Áskorun vegna þátttöku Íslands í alþjóðaglæpum, jan. 1997
Áskorun vegna þátttöku Íslands í alþjóðaglæpum
Janúar 1997
Samkvæmt nýlegum skýrslum Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) hafa 576 þúsund börn í Írak látist af völdum hins víðtæka alþjóðleg viðskiptabanns sem hefur staðið yfir frá því í ágúst 1990. Ennfremur er hætt við að vannæring af völdum þess gæti dregið úr geðþroska heilla kynslóða þar í landi. Slíkt tilræði gegn börnum heils samfélags á ekki sitt fordæmi í nútíma mannkynssögu. Ísland er aðili að þessu viðskiptabanni.
Alþjóðasamningur sem íslensk stjórnvöld hafa undirritað og heitið að virða, banna þó alfarið og undantekningalaust atlögu sem beinist gegn óbreyttum borgurum. Ein meginregla í réttarfari okkar er að ekki má refsa saklausum mönnum. Að beita óbreytta borgara annarra landa kúgun til að etja þeim gegn eigin stjórnvöldum er skilgreint sem alþjóðlegt hryðjuverk. Að svelta almenna borgara sem tilraun til að ná hernaðarlegum ávinningi telst stríðsglæpur. Viðskiptabannið gegn írösku þjóðinni er því ekki lögmæt stjórnmálaathöfn heldur flokkast samkvæmt þjóðarétti til alþjóðaglæpa.
Íslensk stjórnvöld styðja með lögformlegum hætti þetta viðskiptabann (sbr. auglýsingu nr. 160 sem birtist í Stjórnartíðindum 28. apríl 1992) og bera því siðferðilega og lagalega ábyrgð á afleiðingum gerða sinna til jafns við ríkisstjórnir annarra landa.
Um leið og við undirrituð skorum á íslensk stjórnvöld að binda tafarlaust endi á þátttöku Íslands í viðskiptabanninu gegn írösku þjóðinni og setja lög sem banna þátttöku Íslands í hóprefsingum af þessu tagi, krefjumst við þess að þeir íslenskir einstaklingar sem hafa með embættisverkum sínum tryggt þátttöku Íslands í þessu viðskiptabanni, verði lögsóttir fyrir alvarleg brot á þjóðréttarlegar skuldbindingar Íslands.
Með því að bera fram þessar kröfur, teljum við okkur uppfylla lagalegar og borgaralegar skyldur sem þegnar í lýðræðissamfélagi.
Arnþór Helgason (forstöðumaður), Carlos Ferrer (sóknarprestur), Einar Ólafsson (rithöfundur), Eiríkur Brynjólfsson (skáld og kennari), Erpur Eyvindsson (nemi), Eyjólfur Eyvindsson (atvinnulaus), Eyvindur Erlendsson (rithöfundur), Elías Davíðsson (tónskáld), Gunnvör Rósa Eyvindardóttir (deildarstjóri), Jón Múli Árnason (þulur), Leifur Þórarinsson (tónskáld), Margrét Guðmundsdóttir (kennari), Sigurður Flosason (strætisvagnastjóri), Sigurður A. Magnússon (rithöfundur), Þórunn Magnúsdóttir (sagnfræðingur).
Janúar 1997