‘Skákað í skjóli friðar’ – Leiðari DV
Leiðari, DV, lok ársins 1990
Ellert Schram
Níutíu Íslendingar hafa sent frá sér áskorun til ríkisstjórnar Íslands um að lýsa yfir andstöðu sinni gegn stríðsaðgerðum í Austurlöndum nær. Hópurinn telur að íslensk stjórnvöld beri pólítiska ábyrgð á hugsanlegri styrjöld við Persaflóa með því að greiða atkvæði með sam.þykkt Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um að beita hervaldi til að koma Írökum frá Kúvæt.
Hér er að vísu ekki um fjölmennan hóp að ræða en allt eru það þjóðkunnir menn sem skrifa undir áskorunina og ekki verður dregið í efa að þeim sé full alvara með undirskriftum sínum. Og auðvitað hafa þessir menn sinn rétt til að láta skoðanir sínar í ljósi og senda frá sér hvers konar áskoranir og yfirlýsingar um úrlausn heimsmálanna.
Hér er flaggað í nafni friðarins. Níutíumenningarnir telja sig friðarsinna. Þeir styðja ekki stríðsrekstur og hafna þeirri lausn á deilunum við Persaflóa að hervaldi sé beitt til að Kúvætbúar öðlist yfirráð yfir sínu eigin landi.
Þessi plata hefur áður verið spiluð. Þegar Hitler réðst inn í Súdetahéruðin hvöttu friðarsinnar til samninga við Þjóðverja. Eftir að nasístarnir höfðu ráðist inn í Tékkóslóvakíu var aftur sagt að semja skyldi við Hitler. Friðarsinnar vöruðu við hernaði og Chamberlain gekk í gildruna sem ofbeldisseggurinn lagði fyrir hann. Chamberlain lífir í sögunni fyrir hin fleygu orð: friður um okkar daga. Hann hafði ekki sleppt orðinu þegar Hitler réðst á Pólland og blóðbaðið hófst.
Nú vilja friðarsinnar endurtaka þennan leik. Saddam Hussein hefur gerst sekur um ósvífna árás á sjálfstæða þjóð. Hann tók Kúvæt herskildi með vopnavaldi og hefur þurrkað út Kúvæt af landakortinu. Nú heitir það hluti af Írak. Af Bandaríkjamenn hefðu ekki safnað liði til varnar Saudi Arabíu er allt eins líklegt að Saddam Hussein hefði lagt til atlögu gegn því landi og allir þekkja yfirlýsta stefnu hans um gjöreyðingu Ísraels.
Það er einkennileg túlkun á friði að halda skuli hlífiskildi yfir árásarmönnunum, láta þá komast upp með hernað og ofbeldi og mælast síðan til þess að umheimurinn bjóði ofbeldisseggnum kurteislega til friðarráðstefnu! Það má ekki styggja Saddam Hussein. Það má ekki beita hervaldi til að kveða hernaðinn niður!
Það er auðvitað vatn á myllu Saddams Hussein og illverka hans þegar friðarsinnar um allan heim mótmæla stríðsrekstri gegn honum. Það er ekki ónýtt að hafa slíka bandamenn sem vilja fyrirfram útiloka stríð gegn þeim ofbeldismönnum sem ráðast gegn nágrannaríkjum sínum og leggja þau niður. Það á bara að rétta þeim höndin og biðja þá allra auðmjúklegast að drepa nú ekki fleiri menn! Friðnum má ekki spilla, friður um okkar daga. Það er kjörorð þeirra sem telja að ofbeldinu verði best svarað með því að gefast upp fyrir því.
Hér er ekki verið að hvetja til styrjaldar. En hitt er eins víst að það er með öllu útilokað að lýsa yfir fyrirfram að vopnum verði ekki beitt gegn vopnum. Það er fjarstæðukennt með öllu ef Íslendingar eiga að þvo hendur sínar af samþykktum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og kyssa vönd Saddams Hussein. Íslendingar hafa skyldum að gegna í samfélagi þjóðanna og Íslendingar þekkja þá staðreynd að linkind gagnvart ofbeldinu býður ofbeldinu heim. Ekkert er Saddam Hussein kærkomnara en ótímabær hræðsla svokallaðra friðarsinna við hernaðarátök. Hitler skákaði í því skjólinu. Það gerir Saddam Hussein líka.
Ath. Elíasar Davíðssonar ágúst 2005:
Rökin hér að ofan má nota næstum óbreytt gagnvart ofbeldissstefnu, hernámi og árásum Ísraela, árásum Bandaríkjanna á önnur ríki og önnur slík tilfelli. Hvað Ísrael varðar, liggja fyrir hundruð samþykktir Sameinuðu þjóðanna sem Ísrael hefur hunsað og alþjóðasamfélagið hefur ekki reynt að framfylgja, ekki einu sinni með friðarsamlegum aðgerðum.
Eins og Átak gegn stríði hefur spáð fyrir, hefur Persaflóastríðið, sem Ellert Schram mælti með, ekki leyst nokkurn skapaðan hlut. Yfir 100,000 manns lágu í valnum. Írak lá í rúst. Börn dóu unnvörpum vegna mengaðs vatns og geislavirkra vopna. Þegar þessi orð eru skrifuð, ríkir hvorki friður né lýðræði í Írak.
Samanburður höfundar milli Saddams og Hitlers er hæpinn. Þótt báðir kynnu að eiga svipaða persónueiginleika, var Þýskaland á tíma Adolfs Hitlers öflugt iðnaðarveldi. Írak var hins vegar þriðjaheimsríki sem flutti inn flestar iðnaðarvörur og m.a.s. 80 prósent af matvörum. Íraksherinn var svo veikur að Írakar gátu ekki varið lofthelgi sína gegn loftárásum Bandaríkjanna, ekki einu sinni einn dag. Yfir 60,000 íraskir hermenn voru teknir til fanga. Baráttuvilji þeirra var enginn. Írak var engin ógnun fyrir Saúdi Arabíu, hvað þá fyrir Ísrael.