Svarbréf E.D. til ríkissaksóknara 24.2.1999
Reykjavík, 24.2.99
Hr. ríkissaksóknari
Bogi Nílsson
Reykjavík
Ég þakka móttöku svarbréfs yðar frá 15. apríl 1998 við bréfi okkar fimmmenninga frá 11. mars 1998. Með þessu svarbréfi rökstyðjið þér frávísun yðar á kröfu okkar um að Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrv. utanríkisráðherra, verði lögsóttur vegna þátttöku í alþjóðlegum hryðjuverkum, stríðsglæpum og þjóðarmorði gegn almennum borgurum í Írak.
Meginröksemdir yðar fyrir frávísuninni eru þær að sú háttsemi sem kært er út af sé ekki refsiverð þar hún
a. fellur ekki undir verknaðarlýsingu nokkurs refsiákvæðis
b. sé ekki ólögmæt
c. sé ekki framin á saknæman hátt, þ.e. hvorki af ásetningi eða gáleysi þar sem við getur átt.
Þér bendið á að háttsemin sem kært er út af – löggilding viðskiptabannsins gegn Írak á Íslandi – dragi lögmæti sínu af heimild í lögum nr. 5, 27 febr. 1969 um framkvæmd fyrirmæla Sameinuðu þjóðanna…til að framfylgja ályktun Öryggisráðsins nr. 661(1990) frá 6. ágúst 1990.
Eins og yður er vafalaust kunnugt um, eru stríðsglæpir og þjóðarmorð saknæm athæfi burt séð frá því hvort ákvæði þar að lútandi sé að finna í landsrétti eða ei. Þátttaka í slíkum glæpum takmarkast ekki við beinar ofbeldisaðgerðir. Samkvæmt úrskurði Nürnberg- og Tókýodómstólanna frá 1945, er ábyrgð þeirra sem fyrirskipa öðrum að fremja slík brot jafnmikil eða meiri en þeirra sem taka beinan þátt í aflifun annarra. Óbein aðild (complicity) að slíkum glæpum var einnig talin saknæm og refsiverð. Sakborningar í þessum réttarhöldum voru ekki sakaðir um að valda dauða annarra með eigin hendi, heldur um að stjórna glæpsamlegum aðgerðum annarra með pennastriki. Þar sem alþjóðleg lögsaga gildir um slík brot, er það engin vörn fyrir þá sem taka þátt í slíkum brotum að refsiákvæði hafi skort í landsrétti eða að þeir hafi aðeins framfylgt embættisskyldu sinni. Slíkum vörnum var með ákveðnum hætti vísað frá bæði þá og eins við réttarhöld yfir öðrum stríðsglæpamönnum eftir það. Eins og yður er vafalaust kunnugt um ber öllum ríkjum að virða og framfylgja ákvæðum Nürnbergsáttmálans sem allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna áréttaði einróma.
Teljið þér hins vegar að ákvæði þjóðaréttar veita undir vissum atvikum heimild til að murka lífið úr þúsundum óbreyttra borgara, bið ég yður góðfúslega að benda mér á slíka lagaheimild. Mér er ekki kunnugt um neina.
Af svari yðar er jafnframt erfitt að draga aðra ályktun en þá, að þér teljið þátttöku íslenskra stjórnvalda í þjóðarmorði eða í öðrum alþjóðaglæpum lögmæta, svo fremur sem fyrirskipun þar að lútandi hafi komið frá Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Þessi ályktun fær byr undir báða vængi af því að þér reynið með engu móti að meta lögmæti þeirra aðgerða sem Öryggisráðið hafi fyrirskipað og leitt hafa til dauða allt að einnar milljónar óbreyttra borgara, né véfengið þér þeim ábendingum okkar um umfang dauðans sem viðskiptabannið hefur valdið.
Ég á satt að segja erfitt með að trúa því að svar yðar sé sett fram af bestu vitund, þegar haft er í huga að í bréfi yðar er ekki vikið með neinu orði að kjarna málsins, þ.e. að lögmæti eða saknæmi þeirra aðgerða sem hafa leitt til dauða einnar milljónar manns.
Ég tel mig, fyrir hönd margra annarra sem hafa krafist lögsóknar á hendur Jóni Baldvin Hannibalssyni, eiga rétt að þér eyðið þeim vafa um afstöðu yðar sem vaknar við lestur svars yðar og minnst er hér að ofan. Ég spyr því hvort þér teljið þátttöku íslenskra stjórnvalda í þjóðarmorði eða í öðrum alþjóðaglæpum (ef til vill í búningi fegrandi orðalags) lögmæta, svo fremur sem fyrirskipun þar að lútandi hafi komið frá Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.
Í von um skjótt svar af yðar hálfu.
Virðingarfyllst,
Elías Davíðsson
Samrit:
Arnþór Helgason
Ástþór Magnússon
Margrét Guðmundsdóttir
Sigurður A. Magnússon
Sveinn Rúnar Hauksson
Sigrún Gunnlaugsdóttir
Stefán Þorgrímsson
Steingrímur J. Sigfússon
Ögmundur Jónasson