Skilvindan (pistill)
Skilvindan
eftir Pétur Gunnarsson
(flutt á aðalfundi Hollvinafélags Ríkisútvarpsins, 9. okt. 2006)
Er ekki makalaust, þegar maður hugsar um það – ef maður hugsar um það – hvað það er stutt síðan að flestöll hugverk sem skiptu máli voru bönnuð og höfundar þeirra ofsóttir, bækurnar brenndar og höfundarnir jafnvel líka. Dæmi Giordano Bruno, árið 1600, kemur upp í hugann. Og samt er kenning hans um óendanleika himingeimsins og fjölheima (multiverse) á allra vitorði í dag.
Galileo slapp lifandi, en honum var gert að éta ofan í sig heimsmynd sem heyrir til námsefni grunnskólans á okkar dögum. En meðhöndlun kirkjuyfirvalda á honum varð öðrum hugsuðum víti til varnaðar, þeir ýmist héldu að sér höndum eða drógu að gera sínar hugmyndir heyrinkunnar.
Þetta var á 17. öld.
En 18. öldin var lítið skárri, okkur gengur til að mynda illa að skilja af hverju uppeldisritið fræga: Emil eftir Rousseau var brennt opinberlega af franska böðlinum og höfundur þess bannfærður. Eða Birtingur Voltaire gerður upptækur hvar sem í hann náðist.
Og áfram upp 19. öldina, flestir sem báru brigður á ríkjandi þjóðskipulag voru ritskoðaðir, jafnvel fagurbókmenntahöfundur á borð við Flaubert var dreginn fyrir dómstóla af því að Madame Bovary hélt fram hjá bónda sínum og komst upp með það án þess að iðrast fyrir bókarlok.
Þá er í fersku minni hvernig alræðisríki 20. aldar kúguðu og ofsóttu þá sem voguðu sér að tjá óleyfilegar hugsanir.
Heimsmyndin var svona brothætt. Kúgunin svo blygðunarlaus að á öllu reið að gagnrýnin eða ókórrétt skoðun næði ekki að koma upp um nekt ráðamanna.
Nú við upphaf 21. aldar er vissulega víða pottur brotinn, og er skemmst að minnast að í nýliðinni viku var víðkunn blaðakona, Maria Politokskaia, myrt í Moskvu og fyllti þar með hóp 42. blaðamanna sem hafa verið líflátnir í Rússlandi frá falli Sovétríkjanna 1991, þar af tólf í stjórnartíð Pútíns, en undir hans stjórn hefur ríkisvaldið sölsað undir sig hvern fjölmiðilinn á fætur öðrum og múlbundið hina.
Það er aftur á móti af gömlu Evrópu að frétta að það mun heyra til undantekninga ef bók eða blaðagrein nú um stundir vekur viðbrögð í ætt við bann eða jafnvel umtal.
Hvernig skyldi standa á því?
Er heimsmyndin svona traust, steypustyrkt og járnbent? Eða er kannski ekki þörf á heimsmynd lengur? Hver er okkar heimsmynd?
Án þess ég ætli mér þá dul að svara því, blasir við að þjóðfélög Vesturlanda byggja ekki lengur á hefðum, heldur þvert á móti á breytingum. Neyslan útheimtir stöðug umskipti, vélarnar úreldast í höndunum á okkur: myndavélin, kvikmyndavélin, ritvélin, plötuspilarinn, videó-tækið, fax-tækið, síminn, tölvurnar, hugbúnaðurinn allt úreldist meira og minna á fimm til tíu árum.
Við bætist að sóunarsamfélagið er að mestu hætt að gera við nokkurn skapaðan hlut: úr, myndavélar, símar, hjól þessir nánast helgigripir fyrir fáeinum áratugum eru orðnir einnota og bílar jafnvel þokast með hverju ári nær einnotastiginu.
Til að halda þessari óheyrilegu hlutaveltu gangandi þarf gríðarlega neysluvél sem með öllum tiltækum ráðum verður að halda okkur við efnið: auglýsingar beinar og óbeinar streyma að úr öllum áttum, auglýsingakálfur ókeypisblaðanna fitnar eins og púkinn á fjósloftinu, nýrri auglýsingu er dag hvern klístrað á sjálfa forsíðu Morgunblaðsins og áskrifandinn fær það skemmtilega hlutverk í morgunsárið að plokka hana af um leið og fréttina sem bjó á bak við.
Auglýsingar poppa upp í tölvunni um leið og maður ræsir netið og leggjast jafnvel yfir heimasíðurnar sem maður heimsækir. Ef ekki væri fyrir skilvirkar vírusvarnir yrði tölvan fljótlega óstarfhæf vegna allra kauptilboðanna sem frekjast inn á skerminn.
Langþráð takmark væri áreiðanlega að finna leiðir til að læða auglýsingum milliliðalaust inn í hugskot manna. En um þá framtíðarsýn hefur reyndar verið skrifuð íslensk skáldsaga, Love-star eftir Andra Snæ Magnason.
Við köllum þetta upplýsingasamfélag, en spurning hvort það er ekki skrumyrði, að auglýsingasamfélag væri meira réttnefni. Þetta fyrirkomulag grundvallast ekki nema að litlu leyti á framleiðslu hluta, vaxtarbroddurinn eru áður óþekktir möguleikar til að selja fólki hugarefni eftir sýnilegum sem ósýnilegum boðleiðum. Með þeim afleiðingum að hugur okkar er staddur í sannkölluðu umferðaröngþveiti aðstreymandi efnis. Aðstæður sem voru ríkjandi fyrir segjum aldarfjórðungi þegar þurfti meðvitaða ákvörðun til að sækja sér andlegt fóður: taka fram bók og finna næðisstund til að lesa, klæða sig upp á og fara í bíó eða leikhús eða tónleika, hlusta á vandlega samsetta dagskrá útvarps eða horfa á þessa einu sjónvarpsstöð hljóma nú eins og tíðindi af minjasafni.
Hér stendur ekki til að vanþakka þá byltingu sem nútímatækni býður upp á í miðlun efnis og aðgangur okkar að upplýsingum er sannarlega þakkarverður í fyrirhafnarleysi sínu og magni. En í öllu þessu aðstreymi efnis hefur bara gleymst að sjá fyrir einu: fleiri klukkustundum í sólarhringinn og fleiri árum í mannsævina.
Við þekkjum það á eigin skinni að obbinn af ritmáli og myndmáli og hljóðmáli fer meira og minna fram hjá okkur. Það er engu líkara en innihaldið sé orðið að aukaatriði, hin fyrrum ögrandi setning McLuhans: the medium is the message (miðillinn er málið) er löngu orðin að viðteknum sannindum. Aðalatriðið er að eitthvað sé í gangi, fyrst og fremst til að hægt sé að koma á framfæri skilaboðum um allt hið gríðarlega magn af varningi efnis- sem óefniskenndum sem bíður kaupandans.
Og þá er komið að þessu óvænta: meira getur þýtt minna. Fríblöð og fleiri rásir þýða ekki að við meðtökum alltaf meira, heldur þvert á móti minna – það er nánast liðin tíð að maður lesi blaðagrein frá upphafi til enda, efniskjarninn verður að nægja. Svipað og með tölvupóstinn, maður hefði haldið að það yrði aldeilis auðveldara að skrifa bréf þegar maður þyrfti ekki lengur að skrifa utan á umslag og labba með það niður á pósthús. En nei, tölvupósturinn hefur nánast gengið af bréfaskriftum dauðum eða umbreytt þeim í stutt skilaboð, líkt og blaðagreinin er sendibréfið skroppið niður í efniskjarnann.
Um öll Vesturlönd sjáum við hvernig alvarleg dagblöð sem leggja á sig erfiði og fyrirhöfn við að bregða ljósi á málefni líðandi stundar eiga undir högg að sækja, leggja upp laupana eða bregða á það ráð að létta á farminum, að minnsta kosti gera hann léttari, auðmeltari í von um að hreppa þær auglýsingatekjur sem úthaldið heimtar.
Líku gegnir um sjónvarpsþætti sem róa á menningarleg mið, þeir hafa tilhneigingu til að færast stöðugt aftar á dagskrána – jafnvel alla leið út í klámbeltið – áhorfið er ekki nægilega mikið, auglýsingatekjurnar of litlar.
Þannig þokast smám saman bókmenntir, vísindi, heimspeki og listir úr sjónmáli. Verk sem lengi hafa talist til meginstærða mannsandans (ég hlífi viðstöddum við upptalningunni) eru nú þegar á góðri leið með að breytast í safngripi sem einungis sérþjálfaðir starfsmenn umgangast, en allur almenningur skynjar eins og hverjar aðrar risaeðlur vitnisburður um forvitnilega, jafnvel ögn ógnvænlega en löngu liðna tíma.
Nú sem aldrei fyrr þarf miðlun, skilvindu, matreiðslu, meltingu og í því sambandi langar mig til að staldra sérstaklega við sterkasta miðilinn: sjónvarpið.
Sennilega byrjar hver nýr miðill ævinlega sem ófullveðja. Sá miðill sem fyrir er klappar hinum nýkomna á kollinn. Þannig ímynda ég mér að hafi verið í fyrstu með hina prentuðu bók í samanburði við handritið, hið skrifaða orð hafði meira vægi en hið prentaða (ég man meira að segja þá tíð að það var ekki tekið mark á vélritaðri ritgerð í Menntaskólanum í Reykjavík).
Og bókin að sínu leyti talaði niður til útvarpsins á fyrstu dögum þess. Og eins var um sjónvarpið, menntamenn gerðu sér lengi vel far um að sniðganga það, ætluðu hreinlega að standa það af sér. Enda byrjar sjónvarpið fyrsta kastið sem afþreyingarmiðill, en nær með undraskjótum hætti undirtökum á heimilunum. Við getum líkt því við skemmtilegan gest sem kæmi reglulega í heimsókn og reitti af sér brandara og gæfi börnunum sælgæti. Síðan gerðist það að hann ynni hug og hjarta húsfreyjunnar og yrði við það nýr húsbóndi á heimilinu. Þá næði að sjálfsögðu ekki nokkurri átt að hann héldi áfram að einskorða hlutverk sitt við að reyta af sér brandara og gefa börnunum nammi.
Það sem ég er að reyna að segja með þessari dæmisögu er að sjónvarpið verður að axla þá ábyrgð að miðla helstu hugarstefnum og straumum samtímans og vera trúverðug leiðsögn á ferðalagi okkar um tímann.
Í upphafi fór ég á hundavaði yfir ritskoðunarsögu Vesturlanda. Hinn íslenski þáttur þeirrar sögu varð óhjákvæmilega út undan, enda var öldum saman ekki neitt gefið út á Íslandi annað en þýðingar á einhverju kristilegu lesi, ekki allt í mjög háum gæðaflokki, ef marka má ummæli Tómasar Sæmundssonar í Fjölni árið 1839:
Hárin rísa á höfði manns, og hvur, sem nokkurt hjarta er í, fillist gremju, þegar hann sjer af bókatölu þessari, að landið væru miklu betur farið, ef eina prentverkinu, sem það á, væri sökkt niður á fertugu djúpi, og það ætti ekkjert, enn að því sje sona varið, þjóðinni til skammar og til að mirða mentun hennar.
Sjónvarpið íslenska fagnar um þessar mundir fertugsafmæli sínu. Það væri óskandi að þau hjónaleysin, sjónvarpið og þjóðin, gæfu á þeim tímamótum hvort öðru þá gjöf að sökkva sér niður í þjóðardjúpið til að gera skil draumum okkar jafnt sem vöku. Til þess þarf samantekin ráð samfélagsins alls, það er ekki á færi neinna aðvífandi lukkuriddara, aðeins okkar sjálfra.
Það er hlálegt í því sambandi að ræða peninga, hvað þá á góðæristímum sem svo mjög er gumað af þegar miljarður er orðin munntamasta mælieiningin. En ef það væri spurning um að skera niður kostnaðarlið til mótvægis, þá mætti utanríkisþjónustan fara eins og hún leggur sig. Það er töluvert meiri ábyrgðarhluti að endurvarpa ekki mynd þjóðarinnar af sjálfri sér, en þótt utanríkisþjónustunni yrði gert að búa í tölvupósti um skeið.