Svörin
Svörin
Satt að segja bjóst höfundur ekki við að hann þyrfti nokkurn tíma að skrifa þennan rýra kafla bókarinnar. Taldi að mál mundu brotna upp áður en til þess kæmi og upplýsingar opinberra aðila um leyndarbréfin yrðu aðalatriði leyndarbréfamálsins ásamt aðgerðum valdhafa. Auglýsing höfundar sem birtist í 6. og 7. tölublaði Lögbirtingablaðsins 1995 ýtti frekar undir þetta álit. Þar var skorað á alla opinbera embættismenn og aðra sem hefðu fengið erindi vegna Skýrslu minnar frá 20. otkóber 1994 um meint lögbrot, einkum tengd þremur leyndarbréfum Hæstaréttar Íslands og forseta Hæstaréttar og um viðbrögð opinberra aðila við þeim, að koma sannanlega að athugasemdum til höfundar fyrir lok janúar 1995. Ljósrit af auglýsingunni er á bls. 207 í bókinni. En svörin voru þessi:
Alþingismenn:
Enginn alþingismannanna hefur svarað erindi höfundar formlega og sannanlega og heldur ekki með öðrum hætti svo ég viti. Frá þessu skal þó greint:
Einn úr þeirra hópi, Kristín Ástgeirsdóttir, alþingiskona, nefndi Hrafnsmál í ræðu sinni á Alþingi sem sjónvarpað var að kvöldi 24. október 1994. Höfundur kipptist nokkuð við þegar málið var nefnt. En þarna hefur alþingiskonan sennilega átt við mál tengt Hrafni Gunnlaugssyni, gömlum vini og félaga forsætisráðherra, sem var upphafsmaður umræðunnar. Ræða Kristínar gaf ekki glögglega til kynna við hvern var átt.
Annar alþingismaður, Guðmundur Hallvarðsson, kemur lítillega við sögu. Hann braut nýlega á Alþingi upp á framkvæmd laga sem vörðuðu siglingar og öryggi sjómanna. Kom fram í máli Guðmundar að mjög skorti á að fylgt væri lögum og reglum sem að þessum málum lúta og brýnt væri að bæta lagaframkvæmdina, því slysin væru alvarleg og slysafjöldinn mikill.
Flestir munu telja að býsna langt sé milli leyndarbréfamálsins og öryggis sjómanna, þótt það sé ef til vill skemmra en margan grunar. En ég nefni þennan málflutning Guðmundar vegna þess að hann er eini alþingismaðurinn sem ég man eftir að hafa rætt við eftir að ég sendi þeim Skýrsluna 21. október 1994. Það kom þannig til að seinni hluta október 1994 hafði Guðmundur opnað kosningaskrifstofu vegna prófkjörs í Sjálfstæðisflokknum í nágrenni við vinnustað höfundar. Átti ég alloft leið fram hjá kosningaskrifstofunni þar sem öllum mun hafa verið tekið sem aufúsugestum. Fannst mér við þessar aðstæður næstum dónalegt að ganga oft fram hjá skrifstofu alþingismannsins, sem ég hafði verið að senda mikilsvert erindi, án þess að heilsa upp á hann. Guðmundur tók höfundi prúðmannlega. Hann sagðist hafa fengið Skýrsluna en honum mundi ekki gefast tækifæri til að athuga hana fyrr en að loknu prófkjörinu.
Opinberar stofnanir og félög:
Einn þeirra aðila sem þar er nefndur sem viðtakandi bréfs frá 24. október hefur svaraði erindi höfundar. Það er Umboðsmaður Alþingis. Er svar hans, sem er undirritað af Gauki Jörundssyni, dagsett 3. nóvember 1994, svo hljóðandi:
- "Með bréfi, dags. 24. október s.l., barst mér Ò Skýrsla um samfélag Aðaltilefni: þrjú leyndarbréf, tengd Hæstarétti Íslands, frá febrúar 1994". Þar sem umfjöllun minni um kvörtun yðar er lokið, gera lög nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis ekki ráð fyrir því, að ég tjái mig frekar um það mál, sem þar var fjallað um."
Fleiri svör hafa borist frá Umboðsmanni Alþingis, þess efnis að hann hafi móttekið bréf, sem höfundur hefur sent honum, án annarra athugasemda. Aðrir svöruðu ekki.
Sambönd og félög:
Ekkert þeirra sambanda og félaga sem sent var bréf mitt, dags. 25. október 1994, hafa svarað því.
Blaðamannafélag, fjölmiðlar og Rithöfundasamband:
Engin formleg svör við bréfi höfundar, dags. 26. október 1994 né bréfi til Kastljóss Sjónvarpsins, dags. 27. október 1994 og engin viðtöl fjölmiðla við æðstu embættismenn réttarkerfisins eða aðra embættismenn um leyndarbréfin hafa átt sér stað svo höfundi sé kunnugt.
Einn rithöfundur, Sigurður A. Magnússon, flutti skömmu eftir sendingu Skýrslunnar óvenju snarpan og harðorðan pistil um spillingu í samfélaginu og skerðingu fjárveitinga til menntastofnana. Var það í þætti um bókmenntir og listir á Rás 1. Datt höfundi í hug að ef til vill hefði hann séð Skýrsluna.
Katrín Gunnarsdóttir, fréttamaður á Stöð 2 og Bylgjunni, hafði samband við skýrsluhöfund nokkru eftir 20. janúar 1995. Var raunar eini aðilinn af þeim sem höfðu ástæður til að taka auglýsingu höfundar í Lögbirtingablaðinu til sín, sem spurði um efni hennar. Katrínu virtist alls ókunnugt um tilefnið nema að því leyti sem fram kom í auglýsingunni. Var Katrínu bent á að dómsmálaráðherrann og forseti Hæstaréttar væru margfalt álitlegri til svara fyrir leyndarbréfin en höfundur. Katrín virtist treg til að samþykkja það og spurði ítrekað hvort ég hefði leyndarbréfin tiltæk. Ég sagði það reyndar vera, en fréttastofa Stöðvar 2 og Bylgjunnar væri líklega þrisvar eða fjórum sinnum búin að fá ljósrit af þeim. Voru nöfn Elínar Hirst og Heimis Más Péturssonar nefnd í því sambandi.
Fréttastjóri Fréttastofu útvarps, Kári Jónasson, svaraði höfundi ekki beint eða sérstaklega, en hann birti litla athugasemd á blaðsíðu 6 í Morgunpóstinum 20. febrúar 1995, sem tengdist bréfi Hrafns Bragasonar, forseta Hæstaréttar, dags. 22. febrúar 1994, og auðkennt hefur verið sem þriðja leyndarbréfið í Skýrslunni. Athugasemd fréttastjórans er svohljóðandi:
- "Þorgeiri andmælt.
Vegna ummæla Þorgeirs Þorgeirssonar rithöfundar um Fréttastofu útvarps á blaðsíðu 22 í Morgunpóstinum 16. febrúar sl. skal honum bent á, að hvorki ráðuneytisstjóri dómsmálaráðuneytisins, forseti Hæstaréttar né aðrir stunda ritskoðun á Fréttastofu útvarps. Hér starfa fréttamenn, sem láta ekki stjórnast af neinum ÒStóra bróður".
- Kári Jónasson
- fréttastjóri útvarps"
Sæmilega varkár fréttastjóri í alvörusamfélagi hefði án efa óskað gagna og skýringa frá viðurkenndum rithöfundi sem héldi fram að fréttastofa hans væri ritskoðuð af valdamiklum aðilum, sem stæðu alfarið utan fréttastofunnar. Því fremur hafði fréttastjórinn ástæður til að fara vandlega yfir málið vegna ábendinga Þorgeirs, þar sem Þorgeir hafði unnið mál um tjáningarfrelsi gegn íslenska ríkinu fyrir Mannréttindadómstólnum í Strassborg og hefði því átt að vita hvað hann var að fjalla um.
Andmæli fréttastjórans við athugasemdum Þorgeirs vekja spurningar. Hvernig stendur á því að fréttastjórinn fjallar ekki um trúnaðarmálabréf forseta Hæstaréttar til Ríkisútvarpsins, þriðja leyndarbréfið, dags. 22. febrúar 1994, sem beinlínis var skrifað vegna fréttar Fréttastofu útvarps 19. febrúar 1994? ÒStóra bróður” tilvitnunin virðist þaðan komin. Og af hverju útskýrir fréttastjórinn ekki hvers vegna Fréttastofan hefur þagað svo fast um það bréf? Skýrsluhöfundur hefur ástæðu til að ætla að fréttastjórinn hafi fengið bréfið í hendur skömmu eftir ritun þess og aftur í maí 1994. Þá var bréfið meðal skjala í Skýrslu höfundar frá 20. október 1994, sem send var Fréttastofunni. Og hvernig stendur á því að frétt Fréttastofunnar frá 19. febrúar 1994 um fyrsta og ódagsetta leyndarbréfið var ekki fylgt eftir með kröfu um lagalegar forsendur og skýringar Hæstaréttar Íslands eða forseta Hæstaréttar? Er starfsemi Hæstaréttar og Fréttastofu Ríkisútvarpsins ekki lögbundin og opinber? Stafar þögnin af því að leyndarskjöl forseta Hæstaréttar eru æðri lögum um Ríkisútvarpið? Eru ólögleg leyndarbréf opinberra íslenskra aðila ekki fréttaefni? Meðan fréttastjórinn lætur sem lögbundin grundvallaratriði um starfsháttu Fréttastofu útvarpsins séu ekki til og hefur í frammi blekkjandi andmæli er ástæða til að ætla að Þorgeir hafi haft rétt fyrir sér, þegar hann sagði að Fréttastofan dreifði áreiðanlegustu þögninni.
Erlend sendiráð á Íslandi: Engin viðbrögð.
Forystumenn stjórnmálahreyfinga ungs fólks: Engin svör.
Umboðsmaður barna: Ekkert svar.
Dómendur í Byggungmáli: Svo hljóðandi bréf barst frá Hjördísi Hákonardóttur, dags. 9. nóvember 1994:
- "Ég vísa til bréfs lögmannsins dags. 27. október 1994. Mér er ljúft að upplýsa það að um minnispunkta frá Haestarétti Íslands um kærumál, sem ritaðir voru í febrúar 1994, heyrði ég fyrst í tjölmiðlum. Einhverju síðar barst ljósrit á skrifstofu mína. Eg hafði hvorki séð þetta skjal né um það heyrt þegar úrskurður um kröfu lögmannsins um að dómurinn viki sæti í málinu nr. E - 4677/1992 var kveðinn upp. Fyrirspurn um það hvort lögmaðurinn myndi kæra úrskurðinn hlýtur að teljast eðlileg í ljósi þess að kröfunni var hafnað og úrskurðurinn var kæranlegur. Ofan greind umfjöllun um kærumál kom dómsmáli því sem var til umfjöllunar, máli E - 4677/1992, nákvæmlega ekkert við og var ekki rætt í tengslum við það."
Háskólaráð Háskóla Íslands: Ekkert svar.
Ríkisendurskoðun: Ekkert svar.
Forsvarsmenn Dómsmálaráðuneytis: Ekkert svar.
Forystumenn Þjóðvaka: Ekkert svar.
Saksóknarar: Ekkert svar.
Mannréttindaskrifstofan: Ekkert svar.
Dómarar lýðveldisins: Ekkert formlegt svar. En höfundur og Valtýr Sigurðsson, héraðsdómari og formaður Dómarafélags Íslands, hittust á Laugaveginum nokkru eftir að Skýrslan var send Héraðsdómi Reykjavíkur og alllöngu áður en bréfið frá 14. desember 1994 var sent. Sagðist Valtýr þurfa að leiðrétta atriði í Skýrslunni. Hrafn Bragason hefði ekki verið varaformaður Dómarafélags Íslands 20. apríl 1994, þegar hann ákvað að höfundur fengi ekki að leggja fram skjöl í Héraðsdómi sem vörðuðu meint vanhæfi héraðsdómarans til að fara með málið. Ég upplýsti Valtý að um þetta atriði hefði ég byggt á ársskýrslu Dómarafélagsins, sem hann hefði sent mér í maí 1994. Valtýr upplýsti að sú ársskýrsla miðaðist við ársfund Dómarafélagsins seint á árinu 1993, en þá hefði Hrafn hætt stjórnarstörfum í Dómarafélaginu.
Prófessorar Lagadeildar Háskóla Íslands: Ekkert svar.
Lögmannafélag Íslands: