Sæbjörn Valdimarsson, blaðamaður
Sæbjörn Valdimarsson
Morgunblaðið
Sæll Sæbjörn,
Ég las grein þína í Mbl. í dag 27. ágúst 2006 "Heimur í gíslingu" þar sem þú kynnir kvikmyndirnar United 93 og World Trade Center. Af gefnu tilefni, tel ég mér skylt að senda þér eftirfarandi bréf ásamt áskorun.
Í upphafi greinarinnar skrifar þú: "Ógnin, sem kristallaðist á hinum svarta septemberdegi, hefur vofað yfir Vesturlandabúum æ síðan, tiltölulega lítill hópur íslamskra hryðjuverkamanna minnir umheiminn daglega á sig, heldur okkur í gíslingu óttans."
Ég tel ummæli þín tómt þvaður sem enginn fótur er fyrir. En þar sem þú breiðir út úr þér með heilsíðu grein og með áróðurskenndum titli, tel ég óhjákvæmilega að skora á þig að mæta mér á opinberum vettvangi og sanna í áheyrn fjöldans:
(a) Að íslamskir hryðjuverkamenn hafi farið um borð flugvélanna sem notaðar voru til árása á tvíburaturnana
(b) Að tengsl hafi verið milli Osama bin Laden og atburðanna 11. september
(c) Að hryðjuverk séu raunveruleg ógn fyrir Vesturlöndin
Ég tel óþolandi að dagblöð útbreiði róg um einstaklinga sem hafa ekki verið fundnir sekir af réttbærum aðilum og geta ekki varið æru sína, og ekki síst að talað sé um meinta trú þeirra. Í siðmenntunum samfélögum teljast menn saklausir nema sekt þeirra hafi verið sönnuð fyrir dómi.
Ég leyfi mér að senda þessa áskorun einnig á póstlistann minn til þess að aðrir fái að fylgjast með samskiptum okkar.
Með kveðju,
Elías Davíðsson
27.8.2006
(4. september 2006 hafði ekkert svar borist)