Áskorun til íslenskra stjórnvalda vegna þátttöku Íslands í refsingum án dóms og laga 16.7.1994
Við undirrituð skorum á íslensk stjórnvöld að binda tafarlaust enda á þátttöku Íslands í hvers kyns hóprefsingum sem beitt er án dóms og laga gegn íbúum Íraks, Líbýju og Serbíu.
Hóprefsingar, þ.e. refsingar fjölskyldna, ættbálka, íbúa heilla bæjarfélaga eða þjóða vegna meintra brota eins og af þegnum samfélagsins, eru í andstöðu við réttarvitund og réttarvenjur siðaðra þjóða. Hið sama á við um refsingar sem beitt er án dóms og laga. Íslensk lög kveða á um að aðeins megi sakfella einstakling, aldrei hópa.
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur ákveðið án dóms og laga að refsa heilum þjóðum vegna meintra brota leiðtoga þeirra, þar á meðal íbúum Íraks, Serbíu og Líbýu. Þessar þjóðir búa ekki við lýðréttindi og leiðtogar þeirra eru taldir ábyrgir fyrir hinum herfilegustu mannréttindabrotum. Með refsiaðgerðum sínum hefur Öryggisráðið skert enn frekar mannréttindi þessara þjóða. Afleiðingar refsiaðgerðanna eru hrikalegar. Í Írak, sem hefur verið á meðal þróuðustu ríkja í Austurlöndum nær, er farið að gæta hungursneyðar, barnadauði hefur margfaldast af völdum refsiaðgerðanna og heilbrigðiskerfið er í rúst. Svipað á við Serbíu. Þeir sem mega sín minnst, börn, gamalmenni og sjúklingar, þjást mest.
Við minnum á ákvæði Genfarsáttmálanna, sem Ísland hefur undirritað, einkum bann við stríðsaðgerðum sem bitna helst á óbreyttum borgurum. Refsiaðgerðir Öryggisráðsins má skoða sem stríðsaðgerðir.
Þar sem Ísland er formlegur aðili að þessum siðlausum aðgerðum, erum við öll semsek því að valda saklausu fólki óbætanlegum skaða. Fórnarlömbin hafa aldrei gefið okkur tilefni til að ráðast á líf þeirra og heilsu.
Arnþór Helgason, deildarsérfræðingur
Arthúr Morthens, sérkennslufulltrúi
Ágúst Þór Árnason, blaðamaður
Bríet Héðinsdóttir, leikstjóri
Einar Valur Ingimundarson, umhverfisverkfræðingur
Elías Davíðsson, tónskáld
Garðar Mýrdal, eðlisfræðingur
Guðmundur Steinsson, rithöfundur
dr Gunnar Kristjánsson, sóknarprestur
Heimir Pálsson, deildarstjóri
Karl Sigurbjörnsson, sóknarprestur
Pétur Knútsson, lektor
Sigurður A. Magnússon, rithöfundur
Steinunn Jóhannesdóttir, rithöfundur