umfang atburðarins, manntjónið en einnig aðferðir glæpamannanna, hófu áður þekkta ógn í annað og meira veldi en menn höfðu getað ímyndað sér. Ekki aðeins var vopnum beitt gegn saklausum borgurum heldur var saklausum borgurum og almennum samgöngutækjum breytt í tortímingarvopn og þeim beitt með áður óþekktum afleiðingum.
Umfang atburðarins og val skotmarkanna breytti í raun eðli hermdarverka og þessi breyting er varanleg. Það er ljóst að tilgangur hryðjuverkamannanna var ekki aðeins að ráðast gegn Bandaríkjunum og því sem þau standa fyrir ásamt bræðraþjóðum sínum. Tilgangurinn var einnig að hrinda þjóðum heimsins út í trúarbragðaátök.[Ath. 25] Sérstaklega ber að fagna því hve einarðlega þjóðarleiðtogar hafa hafnað því að hér sé um að ræða átök milli trúarbragða. Sá stóri vandi sem upp er kominn er vandi allra þjóða og allra trúarbragða. Hann er vandi allra heimshluta og allra þjóðskipulaga. Svo einstæður atburður krefst sérstakra viðbragða, hann krefst mikils styrks, jafnt pólitísks styrks sem siðferðilegs. Hann krefst yfirvegunar en jafnframt kallar hann á fumlaus og hörð viðbrögð.
Viðbrögð Bandaríkjamanna og bandamanna þeirra í Atlantshafsbandalaginu hafa verið ákveðin og yfirveguð. Bandalagið hefur lýst því yfir að litið sé á árásina sem árás á öll bandalagsríkin. Gagnkvæmar skuldbindingar 5. gr. Norður-Atlantshafssáttmálans verða þar af leiðandi virkar. Það markar tímamót sem og sú ákvörðun að líta svo á að hryðjuverk falli undir hinar gagnkvæmu skuldbindingar.
Enn er óljóst hvernig Bandaríkjamenn munu bregðast við í samræmi við rétt sinn til sjálfsvarnar. [Ath. 26]. Mikilvægt er að átta sig á því að 5. gr. Norður-Atlantshafssáttmálans byggir á 51. gr. stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna sem tryggir öllum ríkjum rétt til sjálfsvarnar. Í tilvikum þar sem þessi réttur á við er ekki gert ráð fyrir því að leita þurfi sérstaks umboðs öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna til hernaðarlegra aðgerða. Ljóst er þó að viðbrögð Bandaríkjamanna við þessum hörmulegu atburðum verða mjög margþætt. Gripið verður til pólitískra, efnahagslegra og lagalegra aðgerða. Bandaríkin hafa lagt áherslu á samstöðu ríkja heimsins um slíkar ráðstafanir.
Afar mikilvægt er að þau ríki sem skotið hafa skjólshúsi yfir hryðjuverkamenn, veitt þeim aðstöðu til þjálfunar og fjármagnað athæfi þeirra, verði einangruð, aðþrengd og látin svara ábyrgð. [Ath. 27]. Skilaboð breska forsætisráðherrans í þessu efni voru skýr og tæpitungulaus.
Óljóst er með hvaða hætti bandalagsþjóðir [Ath. 28] NATO taka þátt í aðgerðum. Hitt er ljóst að atburðirnir hafa þegar haft djúptæk áhrif á samstarf bandalagsþjóðanna. Þær þjappa sér saman og efla samstarf sitt. Bandalagsríkin hafa lýst yfir óskiptum pólitískum stuðningi við Bandaríkin og þær almennu aðgerðir sem þau hafa gripið til. Bandalagsríkin hafa einnig undirbúið stóraukið samstarf á því sviði sem hefur í raun verið allt of veikt, þ.e. samstarf á sviði upplýsingaöflunar. Það er ekki síst mikilvægur liður í forvarnastarfi og vörnum gegn frekari voðaverkum sem kunna að vera í undirbúningi.
Herra forseti. Utanrmn. Alþingis samþykkti á fundi sínum 12. sept. sl. ályktun um hina miskunnarlausu árás á Bandaríkin. Nefndin vottaði bandarísku þjóðinni sína dýpstu samúð og lýsti yfir stuðningi við Bandaríkjastjórn.[Ath. 29] Nefndin lagði áherslu á að þeir sem bæru ábyrgð á voðaverkunum yrðu dregnir til ábyrgðar og að þjóðir heimsins sameinuðust í baráttu gegn hryðjuverkamönnum og þeim sem veita þeim skjól. Nefndin stóð öll að þessari samþykkt og það undirstrikar þá breiðu pólitísku samstöðu sem þessi aðför að lýðræði og mannréttindum hefur skapað.
Á 2. fundi utanrmn. var staðfestur mótatkvæðalaust heils hugar stuðningur við ákvarðanir ríkisstjórnarinnar og stuðning hennar við ákvarðanir Norður-Atlantshafsráðsins. [Ath. 30]. Miklu skiptir að almenn pólitísk samstaða verði um afstöðu til aðgerða vegna þessara hörmulegu atburða. Það er mikið í húfi. Einarðri kröfu um að hryðjuverkamennirnir verði framseldir hefur verið komið á framfæri. Ekkert bendir til þess enn að við þeirri sjálfsögðu kröfu verði orðið.
Í skoðanakönnunum hefur komið fram eindreginn stuðningur við framsal glæpamannanna hér á landi. Hins vegar hefur ekki komið fram hver afstaðan er til þess sem gera þarf ef framsalskröfunni verður áfram hafnað, enda hefur ekki verið leitað eftir þeirri afstöðu öfugt við það sem haldið hefur verið fram.
Eftir að kalda stríðinu lauk hafa þær raddir gerst háværari að ekki þyrfti að sinna öryggismálum. Andstæðingurinn hefði týnst, óvinurinn væri ekki í sjónmáli. [Ath. 31] Þeir sem hafa haft fætur á jörðinni hafa lagt áherslu á varnar- og öryggismál og bent á að að ýmsu leyti væri umhverfi öryggismála óljósara og ástandið óvissara en áður. Það hefur komið í ljós að þeir höfðu enn einu sinni rétt fyrir sér. Við þurfum að treysta varnarviðbúnað okkar og leita nýrra leiða gegn nýrri ógn. Við þurfum enn að reka ábyrgðarmikla varnarstefnu og treysta sameiginlegar varnir bandalagsþjóða okkar.Íslendingar eru friðsöm þjóð. Í Atlantshafsbandalaginu sameinast þjóðir sem vinna saman að því að varðveita frið í sínum heimshluta með sameiginlegum öryggisráðstöfunum og skuldbindingum. Viðbrögð bandalagsríkjanna við þeim mikla vanda sem við stöndum nú frammi fyrir hafa verið yfirveguð og fumlaus. Ef til aðgerða kemur til að refsa hinum seku og uppræta útungunarstöðvar hryðjuverkamannanna og bandamanna þeirra er hins vegar brýnt að þjóðir heimsins sýni samstöðu og bandalagsþjóðir NATO virði skuldbindingar sínar. Ekkert er hættulegra en að láta hryðjuverkamenn og verndara þeirra finna að þeir geti leikið á samstöðuleysi og úrræðaleysi þeirra sem standa vörð um lýðræði og mannréttindi.
Ljóst er að þessir miklu atburðir munu hafa afar neikvæð efnahagsleg áhrif á hagkerfi heimsins. Ljóst er að auðugri þjóðir munu hafa meira þanþol til að bregðast við þessum erfiðleikum en hinar fátækari. Þessir atburðir munu því hafa verst áhrif á stöðu fátækustu þjóða heimsins.
Það má búast við því að fyrstu viðbrögðin verði skammtímaviðbrögð, yfirveguð, vel grunduð skammtímaviðbrögð. [Ath. 32]. Síðan munu menn velta því fyrir sér hvernig hægt sé að bregðast við til lengri tíma. Þá mun athygli heimsins beinast að því hve efnahagur heimsins styðst í vaxandi mæli, með hverju ári, við jarðefnaorkuvinnslu í Miðausturlöndum þar sem ríkir landlægt öryggisleysi, stjórnmál eru í upplausn og grundvöllur viðskipta háður duttlungum ófyrirleitinna harðstjóra og fjöldamorðingja á borð við Saddam Hussein. Þegar til lengri tíma er litið munu þjóðir heimsins ræða aðferðir og leita leiða til þess að draga úr efnahagslegu vægi þessa heimshluta og draga úr pólitískri þýðingu jarðefnaorku ef takast á að leggja grundvöll að friðsamlegum alþjóðasamskiptum.
Steingrímur J. Sigfússon:
[…]
Við erum öll sammála um að barátta eða aðgerðir gegn hryðjuverkum og annarri skipulagðri glæpastarfsemi í heiminum eigi að hafa algeran forgang. [Ath. 33] Það er þó í sjálfu sér ekki trygging fyrir því að menn verði, hvorki hér né annars staðar, á eitt sáttir um allt það sem menn telja sig kunna að þurfa að gera í þeirri baráttu. Ég held að það sé mjög mikilvægt, herra forseti, að menn ræði það eins og það er, að hryðjuverk, þ.e. ofbeldi og valdbeiting, eru alþjóðlegt og þekkt vandamál bæði úr sögunni, úr öllum trúarbrögðum og af öllum menningarsvæðum og hjá velflestum stærri ríkjum í heiminum. Við þurfum ekki að fara langt til að leita að dæmum um langvinn átök þar sem hryðjuverk koma við sögu. Á Spáni hafa aðskilnaðarsinnar í Baskahéruðum staðið fyrir hryðjuverkum um árabil. Á Ítalíu, í Frakklandi og í Þýskalandi er svipað uppi á teningunum. Svo nærri okkur sem á Norður-Írlandi hafa menn eða hópar þaðan beitt hryðjuverkum og í Bandaríkjunum sjálfum hafa hryðjuverk verið hluti af stjórnmálasögu þeirra eða innanlandssögu um langt árabil. Hreyfingar eins og Ku Klux Klan og Militant-sveitirnar, vopnaðar sveitir almennra borgara sem á síðari árum hafa m.a. verið sakaðar um að brenna kirkjur tiltekinna trúarhópa og þjálfa menn eins og Timothy McVeigh sem síðan gerðist sekur um skelfilegt hryðjuverk. Suður- og Mið-Ameríka á sér langa sögu hryðjuverka, bæði uppreisnarmanna, sérstakra minnihlutahópa og líka ríkisstjórna sem þar hafa leynt og ljóst beitt löglausum hryðjuverkum, gert út dauðasveitir o.s.frv. Lönd eins og Marokkó, Sri Lanka, að hluta til Indland, þ.e. Kasmír-hérað, og Japan hafa á löngum köflum meira og minna verið lömuð vegna langvinnra hryðjuverkaátaka.
Þetta er rakið hér, herra forseti, til þess að undirstrika að hryðjuverk, ofbeldisglæpir af því tagi og skipulögð glæpastarfsemi eru alþjóðlegt vandamál, þekkt um víða veröld. [Ath. 34] Við Vesturlandabúar gerðum því rangt í því ef við héldum að þetta vandamál væri einangrað og bundið við sérstök menningarsvæði eða sérstök trúarbrögð. Það er því miður ekki þannig því að þá væri væntanlega auðveldara að glíma við vandann. Þetta gerir það líka að verkum, herra forseti, að ekki er hægt að leita uppi og finna í efnislegum skilningi sem afmarkað fyrirbæri eitthvað sem heitir hryðjuverk og sprengja það í loft upp í eitt skipti fyrir öll. Það er ekki hægt vegna þess hvernig þetta djúprætta vandamál er vaxið og í ljósi þess sem ég fór yfir áðan, hvernig það er þekkt um veröld víða.
Það hlýtur líka, herra forseti, að fara svo að menn grafist fyrir um rætur þeirra voðaverka sem þarna voru unnin og annarra slíkra og beini sjónum að þeim kringumstæðum og þeim jarðvegi sem fóstrar hugarfar haturs og ofbeldis og fær jafnvel fjölmenna hópa til að ganga í opinn dauðann og fórna lífi saklausra borgara svo hundruðum og þúsundum skiptir. [Ath. 35]. Þá neyðast menn til að horfast í augu við hluti eins og gríðarlega misskiptingu veraldargæða í heiminum, stöðu kúgaðra minnihlutahópa, ólýðræðislega stjórnarhætti, deilur um sjálfstæði eða stjórnskipulega stöðu landsvæða sem mjög víða í heiminum eru ein helsta undirrót hryðjuverkastarfsemi.
Ég held að við getum öll, herra forseti, verið stolt af viðbrögðum íslensku þjóðarinnar og þeim eindregna friðarvilja sem endurspeglast í afstöðu þess hluta þjóðarinnar sem þátt tók í skoðanakönnun, alþjóðlegri skoðanakönnun. Þær niðurstöður má draga saman á þann hátt að þar sé undirstrikað að íslenska þjóðin er áfram trú sinni arfleifð sem vopnlaus og friðelskandi smáþjóð sem vill friðsamlegar og lýðræðislegar aðferðir við lausn deilumála.
Herra forseti. Það fer ekki hjá því að hugur manna sé bundinn við það sem gerast kann í framhaldinu, jafnvel á allra næstu dögum. Ég vil leyfa mér að beina nokkrum spurningum til hæstv. utanrrh. sem því tengjast. Ég tel afar mikilvægt að þjóðréttarleg og lagaleg atriði í þessu máli séu höfð skýr. Það hefur ekki alltaf verið svo að menn hafi kannski nálgast þau atriði með nógu afdráttarlausum og skýrum hætti. Ýmsar spurningar vakna, m.a. út frá þeirri ákvörðun Atlantshafsbandalagsins að grípa að þessu sinni til svonefndrar 5. greinar. Hér stendur a.m.k. einn sá sem hafði efasemdir um þá túlkun og það leita á mig spurningar, t.d.: Hvar ætla menn í framtíðinni, ef hliðstæðir atburðir kunna að gerast en á smærri skala, að draga mörkin?
Pólitísk samstaða og þátttaka í aðgerðum, hvort sem þær væru leiddar af Bandaríkjunum eða af Sameinuðu þjóðunum eða öðrum aðilum, er síðan allt annað en spurningar um lögformlegt gildi þessarar 5. greinar, þjóðréttarlegar skuldbindingar Íslands og stöðuna í þjóðarétti, hvað varðar stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna og annað slíkt.
Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. utanrrh. í fyrsta lagi: Á hæstv. ráðherra von á því að Bandaríki Norður-Ameríku lýsi ríkinu Afganistan stríði á hendur? Munu aðgerðirnar hefjast á þeim grundvelli að lýst verði yfir stríði, sem er lögfræðilegt hugtak og hefur gildi í þjóðarétti? Eða verða þessar aðgerðir réttlættar með vísan til 51. gr. stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna? Er það skoðun hæstv. utanrrh., afstaða hans, stefna hans eða ríkisstjórnarinnar, að fara ætti í þessar aðgerðir, ef til kemur, að undangenginni umfjöllun í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og samþykkt þar?
Um stöðu Íslands hljóta líka að vakna spurningar um hvort í gildi verði fyrirvari Íslands, þegar það gerðist aðili að Sameinuðu þjóðunum 1946, sem var ítrekaður af þáv. utanrrh., Bjarna Benediktssyni, 1949 þegar Ísland gerðist aðili að Atlantshafsbandalaginu, að Ísland muni aldrei lýsa annarri þjóð stríði á hendur.
Í ágætri bók um sögu utanríkisþjónustunnar er m.a. rakinn ágætlega aðdragandi þess að Ísland gekk í Sameinuðu þjóðirnar. Ísland sóttist eftir aðild að ráðstefnunni í San Francisco 1945 en fékk ekki og það strandaði á þeirri einörðu afstöðu Íslendinga að neita því að lýsa annarri þjóð stríð á hendur. Sameiginlega tók Alþingi á lokuðum fundi ákvörðun um að sitja heldur heima en að falla frá þessum fyrirvara. Utanrmn. og ríkisstjórn fjölluðu þá sameiginlega um málið og svipað má segja um þá afstöðu Íslands sem síðar hefur komið fram að við viljum vera vopnlaus smáþjóð og hvorki viljum né munum segja nokkurri þjóð stríð á hendur, eins og Bjarni heitinn Benediktsson utanrrh. orðaði það á sínum tíma í Washington 1949.
Gildir þessi fyrirvari enn og mun það þá leiða til þess að a.m.k. Ísland, hvað sem öðrum NATO-ríkjum líður, verði ekki aðili að slíku stríði?
Sverrir Hermannsson:
[…]
Nú hafa þessi ógnarlegu þrælmenni gefið fordæmi sem vekur mikinn ótta. Þarna sjá þeir sem ekki vilja á sárs höfði sitja við þjóðir heims, ekki við almenning, ekki við börn og gamalmenni, hverju er hægt að fá framgengt, hvað má takast í því æði, morðæði og vitfirringu sem þeir vilja stunda. Þeir eru ófáir sem starfa á þessum vettvangi svo að það er meira en vafasamt því miður að hægt verði að uppræta ódæðismenn eða sjá við vélabrögðum glæpalýðsins, því er verr og miður. En það er þó gerð tilraun til þess. Það er mjög merkilegt hversu víðtæk samstaða þjóða heims hefur tekist og það er vonandi að það boði að sínu leyti nýja tíma.
Maður sem ólst upp í kalda stríðinu hlýtur að fagna því þegar stórþjóðir heims í austri og vestri, Sovétríkin eins og það hét áður, Rússland nú, og Bandaríkin taka höndum saman. [Ath. 36] […]
Við Íslendingar stöndum nú frammi fyrir þeim ótrúlegu aðstæðum að í gildi gengu ákvæði í sáttmála Norður-Atlantshafsbandalagsins, að árás á einn aðila skuli vera árás á alla. Ég verð að játa að mig óraði aldrei fyrir því að til þess drægi en fyrst að svo er þá er okkar að standa við okkar þátt í þessum sáttmála undanbragðalaust. Á hinn bóginn er Ísland óvopnuð smáþjóð sem mun aldrei taka beinan þátt í vopnaviðskiptum. Við getum lagt til lið til friðargæslu en okkar er auðvitað fyrst og fremst að bera klæði á vopnin. Við getum lagt til hina dýrmætu aðstöðu á Suðurnesjum sem hefur verið eina og aðalframlag okkar til samtaka NATO. Ég hygg að sú eðlilega von sem menn báru í brjósti, m.a. ég, um að við mundum lifa þann dag að þurfa ekki að hafa her í landi okkar, sé borin von. Ég hygg að um ófyrirsjáanlega framtíð sé það borin von að hugsa til þess, hvað þá meira.
[…] Eins og ég sagði er vonandi að nú rísi upp nýir tímar í betri samstöðu og samvinnu stórþjóða heims og allra þjóða. En þar er langt í land og á meðan þurfum við að fást við þessi ógnarvöld, ógnarofstækið sem hvorki spara fé né fjör til að koma ósköpum sínum fram. Það er dálítið erfitt fyrir okkur að setja okkur í þau spor að hægt sé að magna slíkt trúarofstæki upp í ungum mönnum að þeir fórni til þess lífi sínu en þar virðast múslimar hafa um auðugan garð að gresja. [Ath. 37] Og þá vita menn að á því kann að verða von að þeir sem hafa nóga peninga handa á milli, eins og t.d. þessi bin Laden, mæti einn góðan veðurdag á Concorde-torginu í París með atómsprengju, hún þarf ekki einu sinni að vera stór. Möguleikar þessara manna, ef þeir vilja beita þeim eru ótæmandi og þess vegna er ógnin svona ótrúleg.[Ath. 38]
Framlag okkar eins og sakir standa er augljóslega að ljá áfram land okkar vegna þeirrar aðstöðu sem herveldi getur eignast þar og er af mörgum talin ein hin mikilvægasta.
Ég vil að svo komnu lýsa yfir stuðningi Frjálslynda flokksins í einu og öllu við athafnir íslenskra stjórnvalda að svo komnu vegna ógnaratburðanna í Bandaríkjunum 11. sept. sl.
Magnús Stefánsson:
Sú grimmd og mannvonska sem birtist okkur í aðgerðum hryðjuverkamanna í Bandaríkjunum 11. sept. sl. er óskiljanleg og um leið ógnvekjandi. Það að farþegaþotur með saklausum borgurum séu notaðar líkt og árásareldflaugar í þeim tilgangi að fórna sem flestum mannslífum, granda táknrænum mannvirkjum og vega að efnahagskerfi heimsins hlýtur að snerta tilfinningar fólks um allan heim, enda er það svo að ótti og óöryggi einkennir nú mannlíf og atvinnustarfsemi víðast hvar um heiminn.[Ath. 38] En hvað er til ráða?
Hæstv. utanrrh. hefur gert grein fyrir viðbrögðum íslenskra stjórnvalda. Í mínum huga einkennast þau af styrk og festu og rökréttri afstöðu. Ég styð afstöðu og viðbrögð ríkisstjórnarinnar af heilum hug og um leið vil ég nota tækifærið og hrósa hæstv. utanrrh., starfsmönnum utanríkisþjónustunnar og stjórnvöldum almennt fyrir þeirra þátt í þessu erfiða og viðkvæma máli. Einnig hefur hæstv. utanrrh. gert grein fyrir viðbrögðum og áformum sem almennt eru uppi í alþjóðasamfélaginu og er í sjálfu sér ekki miklu við það að bæta.
Við skulum hafa það alveg á hreinu að ógnir hryðjuverkanna steðja að okkur nánast hvar sem er. [Ath. 39] Fram hafa komið fréttir af árangri stjórnvalda víða við að uppræta og koma í veg fyrir áform um hryðjuverk. Þær fréttir eru ógnvekjandi og vekja óhug. [Ath. 40] Til dæmis mun hafa tekist að koma í veg fyrir eiturgasárás á Evrópuþingið í Strassborg þar sem markmið hryðjuverkamanna mun hafa verið að deyða yfir 600 þingmenn og starfsmenn Evrópuþingsins, [Ath. 41] og í fjölmiðlum í dag kom fram að hryðjuverkamenn munu hafa haft uppi áform um árásir á franska knattspyrnulandsliðið þegar Evrópukeppni landsliða stóð yfir í Hollandi á síðasta ári [Ath. 42] . Við heyrum einnig nánast daglega fréttir af hryðjuverkum í einhverri mynd sem framkvæmd eru einhvers staðar í heiminum. Þessi villimennska bíður alls staðar handan við hornið.
Það hefur komið fram að hryðjuverkamenn og samtök þeirra nota sölu eiturlyfja til að fjármagna starfsemi sína. Í því birtist ein mynd glæpamennskunnar. Þeir eru ekki einugis holdi klædd drápstól sjálfir heldur einnig sölumenn dauðans og teygja á þann hátt anga sína inn í okkar samfélag.[Ath. 43]
Í umræðunni um þessi mál hefur m.a. verið vitnað í niðurstöðu könnunar sem var gerð hér á landi og bendir til að nánast öll þjóðin vilji að hryðjuverkamenn verði framseldir án hernaðarárása á þau lönd sem hýsa þá. [Ath. 44] Ég er ekki í vafa um að við öll sem hér erum höfum sömu skoðun á þessu. Vandinn er hins vegar sá að við höfum ekki þann aðgang að talibönum í Afganistan sem þarf til að hafa áhrif á þetta. Það vitum við öll. Þess vegna eru tilvitnanir í svona skoðanakannanir marklaus rök gegn fyrirhuguðum aðgerðum gegn talibönum og hryðjuverkamönnum í Afganistan.
Hins vegar má benda á að sama könnun sýnir að mikill meiri hluti er fyrir því að árásir verði gerðar á hernaðarlega mikilvæg mannvirki þessara glæpamanna til þess að ná til þeirra. [Ath. 45] Öll linkind gagnvart hryðjuverkamönnum er ávísun á frekari dauða og limlestingar saklausra borgara. Ekki mun duga að senda þeim væmin ástarbréf með ósk um að vera góðir strákar og virða frið. Það verður að mæta þeim af fullri hörku, koma böndum á þá og uppræta samtök þeirra. Það er liður í almennri baráttu gegn glæpum í heiminum og það er einnig liður í baráttunni gegn eiturlyfjum sem við höfum lagt svo mikla áherslu á og er þjóðþrifamál í okkar samfélagi. [Ath. 46]
Rannveig Guðmundsdóttir:
11. september er dagurinn sem við munum aldrei gleyma, dagurinn sem enginn má gleyma, ekki til að ala á hatri heldur til að muna, skilja og læra af.
[…] Evrópuráðið hefur líka nýverið tekið hryðjuverkin í Bandaríkjunum til umræðu. Rauður þráður í ræðum manna þar var að grípa ekki til hefndaraðgerða, hins vegar verði alþjóðasamfélagið að sameinast um að sækja þá glæpamenn sem að hryðjuverkunum komu og fyrir þeim stóðu til saka í nafni réttlætis, draga þá fyrir dómstóla. [Ath. 47]
[…]
En það sem skiptir máli núna er samstaða þjóða um að taka á saman gegn hryðjuverkum því það sem gerðist í New York 11. sept. getur gerst í Berlín á morgun eða jafnvel í okkar litla landi ef hryðjuverkahópur teldi sér akk í að sýna með því vald sitt. [Ath. 48] Okkur ber að ræða hvort sérstakan viðbúnað íslenskra stjórnvalda þurfi til að bregðast við aðgerðum hryðjuverkamanna. Utanrmn. mun að ósk fulltrúa Samfylkingarinnar í nefndinni fara á næstunni yfir hvað líði framkvæmd þeirra tilagna sem fram koma í skýrslu utanrrh., ,,Öryggis- og varnarmál Íslands við aldamót“, sem við ræddum á Alþingi vorið 1999 og hvaða hætta okkur mundi helst stafa af hryðjuverkum.
Herra forseti. Ég tek undir það með formanni Samfylkingarinnar að það var þýðingarmikið að Evrópuríki brugðust svo sterkt við. Því ber að fagna að ekki var gripið til hefndaraðgerða með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Bandaríkin hafa haldið vel á málum hingað til þrátt fyrir glannalegt tungutak um stríð. [Ath. 49] Glæpur hefur verið framinn. Réttlætis er krafist. Hryðjuverk á að stöðva og að því standa Vesturlönd öll saman.
Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):
Herra forseti. Ég ætla að fara nokkrum orðum um viðbrögð við þeim skelfilegu atburðum, þeim hræðilegu glæpum sem voru framdir í Bandaríkjunum þann 11. sept. sl. og aðgerðum sem dómsmrn. hugar að um þessar mundir af því tilefni. Um leið þakka ég hæstv. utanrrh. fyrir skýrslu hans og tek undir orð hans.
Það er alveg ljóst að hryðjuverkin í Bandaríkjunum hafa hvarvetna í nágrannaríkjum okkar kallað á að lög og reglur um varnir gegn hryðjuverkum verði skoðuð í nýju ljósi. [Ath. 50] Það er algjörlega nauðsynlegt að leita nýrra úrræða til þess að takast á við þær ógnir sem stafa af hryðjuverkum. Þetta á sérstaklega við um refsilöggjöf, svo og lögreglu- og öryggismál sem heyra undir verksvið dómsmrh. Ég hef þegar sett af stað sérstaka vinnu í ráðuneytinu til þess að láta kanna lög og reglur á þessu sviði. Í því sambandi verður tekið mið af endurskoðun laga sem þegar er stefnt að á öðrum Norðurlöndum vegna þessara atburða svo og ályktun dóms- og innanríkisráðherra ESB um margháttaðar aðgerðir gegn hryðjuverkastarfsemi.
Á fundi dóms- og innanríkisráðherra ESB 20. sept. sl. var samþykkt ályktun um margháttaðar aðgerðir gegn hryðjuverkastarfsemi. Koma þessar aðgerðir verulega inn á samstarf Evrópuríkja samkvæmt Schengen-samkomulaginu. Samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar frá 25. sept. var dómsmrn. og utanrrn. falið að yfirfara þessar tillögur sérstaklega út frá því til hvaða úrræða íslensk stjórnvöld geta gripið. Sú könnun hefur þegar farið fram og brugðist hefur verið við samkvæmt því.
Í ályktuninni er m.a. lagt fyrir Evrópuríki að taka upp strangara eftirlit á ytri landamærum Schengen-svæðisins en einnig að efla eftirlit innan lands, einkum með því að útlendingar dvelji löglega í landinu og beri nauðsynleg skilríki því til sönnunar. Eins er hvatt til sérstakrar varfærni við útgáfu skilríkja, einkum vegabréfa, og hertar allar kröfur um framvísun löglegra skilríkja í tengslum við útgáfu vegabréfsáritana. Loks er hvatt til skipulagðra upplýsingasamskipta við Europol þar sem starfa sérstakir vinnuhópar til að rannsaka hryðjuverkastarfsemi í Evrópu.[Ath. 51]
Fyrir örfáum vikum var gengið frá samstarfssamningi Íslands við Europol þannig að íslensk lögregluyfirvöld geta nú tekið fullan þátt í lögreglusamvinnu á þeim vettvangi, sem er afar mikilvægt. Ég hef lagt fyrir bæði ríkislögreglustjóra og Útlendingaeftirlitið að grípa til þeirra aðgerða sem kveðið er á um í ályktuninni eftir því sem þær eiga við um starfsemi þessara stofnana. En huga þarf að margvíslegum aðgerðum í alþjóðlegu lagaumhverfi til þess að uppræta hryðjuverkastarfsemi. [Ath. 52] Það er algjör forsenda fyrir árangri að ríki samræmi aðgerðir sínar á þessu sviði þar sem brotastarfsemin teygir anga sína til margra heimsálfa í senn.
Ég mun leggja mikið kapp á að fullgilda þá alþjóðlegu samninga sem eru nauðsynlegir til að takast á við alþjóðlega hryðjuverkastarfsemi. Þetta eru tveir samningar Sameinuðu þjóðanna, annars vegar alþjóðasamningur gegn hryðjuverkasprengingum frá árinu 1997 og alþjóðasamningur gegn fjármögnun hryðjuverka frá 1999. Loks er mikilvægt í þessu sambandi að fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna gegn skipulagðri glæpastarfsemi sem samþykktur var á síðasta ári. Íslenska ríkið hefur undirritað alla fyrrgreinda samninga sem eru umfangsmiklir að efni til. Í kjölfar hryðjuverkanna óskaði ég sérstaklega eftir því við utanrrh. að hraða undirritun á samningnum gegn fjármögnun hryðjuverka og var brugðist hratt og vel við og hann undirritaður af hálfu íslenska ríkisins fyrir tveimur dögum síðan.
Þessir undirstöðusamningar geyma mikilvægar skilgreiningar á refsiverðri háttsemi í tengslum við hryðjuverkastarfsemi og skipulagða glæpastarfsemi henni tengdri, m.a. vopnasmygli, peningaþvætti og ýmsum fjármunabrotum og jafnvel fíkniefnaviðskiptum. [Ath. 53] Einnig er mjög mikilvægt að samningarnir veita mikilvæg úrræði í alþjóðlegri lögreglusamvinnu og rannsókn brota af þessu tagi sem fer fram í mörgum löndum í senn og kveða á um alþjóðlega réttaraðstoð til að flýta megi rannsókn.
Fullgilding fyrrgreindra samninga kallar á sérstaka skoðun ýmissa laga. Það á einkum við um almenn hegningarlög þar sem væntanlega þarf að endurskoða skilgreiningu á hryðjuverkabrotum og ýmsum hugtökum þeim tengdum, en einnig atriði eins og um refsiábyrgð þeirra sem fjármagna hryðjuverkastarfsemi og ábyrgð fjármálastofnana. [Ath. 54]
Á sama tíma og hugað er að breytingum á refsilöggjöfinni vegna hryðjuverka þarf að leita úrræða til þess að draga úr hættu á óeirðum og ofbeldi á alþjóðlegum fundum eins og finna má alvarleg dæmi um frá þessu ári þar sem hettuklæddir ofbeldismenn hafa hleypt upp fundum og ráðist á lögreglu með alvarlegum afleiðingum. [Ath. 55] Með því að leggja bann við að menn klæðist dulbúningi á mótmælafundum er hugsanlega mögulegt að stemma stigu við þeirri hættu. Þá þarf líka að skoða sérstaklega reglur um framsal þeirra sem grunaðir eru um hryðjuverk.[Ath. 56]
Vegna atburðanna í Bandaríkjunum og þeirra aðgerða sem nauðsynlegt er að grípa til hef ég kallað refsiréttarnefnd á minn fund og falið henni að fara yfir fyrrgreinda alþjóðasamninga og alla þætti refsilöggjafarinnar sem endurskoða þarf eða breyta vegna fullgildingar þessara samninga. Ég stefni að því að leggja fram frv. síðar á þessu haustþingi með (Forseti hringir.) fyrrgreindum breytingum.
Ég vil einnig leggja sérstaka áherslu á að samþykkt verði frv. til laga um útlendinga sem er endurflutt á þessu þingi þar sem það var ekki afgreitt á síðasta þingi. Í frv. er ráðgert að til staðar séu mun skýrari heimildir en í núgildandi lögum til þess að synja útlendingum um landgöngu eða dvalarleyfi vegna öryggis ríkisins. [Ath. 57] (Forseti hringir.)
[…]
Ögmundur Jónasson:
Herra forseti. Það er mikill vandi að bregðast rétt við voðaverkum af því tagi sem áttu sér stað í Bandaríkjunum 11. sept. þegar farþegaflugvélar með saklausu fólki innan borðs voru gerðar að lifandi eldsprengjum með þeim afleiðingum sem allir þekkja. [Ath. 58] Fyrstu viðbrögð af hálfu talsmanna Bandaríkjanna og margra annarra ríkja var krafa um hefnd. Þótt slík krafa hafi hvorki verið sett fram af yfirvegun né hyggindum er hún að mörgu leyti skiljanleg því að hún á rætur í mannlegum tilfinningum sem við öll þekkjum.
Hryðjuverk eru í reynd tilræði, ekki aðeins við fórnarlömbin hverju sinni heldur við siðað samfélag og sú eldraun sem við stöndum frammi fyrir er að bregðast þannig við að okkur takist að varðveita réttarríkið og þær grundvallarreglur um mannréttindi sem mannkynið hefur sameinast um. Hafa þarf hendur í hári þeirra sem voru ábyrgir fyrir þessum voðaverkum og leiða þá fyrir alþjóðlegan rétt. [Ath. 59] Það er grundvallaratriði að þetta sé gert á vettvangi alþjóðasamfélagsins, Sameinuðu þjóðanna, og að í einu og öllu sé farið að mannréttindasáttmálum.
Nú kann einhver að segja að Sameinuðu þjóðirnar séu svifaseinar og búi ekki yfir þeim tækjum sem nauðsynleg eru til að taka á slíkum vanda. Að vissu leyti er þetta rétt og minnir okkur á nauðsyn þess að efla öryggis- og eftirlitshlutverk Sameinuðu þjóðanna. ,,En það er framtíðin“, segja ákafamenn. ,,Nú þarf að bregðast skjótt við.“ Í því sambandi vil ég minna á að hverjar þær aðgerðir sem gripið verður til þurfa að bera tilætlaðan árangur og við verðum að leggja það skýrt niður fyrir okkur í hverju sá árangur á að vera fólginn, að stuðla að réttlátari og friðvænlegri heimi. Ég leyfi mér að vara við fljótræði og ég vara við því að Íslendingar láti æsingamenn innan NATO teyma sig áfram í þessu máli. [Ath. 60]
Í fréttum ríkissjónvarpsins í gær var vísað í herskáar yfirlýsingar NATO og breska forsætisráðherrans sérstaklega. Framkvæmdastjóri NATO sagði að nú hefðu verið færðar óyggjandi sönnur á að hryðjuverkunum hefði verið stýrt af aðilum utan landamæra Bandaríkjanna og því bæri að skilgreina þau sem árás á Bandaríkin. [Ath. 61] Við það kviknaði 5. gr. NATO-samningsins sem segir að árás á eitt NATO-ríki jafngildi árás á önnur og þar með öll aðildarríki hernaðarbandalagsins.
Við þetta er sitthvað að athuga. Í fyrsta lagi kennir reynslan okkur að yfirlýsingar herstjórnar NATO og ýmissa ráðamanna í bandalagsríkjum okkar þar, ekki síst breska forsætisráðherrans, hafa á ögurstundu sem þessari ekki alltaf reynst traustar. Vísa ég þar t.d. í yfirlýsingar þessara aðila í tengslum við loftárásir NATO á Balkanskaga vorið 1999.
Í öðru lagi hlýtur það að orka tvímælis að skilgreina árás með þeim hætti sem hér er gert. Þessi skilgreining þýðir að á hryðjuverkaöld standa Íslendingar nær stríði en áður og geta hæglega sogast inn í hringiðu þeirra átaka sem háð eru á heimsvísu. Og þá skulum við hyggja að því hvað svokallaðir vinir okkar, ríkustu herveldi jarðarinnar, eru að aðhafast og hvernig þau koma fram í heiminum.
Hryðjuverk eiga sér víðar stað en í New York og í Washington. En okkar heimshluti kemur þá fyrst auga á þau að hagsmunum hins vestræna heims sé ógnað.
Um árabil hefur setið við völd í Afganistan stjórn svokallaðra talibana, ofstækistrúmanna sem beita ómældri kúgun gegn þeim sem voga sér að andæfa veldi þeirra. Heimurinn hefur lengi verið áhugalítill um þessa kúgun að undanskildum kvennahreyfingum sem hafa verið óþreytandi að vekja athygli á illu hlutskipti kvenna undir stjórn talibana. Sú var þó tíðan að heimurinn hafði meiri áhuga á Afganistan. Það var undir lok áttunda áratugarins og í byrjun þess níunda, en þá gerðu sósíalistar uppreisn gegn lénsveldi íslömsku klerkanna og í kjölfarið fóru Sovétmenn með herlið inn í landið þeim til aðstoðar. Nú var stórveldahagsmunum ógnað og hófst mikið áróðursstríð. Á meðal þeirra fréttamanna sem fóru á vettvang var sá sem hér stendur. (Forseti hringir.) Ég heimsótti margar búðir uppreisnarmanna, frelsisherjanna sem svo voru nefndir í fjölmiðlum. Þeirra á meðal voru talibanar. Nú eru þessar frelsishetjur gærdagsins réttdræpar á sama hátt og Saddam Hussein áður (Forseti hringir.) vinur vesturveldanna þegar það þjónaði hagsmunum þeirra að beita Írökum í stríði við Íran á níunda áratugnum. Nú er hann óvinur NATO númer eitt.
Herra forseti. Við lifum í heimi harðrar og grimmrar valda- og hagsmunabaráttu. Við skulum gera okkur grein fyrir því að þegar við stillum okkur upp eins og íslensk stjórnvöld gera nánast (Forseti hringir.) gagnrýnislaust við hlið Bandaríkjastjórnar, bresku stjórnarinnar og með hernaðarbandalaginu NATO, þá fer því fjarri að um það eitt sé að tefla að verja frelsi og mannréttindi. Við erum að taka afstöðu með auðugustu herveldum (Forseti hringir.) jarðarinnar og þeirra málstaður hefur ekki alltaf reynst góður.
Til að ljúka máli mínu, herra forseti, þessi (Forseti hringir.) alvarlegu deilumál eiga heima í öðrum farvegi en hjá hernaðarbandalaginu NATO. Þau eiga heima á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og sem vegvísi eigum við að hafa þá mannréttindasáttmála sem mannkynið hefur komið sér saman um.
Guðjón A. Kristjánsson:
Áhrif hinnar mannskæðu árásar hryðjuverkamanna á Bandaríkin þann 11. september sl. á öryggis- og varnarmál þjóða verða mikil og varanleg. Þeirra mun vafalítið sjá stað í starfsumhverfi og ferðatilhögun venjulegs fólks um veröldina.
[…] Atlantshafsbandalagið, NATO, hefur á undanförum árum endurskilgreint öryggishugtakið og m.a. nefnt náttúruhamfarir, þjóðernisátök, umhverfisvanda, skipulagða glæpastarfsemi og hryðjuverk sem hugsanlega ógnun við öryggi aðildarríkjanna.
NATO hefur þurft að bregðast við sumum af þessum nýju hættum, sérstaklega þjóðernisátökum á Balkanskaga sem hafa ógnað stöðugleika í Evrópu. En þau átök hafa átt sér stað utan landsvæðis aðildarríkja NATO. Almenningur í Vestur-Evrópu og í Ameríku hefur almennt ekki óttast hernaðarárás á heimaland sitt.
Frá og með 11. september síðastliðnum gjörbreyttist þetta. Öryggistilfinningin er horfin. Sjálfsmorðssveitir hryðjuverkamanna gerðu, að þeim finnst, vel heppnaða árás undir stefnu heilags stríðs á tvær helstu borgir Bandaríkjanna, öflugasta herveldis heims, án þess að nokkrum vörnum yrði við komið. Kynslóðin sem er að vaxa úr grasi og man ekki eftir öryggisleysi kalda stríðsins stendur nú skyndilega frammi fyrir því að hún er hvergi óhult fyrir þeim ógnaröflum sem stóðu að baki árásinni á óbreytta borgara í Bandaríkjunum.
Eins og önnur vestræn ríki þarf Ísland nú að endurmeta varnar- og öryggisstefnu sína með hliðsjón af því hversu nálæg ógnin af hryðjuverkum er skyndilega orðin. Ísland studdi samþykkt NATO um að veita Bandaríkjunum stuðning í baráttunni gegn hryðjuverkamönnunum. Slíkur stuðningur af hálfu Íslands felst væntanlega helst í því að við leyfum afnot af Keflavíkurflugvelli, leggjum friðargæslu lið, og við þurfum jafnframt að vera viðbúin því að auka verulega löggæslu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar til að fylgjast með ferðum manna og ekki síst að tryggja að fyllsta öryggis sé gætt í farþegaflugi til og frá landinu.
Nú þegar hafa þessar árásir haft mikil áhrif á daglegt líf fjölmargra Íslendinga, m.a. vegna fjöldauppsagna flugfélaga. Þá þurfti ríkisvaldið einnig að tryggja áframhaldandi flugrekstur og var það sjálfsagt eins og málum er komið. Sú ógn sem fólki finnst steðja að sér í kjölfar árásanna hefur þegar haft gríðarleg áhrif. Þau áhrif á ferðaþjónustu hér á landi sem annars staðar geta orðið mikil og varanleg án þess að við getum nú þegar séð þær breytingar fyrir.
Af viðbrögðum Bandaríkjamanna og aðildarríkja NATO hingað til má ráða að þeir telji mikilvægt að ekki verði gripið til gagnaðgerða nema að vel yfirlögðu ráði. Það er einmitt kjarni málsins að varast blindan hefndarhug. Viðbrögðin við árásinni þurfa að beinast að hinum seku, annars eykst hættan á að hefndir kalli sífellt á endurteknar árásir hryðjuverkamanna.
Þá ber þess að gæta að aðgerðir Vesturlanda beri ekki keim af átökum siðmenninga. Líklegt er að aðgerðirnar beinist að ýmsum ríkjum múslima og araba, en það þarf að vera ljóst að baráttan beinist gegn hryðjuverkamönnum, ekki gegn þjóðum eða trúarbrögðum. Það er ekki tiltekin menning eða trúarbrögð, sem getur af sér hryðjuverkastarfsemi. Æskilegt er að halda beitingu hervalds í lágmarki. Ef árásir Vesturveldanna koma til með að valda stórfelldu mannfalli og tjóni á mannvirkjum í ríkjum araba, yrði sú hætta fyrir hendi að úr rústunum risu heiftúðugir menn sem væru efni í nýja hermdarverkamenn.
Jónína Bjartmarz:
Herra forseti. Hryðjuverkaárásirnar á Bandaríkin sem hér eru til umræðu og afleiðingar þeirra, hinn mannlegi harmleikur, eru atburðir í mannkynssögunni sem mun taka okkur langan tíma að átta okkur á til fulls. Það er ekki ofsagt að heimurinn verður aldrei samur. Á sama tíma og við erum að átta okkur á þessum atburðum og margháttuðum afleiðingum þeirra og þýðingu er unnið að því á alþjóðavettvangi að ná samstöðu með þjóðum heims um það hvernig skuli við þeim brugðist og staðið að því að draga illvirkjana til ábyrgðar, draga til ábyrgðar og stöðva hermdarverkastarfsemi þeirra sem ógnar ekki bara öryggi okkar heldur lýðræði og frelsi um allan heim.[Ath. 62]
Sú samstaða sem náðst hefur með þjóðum heims um nauðsyn þess að standa saman í baráttunni gegn hryðjuverkum er einstök. Fornir fjendur snúa nú bökum saman enda er engin þjóð óhult [Ath. 63] og við vitum ekkert um það hvar eða hvenær frekari hryðjuverka er að vænta. Samstaða íslenskra stjórnvalda og stjórnvalda um allan heim lýtur fyrst og fremst, enn sem komið er, að tilraunum bandarískra stjórnvalda til að hafa hendur í hári hryðjuverkamanna og að draga þá til ábyrgðar. [Ath. 64]
Forsenda þess að hægt sé að draga hina seku til ábyrgðar er að ljóst sé hverjir þeir eru og nú munu liggja fyrir sönnunargögn um að árásirnar voru skipulagðar og með vitund og vilja bin Ladens.[Ath. 65] Um utanaðkomandi árás [Ath. 66] var að ræða sem aðildarríki Atlantshafsbandalagsins eru skuldbundin til að líta á sem árás á þau öll, enda er nú svo litið á að gagnkvæmar skuldbindingar ríkjanna geti einnig átt við um skipulagða hryðjuverkastarfsemi og annað er vissulega ekki hægt.
En afleiðingar hryðjuverkanna eru ekki bara mannlegur harmleikur og efnahagslegar heldur valda þær jafnframt áframhaldandi ótta og öryggisleysi, ekki aðeins í Bandaríkjunum heldur um allan heim og ógna með því bæði lýðræði og frelsi og öryggi í öllum heiminum. [Ath. 67] Ótti okkar allra hlýtur fyrst og fremst að vera við hernaðaraðgerðir og afleiðingar þeirra sem mega undir engum kringumstæðum hafa á sér svip eða blæ hefndaraðgerða. [Ath. 68] Sérstaklega ber að standa vörð um að hryðjuverkin grafi ekki undan því gildismati sem er grunnurinn að okkar samfélagi jafnt og margra annarra samfélaga þjóða heims og varast alla nálgun við orð eins og krossferðir. Það er hvorki ákveðin trú, þjóð né þjóðarbrot sem þjóðir heims hafa fordæmt og náð samstöðu um að brjóta á bak aftur heldur aðgerðir manna sem hafa gert sig seka um glæpi gagnvart mannkyninu.[Ath. 69] Áfram þarf að standa vörð um þau fjölmenningarlegu samfélög sem hvarvetna er að finna og víðar eru að rísa og það gildismat sem er grundvöllur þeirra samfélaga.
Hryðjuverk eins og þau sem eru tilefni þessarar umræðu hjá okkur nú er aldrei hægt að réttlæta og aldrei hægt að afsaka á nokkurn hátt. En ég er þeirrar skoðunar að okkur beri auk alls annars sem við þurfum að gera að reyna að leita skýringa þeirra og greina það umhverfi og þær aðstæður sem ráða þessum verkum og móta og skapa gerendur hryðjuverkanna. Aukinn skilningur getur aldrei verið til tjóns og ef vinna á bug á hryðjuverkum og verjast margháttuðum afleiðingum þeirra verður að ráðast á jarðveginn sem skapar þeim vaxtarskilyrði. Hryðjuverkin kalla ekki aðeins á ákvarðanir og aðgerðir alþjóðasamfélagsins heldur jafnframt á aðgerðir og vinnu hér heima svo sem hæstv. utnarrh. gat um í ræðu sinni. Það þarf að fullgilda alþjóðasamninga sem miða að því að samræma margháttuð viðbrögð við hryðjuverkum og huga að aðgerðum sem þörf er á á sviðum alþjóðlegrar lögreglusamvinnu og hugsanlegum breytingum á íslenskum lögum sem slíkar aðgerðir kalla á. […]
Þórunn Sveinbjarnardóttir:
Það er ljóst að hefðbundinn vígbúnaður, eldflaugavarnir og gervihnattanjósnir af fullkomnustu tegund hefðu ekki dugað gegn illvirkjunum sem létu til skarar skríða í New York og Washington. Því má okkur vera ljóst að hryðjuverkahópar af þessu tagi verða ekki brotnir á bak aftur með hernaði einum saman. Á það hefur margoft verið bent í umræðum liðinna vikna en ég held að Rudolf Scharping, varnarmálaráðherra Þýskalands, hafi verið einn sá fyrsti til að benda á þessa staðreynd.
Eins má vera víst að margra ára, jafnvel áratugabarátta kann að vera fram undan svo að réttlætið megi sigra að lokum. En við skulum hafa það hugfast að sprengjuherferðir gegn saklausu fólki þjóna engum tilgangi öðrum en að auka á upplausn og hörmungar, ekki síst í Miðausturlöndum. Baráttan gegn hryðjuverkaöflunum má alls ekki festa þau hin sömu öfl í sessi. Á það hefur Wesley Clark, fyrrverandi yfirmaður herafla NATO í Evrópu, bent meðal annarra.
Hryðjuverkin í Bandaríkjunum mega heldur ekki slæva dómgreind ráðamanna á Vesturlöndum. Ég er þeirrar skoðunar að fórnarlömbum hryðjuverkanna sé sýnd mest virðing með yfirveguðum og ígrunduðum viðbrögðum. Stjórnvöld á Vesturlöndum hljóta að gera heiðarlega tilraun til þess að grafast fyrir um orsakir, um rætur, voðaverka sem þessara. [Ath. 70] Í slíku felst engin uppgjöf. Þvert á móti er það eina leiðin svo að hægt sé að draga einhvern lærdóm af þessum hrikalegu atburðum. Við verðum hreinlega að finna svörin og bregðast við í samræmi við þau því að hefnarþorstinn má ekki ráða ferðinni. Við megum heldur ekki beina reiði okkar gegn múslimum, hvorki hér á landi né annars staðar. Við megum ekki gefa fordómunum lausan tauminn og gera íslam að hinu illa. Það er bæði billegt og rangt.
Margir hafa orðað það sem svo að öryggiskenndin sem þeir höfðu áður sé horfin. Víst er að hertar öryggiskröfur verða gerðar og ferðafrelsi manna mun skerðast með beinum og óbeinum hætti í kjölfar hryðjuverkanna. Kröfur um aukið eftirlit með fólki hvar sem er og hvenær sem er fylgja í kjölfarið. Hætta er á að eftirlitssamfélagið blómstri með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir hinn almenna borgara og við því ber að sporna. [Ath. 71]
Þessir hörmulegu atburðir hafa beint sjónum heimsbyggðarinnar að ógnarstjórn talibana í Afganistan. Það er þyngra en tárum taki, herra forseti, að þurft hafi hryðjuverkin 11. september sl. til þess. Ég hef oft velt því fyrir mér á undanförnum árum hvers vegna samfélag þjóðanna hafi látið talibanana óáreitta. Þeir hafa farið sínu fram. Þar eru mannréttindabrot daglegt brauð, aftökur án dóms og laga, ófrelsi til orðs og æðis og svo eru það konurnar. Það verður að segjast eins og er að allt of fáir hafa tekið upp málstað kvenna í Afganistan, kvennanna sem skrimta undir ógnarstjórn talibananna. En nú er að verða breyting á og það tækifæri ber að nýta. [Ath. 72]
Í þessu sambandi er umhugsunarvert að það er ekki fyrr en nú að pólitískur vilji skapaðist til þess í samfélagi þjóðanna að frysta innstæður talibananna á bankareikningum. Á dögunum voru t.d. frystar innstæður í Bretlandi að jafnvirði 9 milljarða kr. Einhverja seðla eiga þeir, þessir herramenn.
Herra forseti. Staðan í Afganistan var slæm fyrir 11. september. Þann 6. september sl. var sent út ákall um neyðaraðstoð vegna yfirvofandi hungursneyðar. Það er því afar lofsvert að ríkisstjórn Íslands skuli nú þegar hafa tekið ákvörðun um að veita 10 millj. kr. til þessarar neyðaraðstoðar. En betur má ef duga skal og ég er hrædd um að þetta sé byrjun á löngu og erfiðu ferli fyrir afgönsku þjóðina og finnst nú kannski einhverjum nóg komið.
Árni R. Árnason:
Herra forseti. Hinn 11. september sl. nötraði heimsbyggðin [Ath. 73] og má segja að fólk við sín daglegu störf ekki aðeins brann upp í báli hermdarverks heldur hvarf líka hin daglega veröld okkar í reyknum og eimyrjunni. Við tökum að sjálfsögðu öll undir samúðarkveðju hæstv. utanrrh. til bandarísku þjóðarinnar. Það er alveg ljóst að sú kveðja á sér stuðning hvarvetna þar sem Íslendingar eru og voru staddir á þessum dögum sem í kjölfarið komu. En okkur er dálítið orðfátt enn þá yfir því ótrúlega hatri sem illvirkið bar með sér, svo skefjalaust sem það var, [Ath. 74] en allir þeir sem sáu á eftir ástvinum og nánum samferðamönnum eiga samúð okkar og virðingu og sömuleiðis þökk og virðingu þeir sem hafa starfað við björgun í rústunum og starfað þar af ótrúlegri hetjulund og hafa unnið mörg þrekvirki.
Það er hins vegar ekki svo einfalt að árásinni hafi eingöngu verið beint gegn Bandaríkjunum þó svo að sárin hafi mest orðið þar því að skotmarkið var bygging þar sem starfaði mikill fjöldi fólks við alþjóðasamstarf, alþjóðaviðskipti. Af öllu þessu er alveg ljóst að hinn vestræni heimur opinna frjálsra samfélaga varð allur fyrir árás og henni var beint að grundvallarstoðum hans hvort sem hann er eingöngu um Vesturlönd eða nær inn í fleiri álfur sem er hið rétta. Afleiðingarnar koma ekki einungis fram í sárum þessa fólks sem mest hefur misst heldur líka í gífurlega miklum efnahagslegum skaða og vafalaust verður hann mestur hjá þeim sem minnst hafa til þessa borið úr býtum.
Hið rétta er að ofstækisfullir stríðsæsingamenn, hvar sem þeir taka til starfa, hafa reynt að koma slíku fram um langt árabil en þessi gjörð er stærst og verst og þungbærust. Það voru ekki einasta Bandaríkjamenn sem horfðu á eftir ástvinum sínum. Fórnarlömbin teljast hafa verið af um 40 þjóðernum og frá nærri því 40 þjóðríkjum.
Það er rétt að við getum þess í leiðinni að Bandaríkjamenn hafa á síðustu öld skipað sér sess sem ein af bestu vinaþjóðum Íslendinga og við hljótum að senda þeim hlýhug okkar. [Ath. 75]. Við hljótum að fylgja þeim eftir þegar þeir leita leiða til að koma fram aðgerðum til að draga til ábyrgðar þá sem ábyrgir eru og þá sem hafa stutt ódæðismennina í gjörðum þeirra eða veitt þeim skjól. Það er mikil nauðsyn að þessar aðgerðir allar verði yfirvegaðar eins og þær hafa verið til þessa, þær verði einbeittar og skilyrðislausar. Það er nauðsyn okkur öllum sem viljum í framtíðinni búa áfram í veröld sem verður sem best opin og frjáls. Ef þetta tekst ekki verður heimurinn ekki lengur opinn og frjáls.
Það er alveg ljóst af samþykktum Atlantshafsráðsins og öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna að þar er samhljómur með þeim ákvörðunum og ályktunum sem hér hafa verið settar fram af hálfu ríkisstjórnar Íslands og utanrmn. Alþingis. Og það er alveg ljóst að til þess að fylgja þeim ályktunum og ákvörðunum eftir verður Ísland að leggja sitt af mörkum til stuðnings við vinaþjóð í raun til þess að sameiginlegar aðgerðir bandalagsríkja þeirra beggja nái árangri og nái að hrinda frá þeim og íbúum þeirra illvirkjum hvenær sem þeir vilja koma sínu fram. […]
Kolbrún Halldórsdóttir:
Herra forseti. Ég vil taka undir þakkir þeirra þingmanna sem orðað hafa þakkir til hæstv. utanrrh. fyrir að eiga frumkvæði að þeirri umræðu sem hér fer fram og sömuleiðis þakkir til hæstv. dómsmrh. vegna yfirlýsinga hennar um undirritun og væntanlega fullgildingu þeirra alþjóðlegu samninga sem ætlað er að ná til hryðjuverka og annarrar skipulagðrar glæpastarfsemi sem nær þvers og kruss yfir landamæri þjóða. [Ath. 76]
Baráttan gegn hryðjuverkum í heiminum í dag er á ábyrgð allra þeirra sem fordæma hvers kyns voðaverk í veröldinni. [Ath. 77] Baráttan er á ábyrgð þeirra sem trúa á réttlætið en það er ekki létt eða einfalt að standa undir þessari ábyrgð. Það er gífurlega vandasamt og það krefst yfirvegunar og það krefst visku. Það krefst líka upplýstrar og vitrænnar umræðu. Það krefst yfirsýnar og skilnings, t.d. skilnings á því að hryðjuverk og önnur skipulögð glæpastarfsemi eru áþreifanlegur þáttur í ógn og ótta milljóna saklausra borgara um allan heim. [Ath. 78] Þessa saklausu þegna allra þjóða þarf að vernda, alla. [Ath. 79]
Ótal spurningar fara í gegnum hugann í þessu sambandi, herra forseti, og þær lúta margar að ábyrgð. Hver er ábyrgð þeirra stjórnvalda sem styðja og hýsa hryðjuverkamenn í dag? Hverjar eru þær þjóðir og hverjir eru þeir hryðjuverkamenn? Og hvaða hryðjuverk eru talin með? Eru jarðsprengjur taldar til hryðjuverka? Þær granda ótal saklausum borgurum á hverju einasta ári. Eru aðgerðir hers og lögreglu víða um heim gegn almennum borgurum taldar til hryðjuverka? Það má nefna Kína í því sambandi, herra forseti.
Hvað með fylgifiskana eins og eiturlyfin, herra forseti? Hvar eru markaðirnir fyrir eiturlyfin og hverjir kaupa eiturlyfin? Eru þeir gerendur eða þolendur og hverjir bera ábyrgðina?
Herra forseti. Hvar eru markaðarnir fyrir vopnin? Hverjir framleiða þau vopn sem ganga kaupum og sölum? Hverjir selja þau og hverjir kaupa þau og hvar er þeim beitt? Hverjir falla fyrir þeim vopnum og hverra er ábyrgðin?
Herra forseti. Hverjir búa til eftirspurnina fyrir líkama kvenna og barna sem seld eru mansali til kynlífsþrælkunar? Herra forseti. Hverjir borga þá 7 milljarða bandaríkjadala sem árlega er talið að greiddir séu glæpahringjum sem standa að baki þrælasölunni, að baki nauðungarsölu hundruð þúsunda kvenna og barna á ári hverju? Hver er ábyrgð þeirra sem búa til þessa eftirspurn? Eða þeir fjármálamarkaðir, herra forseti, sem staldra ekki við eða spyrja einskis, skipta sér jafnvel ekki af þó að þeir finni nálykt af því fé sem sýslað er með. Ef þeir fjármálamarkaðir eru til, herra forseti, hver er þá ábyrgð þeirra?
[…]
Lára Margrét Ragnarsdóttir:
Blóðbaðið, eldhafið og eyðileggingin sem við urðum vitni að 11. sept. sl. eiga sér ekki fordæmi í allri sögunni. Þar var farið langt yfir mörk þess sem við höfum kynnst áður af hálfu hryðjuverkamanna því þann dag köstuðu hinir óþekktu hryðjuverkamenn stríðshanskanum, einhliða og án viðvörunar, gegn vinum okkar, bandamönnum og frændum, og sögðu reyndar stríð á hendur öllu því sem hið frjálsa og lýðræðislega samfélag stendur fyrir.
Harmur og sorg eru nú orðin að reiði eða jafnvel hatri. Um leið og við biðjum fyrir fórnarlömbum þessa áfalls og fjölskyldum þeirra verðum við að hafa í huga hversu gríðarlega mikilvægt það er að viðbrögðin verði nákvæm og vel skilgreind og byggð á réttlátum grundvelli.
Hatur er ekki leið til endurgjalda. Hatur er hættulegt og leiðir til vítahrings sem ekki er unnt að losa sig úr. Umheimurinn og einkanlega bandaríska ríkisstjórnin sýndi í verki aðdáunarverða varkárni til að koma í veg fyrir nánast óhindraðar hefndarárásir sem í sjálfu sér hefðu verið skiljanlegar. Tel ég rétt að virða og meta þau varkáru viðbrögð. Áframhaldandi varkárni í viðbrögðum er nú lífsnauðsyn og alþjóðasamfélagið ber ábyrgð á því að brjóta vítahring hryðjuverka með sameinuðu átaki.
Til að leysa þennan hryllilega vanda verðum við að reyna að skilja hvað stendur á bak við slíkan voðaverknað, hvernig á að mæta honum og hvernig á að koma í veg fyrir endurtekningu. Þær tilgangslausu og yfirþyrmandi árásir sem við höfum nú reynt hafa breytt skilningi okkar á hugtakinu hryðjuverk. Við þurfum að setja okkur í önnur spor, búa okkur annan hugarheim til að skilja tilurð þeirra. Eingöngu alþjóðleg samvinna mun geta yfirunnið slíkan grimmdarverknað. Þolinmæði og sjálfsagi verða að hafa yfirhöndina í slíkri samvinnu.
Þótt stríðsrekstur sé okkur ekki að skapi er ekki unnt að sjá aðra leið til að mæta hryðjuverkum af þessu tagi. Við Íslendingar verðum að leggja okkar af mörkum eins og aðrar þjóðir. Fram til þessa höfum við horft á 5. gr. NATO-sáttmálans fyrst og fremst sem varnargrein okkur í hag. En nú er komið að okkur að veita af okkar takmarkaða framlagi til lausnar þessu ástandi. Styð ég ríkisstjórn okkar heils hugar í þeim efnum.
Ef við reynum aftur að leita skýringa á þeim ósköpum sem dunið hafa yfir þá verður ekki hjá því komist að viðurkenna að allt of oft hafa lönd fátæktar, óréttlætis, kúgunar og öfgastefna verið grunnurinn að hryðjuverkum. En við megum ekki einungis leita skýringa á þeim sviðum. Um allan heim, í austri sem vestri, norðri sem suðri, eru starfandi auðmagnskeðjur ólöglegra viðskipta, keðjur sem sýna ógnarvöld gagnvart þeim óupplýstu og fátæku. En gleymum ekki heldur þeim sem eru háðir þessum aðilum, t.d. vegna neyslu fíkniefna eða ólöglegra viðskipta. Þessir aðilar spyrja ekki um trúarbrögð, fátækt eða landamæri. Þeir eru starfandi í því hnattræna umhverfi sem við störfum í. Því er það enn brýnna að ná alþjóðlegri samstöðu um vel ígrunduð viðbrögð okkar við þeirri dæmalausu ógn sem við lifum í dag.
Guðmundur Árni Stefánsson:
Herra forseti. Veröldin breytti um svip á nokkrum mínútum og að meira eða minna leyti í beinni útsendingu ljósvakamiðla. Hrottaleg og miskunnarlaus árás nafnlausra hugleysingja á saklausra borgara var svo átakanleg að orð fá því ekki lýst. Það verður ekkert aftur eins í heimsmálunum eftir atburðina 11. sept. Við Íslendingar skiljum ekki þá mannvonsku og þá mannfyrirlitningu sem að baki býr því sem við blasti í Bandaríkjunum.
Afleiðingar þessarar árásar eru margþættar og í raun miklu meiri en nokkur spáði fyrir um strax í kjölfar hinna hörmulegu atburða. En mikið vatn á eftir að renna til sjávar þar til allar afleiðingarnar verða mönnum ljósar. Ef til vill verða þær mun víðtækari og varanlegri en nokkurn grunar í dag. Hvað sem þeim vangaveltum líður er mikilvægt að þjóðir heims, og þar á meðal við Íslendingar, verði á varðbergi og reyni eftir megni að laga sig að hinni nýju heimssýn, hér heima og í samstarfi innan samfélags þjóðanna.
En hvernig snúa þessi mál að okkur Íslendingum? Fram að þessu hefur verið góð samstaða um þær ákvarðanir og aðgerðir sem íslensk stjórnvöld hafa orðið að grípa til í kjölfar árásanna 11. sept. Sumar þeirra hafa verið stórar í sniðum. Þar má telja veitingu tímabundinna ábyrgða upp á 2.700 milljarða kr. vegna flugflota Íslendinga og ákvörðun um að virkja 5. gr. sáttmála Atlantshafsbandalagsins. Um þær hafði ríkisstjórnin samráð við stjórnarandstöðuna hér í þinginu en um hið síðarnefnda raunar þó ekki fyrr en eftir að ákvörðun hafði verið tekin.
Það er einkar mikilvægt að víðtækt samráð og samvinna einkenni í öllu áframhaldandi hófstilltar en markvissar aðgerðir og ákvarðanir af hálfu íslenskra stjórnvalda sem til álita munu óhjákvæmilega koma á næstu vikum, mánuðum, missirum og jafnvel árum, beint eða óbeint í kjölfar atburðanna fyrir þremur vikum. Ég nefni nokkur dæmi. Hvernig skal haga vörnum Íslands gagnvart hryðjuverkavánni? Hvaða afleiðingar munu þessi tíðindi hafa á viðræður íslenskra og bandarískra yfirvalda vegna bókunar um framkvæmd herverndarsamningsins í Keflavík? Verður óhjákvæmilegt, og í hvaða mæli, að styðja flugsamgöngur til og frá landinu og jafnvel ferðamannaþjónustuna í stórum stíl? Hver verða áhrif hugsanlegra aðgerða hér heima á Íslandi til að tryggja öryggi og verjast hættunni af hryðjuverkum? Hvernig munu þessar aðgerðir hafa áhrif á frelsi, mannréttindi og persónuvernd sem íslenskir borgarar hafa átt að venjast? Dómsmrh. nefndi til sögunnar nokkur atriði af þeim toga. Mun verða þörf á að endurmeta stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna? Ég fyrir mitt leyti vil styrkja þau bönd. Þurfum við að endurmeta stuðning okkar til vanþróaðra ríkja? Hver verða í bráð og lengd hin efnahagslegu áhrif fyrir okkar litla land?
Margs er að gæta. Spurningarnar eru margar og svörin fá. Spurningarnar eru vafalaust mun fleiri. Ég tel að það komi til greina við þessar aðstæður að setja á samráðshóp forustumanna stjórnmálaflokkanna til að fara yfir málin og vera á vaktinni. Grípa getur þurft til aðgerða með skömmum fyrirvara og mér þykir eðlilegt að festa niður samráðsferli í þessum efnum. Utanrmn. ein og sér dugir ekki vegna þess hve fjölþætt og fjölbreytilegt málið er.
[…]
Einar K. Guðfinnsson:
Virðulegi forseti. Það nálgast brátt mánuðinn frá því að voðaverkið í Bandaríkjunum átti sér stað. Það er dálítið sérkennilegt að hugsa til þess að svo langur tími sé liðinn, svo mjög er þessi atburður okkur í fersku minni sem fylgdust með honum, eins og heimsbyggðin öll nánast í beinni sjónvarpsútsendingu. Áhrifin eru, eins og hér hefur margoft komið fram í þessari umræðu, ólýsanleg. Fyrst og fremst kemur upp í hugann hinn mannlegi harmleikur þegar yfir sex þúsund manns, saklausir borgarar, týndu lífi vegna fólskulegra árása. En áhrifin eru líka þau sem hæstv. utanrrh. vakti réttilega athygli á. Áhrifin eru verst fyrir þá sem lakast standa í heimsbyggðinni sem verða nú fyrir því að heimsframleiðsla dregst saman og möguleikar þess fólks til þess að bjarga sér verða lakari. Þess vegna sjáum við að hér er ekki um að ræða stríð á milli mismunandi heimsviðhorfa, eins og stundum hefur verið haldið fram, heldur baráttuna á milli góðs og ills. Þar er línan auðvitað dregin. Við erum að fást við miskunnarlaust fólk sem eirir engu, síst af öllu mannslífum. Við verðum að nálgast það mál út frá því.
Það er ástæða til þess að vekja athygli á, eins og raunar kom fram í máli hv. 7. þm. Reykv. Össurar Skarphéðinssonar, þeirri hófstillingu, yfirvegun og varkárni sem Bandaríkjamenn hafa sýnt frá því að þessir óskaplegu atburðir gerðust. Það er ástæða til að undirstrika þetta vegna þess að menn hafa stundum rætt um stríðsæsingar í þessu sambandi, þegar Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra hafa lagt fram hugmyndir sem lúta að því að uppræta hin illu öfl hryðjuverkamannanna vítt og breitt um heiminn. Það er augljóst mál, hvernig sem á málin er litið, að vitaskuld þurfa menn að bregðast við. Vitaskuld þurfa menn með einum eða öðrum hætti að ráðast gegn þessum öflum. Það getur vel verið að við verðum að tryggja friðinn með því að fara með ófriði vegna þess einfaldlega að við erum að fást við ofbeldisfólk sem mun ekki láta það aftra sér að grípa aftur til þess að fórna saklausum mannslífum.
Virðulegi forseti. Í hinu ágæta tímariti The Economist var fyrir skömmu sagt að við gætum ekki tryggt friðinn nema að berjast fyrir honum. Ég óttast að þannig sé það núna. Við þurfum að uppræta þau hryðjuverkasamtök hvar sem þau eru í heiminum sem standa að þessum voðaverkum. Við eigum ekki að vera þau börn að ímynda okkur að það verði gert án þess að við þurfum að beita óhefðbundnum aðferðum.
Bandaríkjamenn hafa upp á síðkastið aflað sér sönnunargagna sem benda í vaxandi mæli til sökudólgsins bak við þessi voðaverk. Það hefur verið unnið skipulega að þessum málum til að koma í veg fyrir að hryðjuverkamönnunum takist ætlunarverk sitt, þ.e. að hryðjuverkin leiði til þess að fleiri mannslífum verði grandað og við sláum af hugmyndum okkar um frelsi og siðmenningu í okkar heimshluta.
[…]
Össur Skarphéðinsson:
Herra forseti. Varkárni og yfirvegun, voru lokaorð hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar. Ég held að það eigi að einkenna aðgerðir okkar og ákvarðanir — yfirvegun. Við erum að tala um stórfelld hryðjuverk sem beint var gegn 50 þúsund manns og við verðum að bregðast við með því að að reyna grípa til einhvers konar aðgerða sem geta stemmt stigu við svipuðum fyrirætlunum í framtíðinni. En yfirvegun skal vera það sem mótar ákvarðanir okkar.
Ég verð þess vegna að segja, herra forseti, að ég varð dálítið hissa að heyra mál hæstv. dómsmrh. áðan þegar hún lýsti því hvernig hún hygðist leggja fram þingmál til þess, fyrir Íslands hönd, að stemma stigu við möguleikunum á slíkum hryðjuverkum. Það á meðal annars að gera með því að staðfesta hér samninga og leggja fram frumvörp sem miða að því, að því er mér virtist af stuttu máli hennar, að skerða frelsi manna, m.a. til þess að tjá skoðanir sínar. Það er einfaldlega þannig, herra forseti, að ég vil hafa minn rétt til að fara í kröfugöngu og mótmæla hæstv. utanrrh. eins og mig lystir. Það er verið að tala um að það eigi að neita mönnum um að fara í slíkar kröfugöngur eins og þá lystir.
Við þurfum alla vega að kanna með hvaða hætti við stígum fram á við í þessum efnum. Hvernig er hægt að bregðast við hryðjuverkum af þeim toga sem við erum að ræða um hér í dag með því að banna mönnum að grípa til þessara ráða. Þetta finnst mér ekki vera jákvætt framlag inn í þessa umræðu. Við eigum ekki að nota ferðina, þegar þjóðin er samstillt um að grípa til einbeittra aðgerða gegn vá af þessum toga, til að gera svona hluti.
Herra forseti. Það er ýmislegt fleira sem ég vildi um þennan atburð segja en við skulum umfram allt ekki nota hann til að fullkomna það sem hryðjuverkamennirnir vildu gera, sem var að sjálfsögðu að ráðast gegn lífsmynstri okkar, lífsstíl og samfélagsgerð. Það yrði gert með ákvörðun af þessu tagi, rasi menn um ráð fram.
Tómas Ingi Olrich:
Herra forseti. Þessar umræður hafa verið mjög gagnlegar. Hér hefur komið fram mikil pólitísk samstaða um viðbrögð íslenskra stjórnvalda við þessum atburðum og stuðningur við yfirveguð viðbrögð Bandaríkjamanna og bandamanna þeirra í Atlantshafsbandalaginu. Þessi stuðningur er mikils virði.
Enn fremur er athyglisvert að taka eftir því, en í raun ekki undarlegt, hversu djúp áhrif þessir hörmulegu atburðir hafa haft á umræðu og hugmyndir allra, þar með talinna þingmanna, um öryggis- og varnarmál.
Ég vil aðeins taka fram í sambandi við það sem hefur komið fram á þessum fundi, t.d. hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, sem hefur efasemdir um túlkun 5. gr. og hvar eigi að draga mörkin, að þó að þarna sé um að ræða nýja tegund ógnar og menn séu að bregðast við hættu sem þeir hafa ekki brugðist við áður þá held ég að öllum sé ljóst, þegar menn líta á umfang þessa atburðar, að það var gjörsamlega ómögulegt annað en líta á þennan atburð sem árás á Bandaríkin og sem árás á hinn siðmenntaða heim, enda held ég að árásin hafi verið hugsuð þannig. Ég held að grundvöllur hennar hafi einmitt verið að láta þessa árás líta út sem árás á hinn siðmenntaða heim. Þess vegna tel ég ekkert annað hafa komið til greina en að láta þennan atburð gera 5. gr. Atlantshafssáttmálans virka.
Steingrímur J. Sigfússon:
[…] Ég vil af þeim sökum taka fram fyrir mitt leyti og gera það alveg skýrt að ég er þeirrar skoðunar, eftir að hafa skoðað þau gögn sem ég hef tiltæk um það mál, að fyrirvari Íslands sem settur var við inngöngu okkar í Sameinuðu þjóðirnar 1946 og ítrekaður við inngöngu okkar í NATO 1949, þess eðlis að Ísland muni aldrei segja annarri þjóð stríð á hendur, sé enn í fullu gildi. Stjórnskipulegt gildi hans er að mínu mati óvefengjanlegt þar sem hann er m.a. samþykktur í formi þáltill. á Alþingi 27. febr. 1945. Ég hef hvergi séð neinar yfirlýsingar, tillögur eða komist yfir neinar ákvarðanir eða afgreiðslur, hvorki á Alþingi né annars staðar, sem hafa fellt þennan ótvíræða fyrirvara úr gildi.
Ég held að það mikilvægasta í þessu efni sé síðan að draga réttan lærdóm af atburðunum og bregðast rétt við. Ég held að nú, svipað og í lok heimsstyrjaldarinnar síðari, eigi mannkynið að átta sig á því að einustu varnirnar og eina aðferðin til að tryggja varanlegan frið er fólgin í fyrirbyggjandi aðgerðum og alheimsöryggisskipan. Það var lærdómur þjóðarleiðtoganna þegar leið á seinni heimsstyrjöldina sem m.a. var staðfestur í Atlantshafssáttmálanum frá 1941. Þann lærdóm eigum við aftur að draga og hann er í raun óumflýjanlegur. Vígbúnaður einstakra ríkja eða hópa ríkja í hernaðarbandalögum mun ekki duga nú frekar en í aðdraganda heimsstyrjaldanna beggja. Þetta var niðurstaða þeirra Roosevelts og Churchills. Þetta var lærdómurinn sem var lagður til grundvallar stofnun Sameinuðu þjóðanna sem menn því miður hafa tekið að gleyma á síðari árum. Sameinuðu þjóðirnar hafa veikst. Það er miður. Nú þurfa menn að taka þráðinn upp á nýjan leik og efla þá stofnun með það að markmiði að hún uppfylli þær væntingar sem menn bundu á sínum tíma við þau alheimssamtök, að þau geti tryggt alheimsöryggisskipan og frið.
Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):
Herra forseti. Ég vil í upphafi ræðu minnar þakka þessa umræðu og þá miklu samstöðu sem hefur komið fram hjá öllum þingmönnum, að fordæma þessar hræðilegu árásir sem hafa verið gerðar á saklaust fólk og eindreginn stuðning þingmanna við að vinna að því að slíkt geti ekki gerst aftur. Ég vil sérstaklega þakka formanni Samfylkingarinnar, Össuri Skarphéðinssyni, og reyndar formanni Frjálslynda flokksins jafnframt, Sverri Hermannssyni, fyrir eindreginn stuðning við það sem ríkisstjórnin hefur aðhafst fram að þessu. Ég lít svo á að þeir hafi lýst sig algjörlega sammála því. Ég hlýt jafnframt að leggja á það áherslu að reyna að varðveita sem besta samstöðu um áframhald þessa máls. Það liggur alveg ljóst fyrir að ef kemur til sameiginlegra aðgerða Atlantshafsbandalagsins í þessu máli eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson kom hér inn á, þá er þar um meiri háttar utanríkispólitíska ákvörðun að ræða. Og samkvæmt þingsköpum ber að hafa um það samráð við utanríkismálanefnd og að sjálfsögðu ríkisstjórn. Það hefur engin slík ákvörðun verið tekin. Það hefur engin beiðni um það komið fram og það hafa engar umræður orðið um það mál enn sem komið er. En að sjálfsögðu er ekki hægt að útiloka það, sérstaklega með tilliti til þess að 5. gr. Atlantshafssáttmálans er nú orðin virk í fyrsta skipti síðan samningurinn var undirritaður.
Hv. þm. Össur Skarphéðinsson spurði jafnframt hvernig varnir Íslands yrðu undirbúnar í þessu ljósi og allur viðbúnaður hér á landi. Það er atriði sem þarf að eyða mikilli vinnu í. Og eins og hann vitnaði til þá höfum við í utanrrn. þegar fyrir löngu síðan hugleitt þessar nýju aðstæður eins og kom fram í þeirri skýrslu sem hann vitnaði til. Ég vil minna á að í þau síðustu tvö skipti sem æfingin Norður-Víkingur hefur farið fram hefur hún farið fram undir þeim merkjum að um væri að ræða hryðjuverkaárás hér á Íslandi. Menn hafa því þegar hugsað út í það.
Þar sem hv. þm. spurði hvort þessar aðstæður yrðu hafðar að leiðarljósi í viðræðum við Bandaríkjamenn vegna þeirrar bókunar sem þarf að ræða við þá um þá liggur náttúrlega alveg ljóst fyrir að slíkar viðræður á undanförnum árum hafa ekki síst mótast af því hver væri ástættanlegur lágmarksviðbúnaður hér á landi í ljósi nýrrar heimsmyndar og þeirrar váar sem við stöndum frammi fyrir að því er varðar hryðjuverkastarfsemi, glæpastarfsemi og ýmsar aðrar aðstæður. Við höfum haldið því fram að hér væri um lágmarksviðbúnað að ræða. Við þurfum að sjálfsögðu að endurmeta það í ljósi þessara aðstæðna. En ég held að það sé alveg ljóst, miðað við þær aðstæður sem nú eru komnar upp, að enn frekar er rétt að halda því fram að um algjöran lágmarksviðbúnað sé að ræða. Og við þurfum að sjálfsögðu að ræða öryggishugtakið í þessu ljósi.
Ég vil taka það fram að við höfum sérstaklega beint augum okkar að Keflavíkurflugvelli og flugstöðinni þar. Það vill svo vel til að í gær kom bandaríska flugmálastjórnin mönnum að óvörum á Keflavíkurflugvelli til að gera þar úttekt, eins og bandaríska flugmálastjórnin gerir víða um heim. Ef niðurstaða úttektarinnar er sú að ekki sé um fullnægjandi aðstæður að ræða þá getur það þýtt að allt flug verði bannað frá viðkomandi flugstöð til Bandaríkjanna. Þessi yfirvöld voru mjög ánægð með aðstæður á Keflavíkurflugvelli þannig að það sýnir að við höfum brugðist þar rétt við.
Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon spurði hér nokkurra spurninga, í fyrsta lagi um túlkun á 5. gr., þ.e. varðandi öryggisráð Sameinuðu þjóðanna og fyrirvara Íslands. Ég verð, herra forseti, vegna þess að ég sé að tími minn er útrunninn, að láta þessar spurningar bíða. Ég er að sjálfsögðu tilbúinn til þess að svara þeim. Ég er ósammála hv. þm. í mörgu því sem hann hefur haldið fram. Ég þarf hins vegar alllangan tíma til að svara hv. þm., en minni á að við hljótum að meta utanríkispólitíska hagsmuni okkar í ljósi núverandi aðstæðna en ekki aðstæðna 1945 og 1949.
29.11.2001 Skýrsla utanr. ráðherra um utanríkismál, umræða
Össur Skarphéðinsson:
Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra ræðuna. Ég get ekki annað en tekið undir þau orð sem hæstv. ráðherra hafði um skelfilegar afleiðingar voðaverkanna í Bandaríkjunum 11. september, ég tek undir þau orð sem hæstv. ráðherra hafði um afleiðingar þeirra fyrir heimsbyggðina og mannlegt samfélag alls staðar. Ég held hins vegar að við eigum að fara okkur hægt að túlka eða oftúlka áhrif þeirra atburða á efnahagslíf okkar hér heima. Það er að sönnu rétt að sú lægð sem við erum að sigla inn í mun örugglega dýpka af völdum þeirra en ég tek mönnum vara fyrir því að nota þá atburði og afleiðingar þeirra á efnahagskerfi heimsins til þess að skýra með einhverjum hætti þá stöðu sem íslenskt efnahagslíf er í núna. Það er afleiðing raða mistaka núverandi stjórnvalda og á sér engar skýringar erlendis.
Herra forseti. Samfylkingin hefur stutt afstöðu hæstv. ráðherra í þeim viðbrögðum sem alþjóðasamfélagið hefur gripið til í kjölfar atburðanna 11. september. Við Íslendingar höfum stutt samþykktir Sameinuðu þjóðanna um þessi efni. Við höfum stutt bandalag aðildarþjóða Sameinuðu þjóðanna sem ætla að láta einskis ófreistað til þess að ráða niðurlögum hermdarverkamanna hvar sem er.
Hér er komið að ákveðnu grundvallaratriði, herra forseti. Leyfist alþjóðasamfélaginu að grípa til aðgerða til að tryggja mannréttindi í einstökum ríkjum? Ég er þeirrar skoðunar, herra forseti, að svo sé. Ég er þeirrar skoðunar að það sé hlutverk alþjóðasamfélagsins að tryggja mannréttindi hvar sem er í heiminum og þess vegna segi ég það hikstalaust að ég fagna því þegar afganskar konur kasta blæjunni í Kabúl vegna þeirra aðgerða sem alþjóðasamfélagið greip til. Ég tel að það sé hlutverk alþjóðasamfélagsins að tryggja mannréttindi hvar sem er í heiminum.
Ég er þeirrar skoðunar að alþjóðasamfélagið sé í fullum rétti til að aðstoða og skakka leikinn þar sem fólk hefur verið svipt grundvallarmannréttindum sem eru viðurkennd í alþjóðlegum sáttmálum. Það er hins vegar rétt að muna, herra forseti, að sá árangur er dýru verði keyptur og mannslífið er jafndýrmætt í Afganistan og í Bandaríkjunum eða hvarvetna annars staðar. Þegar við hörmum missi þeirra sem eiga um sárt að binda vestan hafs, þá hörmum við líka mannfall og hörmungar óbreyttra borgara í þessu fjarlæga fjallalandi.
Afganistan er að sönnu fallið eða sú stjórn sem þar ríkti en það að uppræta hryðjuverkastarfsemi er flókið og langvinnt verkefni sem vinnst endanlega á öðrum vettvangi en vígvellinum einum. Það hafa auðvitað önnur öfl en einungis talibanar og samtök ofsatrúarmanna veitt hryðjuverkamönnum skjól og stuðning og þann flókna vef þarf að rekja upp. Ég er þeirrar skoðunar að forustan við þá vinnu og yfirstjórn aðgerða alþjóðasamfélagsins gegn hermdarverkasamtökum sé best komin í höndum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.
Við vitum hins vegar, herra forseti, að besta ráðið til að draga úr hryðjuverkum er að ráðast gegn misrétti og örbirgð í heiminum. Það er ekki síst hlutverk þjóðar eins og okkar. Þess vegna langar mig, herra forseti, að vekja eftirtekt á því að við í Samfylkingunni höfum í dag lagt fram till. til þál. um sjálfstæði Palestínu. Við höfum beitt okkur sérstaklega í því efni, herra forseti….