Skortur vofir yfir Írak (frétt)
Skortur vofir yfir Írak
Frétt í Morgunblaðinu 27. september 1995
Genf, Reuter. Stofnun á vegum Sameinuðu þjóðanna sagði í gær að líf milljóna Íraka væru í hættu vegna matvælaskorts af völdum refsiaðgerða Sameinuðu þjóðanna.
Hópur á vegum Alþjóðamatvælastofnunarinnar (WPF) í Róm er nýkominn úr tveggja vikna leiðangri til Íraks. Dieter Hannusch, einn yfirmanna stofnunarinnar, sagði ástandið vera með því versta er hann hefði séð á ferðum sínum um neyðarsvæði undanfarin 24 ár.
"Sífellt fleiri eyða öllum deginum í að reyna að afla sér fæðu til að lífa af. Hin félagslega uppbygging landsins er að brotna niður", sagði Hannusch.
Mona Hannam, annar fulltrúi stofnunarinnar, sagði fjórðung írösku þjóðarinnar, alls fjórar milljónir manna, vera í alvarlegri hættu vegna næringarskorts.
Þeirra á meðal væru 2,4 milljónir barna yngri en fimm ára, hálf milljón ófrískra kvenna eða kvenna með börn á brjósti og hundruð þúsunda aldraðra er ættu engan að.
Stofnun sagði að þótt uppskera í Írak væri nú 16% minni en í meðalári hefði það ekki afgerandi áhrif til hins verra á fæðuskortinn. Hafa bæri í huga að Írakar hefðu ávallt flutt inn 70% matvæla.
Hannusch lýsti yfir því að bærist aðstoð ekki bráðlega myndu einungis þeir er brytu viðskiptabann Sameinuðu þjóðanna, svartamarkaðsbraskarar og þjófar, lifa af.