Svarbréf frá ríkissaksóknara v.ákæru 183 Íslendinga
Svarbréf frá ríkissaksóknara
Við bréfi fimmmenninga í nafni 183 Íslendinga, dags. 11. mars 1998
Ríkissaksóknari
Reykjavík, 15. apríl 1998
BN/aeg M. 122/98
Með bréfi til ríkissaksóknara, dags. 11. mars 1998, sem undirritað er af Arnþóri Helgasyni, Sigurði A. Magnússyni, Elíasi Davíðssyni, Sveini Rúnari Haukssyni og Sigrúnu Gunnlaugsdóttur fyrir hönd 183 einstaklinga er þess krafist að Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra,"verði lögsóttur vegna þátttöku í alþjóðlegum hryðjuverkum, stríðsglæpum og þjóðarmorði gegn almennum borgurum í Írak." Nánar er sakarefninu lýst svo í bréfinu að þann 28. apríl 1992 hafi Jón Baldvin Hannibalsson undirritað auglýsingu nr. 160, 1992 um ráðstafanir til að framfylgja ályktun Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 661(1990) vegna innrásar Íraka í Kúvæt, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda, og með því stutt í verki aðgerðir sem hafa þegar leitt til dauða a.m.k. 600.000 barna í Írak og til alvarlegs heilsumissis enn fleiri barna.
Í áður tilvitnuðu bréfi er talið að Jón Baldvin Hannibalsson hafi gerst sekur um þátttöku í alþjóðaglæpum gegn almennum borgurum í Írak með því að hafa sem utanríkisráðherra Íslands undirritað auglýsingu nr. 160, 28. apríl 1992 um ráðstafanir til að framfylgja ályktun Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 661(1990) vegna innrásar Íraka í Kúvæt og beri því að hefja opinbera rannsókn á þeirri háttsemi.
Lögreglurannsókn skal hefja út af vitneskju eða grun um að refsivert brot hafi verið framið hvort sem kæra hefur borist eða ekki og skal markmið rannsóknarinnar vera að afla allra nauðsynlegra gagna til þess að ákæranda sé fært að ákveða að henni lokinni hvort sækja skuli mann til sakar, sbr. 2. mgr. 66. gr. og 67 gr., sbr. einnig 112. gr. laga nr. 19, 1991 um meðferð opinberra mála. Hins vegar ber að vísa kæru um brot þegar frá ef ekki þykja efni til að byrja rannsókn út af henni, sbr. 1. mgr. 76.gr. laga um meðferð opinberra mala, t.d. vegna þess að einsýnt þykir að háttsemi sem kært er út af sé ekki refsiverð þar eð hún fellur ekki undir verknaðarlýsingu nokkurs refsiákvæðis, hún sé ekki ólögmæt eða hún ekki framin á saknæman hátt, þ.e. hvorki af ásetningi eða gáleysi þar sem við getur átt.
Umrædd auglýsing er gefin út samkvæmt heimild í lögum nr. 5, 27. febrúar 1969, um framkvæmd fyrirmæla Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, sbr. einkum 1. og 3. gr., til að framfylgja ályktun Öryggisráðsins nr. 661(1990) frá 6. ágúst 1990, eins og áður segir. Auglýsingin, og þar með umrædd athöfn utanríkisráðherra, er þannig byggð á skýrri lagaheimild og tengist með ótvíræðum hætti aðild Íslands að sáttmála hinna Sameinuðu þjóðanna sem Ísland gekk að hinn 19. nóvember 1946 samkvæmt heimild í ályktun Alþingis hinn 25. júlí 1946.
Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið getur umrædd athöfn utanríkisráðherra Íslands ekki hafa verið ólögmæt í skilningi íslenskra refsilaga og ber þegar af þeirri ástæðu að vísa kröfunni um opinbera rannsókn á henni.
Þetta tilkynnist yður hér með.
XXX (ólæsileg undirskrift)