Í tilefni af skrifum Jóhannesar Nordal um aukinn áliðnað
Í skjóli pukurs: Í tilefni af skrifum Jóhannesar Nordal um aukinn áliðnað
Elías Davíðsson, Dagblaðið Tíminn, 6. september 1980 |
Reynsla
Á undanförnum árum hefur mikið verið rætt og ritað um orkusölu til álversins í Straumsvík. Ýmsar samanburðartölur hafa verið birtar, tölur um virkjunarkostnað, tölur um raforkuverð í öðrum löndum og fleira. Ljóst er samningarnir, sem gerðir voru árið 1966 við ALUSUISSE eru umdeildir mjög.
Árið 1973 átti Magnús Kjartansson, þáverandi iðnaðarráðherra, viðræður við forráðamenn ALUISUISSE í Zürich, þar sem m.a. var rætt um möguleika á endurskoðun samninga um raforkuverðið. Viðræðurnar báru engan sýnilegan árangur. Málið var tekið upp að nýju af næsta iðnaðarráðherra, Gunnari Thoroddsen, haustið 1974 og var svonefndri Viðræðunefnd um orkufrekan iðnað falið að vinna að framgangi málsins. Viðræðunefndina skipuðu Jóhannes Nordal, seðlabankastjóri og stjórnarformaður Landsvirkjunar, sem var formaður nefndarinnar, Ingi R. Helgason, Ingólfur Jónsson, Ragnar Ólafsson, Sigþór Jóhannesson og Steingrímur Hermannsson. Nefndinni tilk aðstoðar voru Garðar Ingvarsson, hagfræðingur í Seðlabankanum og Hjörtur Torfason, hrl., sem þá var jafnframt lögfræðingur annars erlends fyrirtækis á Íslandi.
Endurskoðaðir samningar íslenska ríkisins við ALUISSE voru lagðir fyrir Alþingi í formi frumvarps til laga, og voru samþykktir árið 1975 að loknum allmiklum deilum.
Í greinargerð með frumvarpinu segir m.a.:
Fengist hefur fram veruleg hækkun orkuverðs sem kemur til framkvæmda stig af stigi á næstu þremur árum. Jafnframt hefur tekist að semja um tengingu hins hækkaða orkuverðs við breytingar á álverði, þannig að tryggt er, að orkuverð hækki eftir tilteknum reglum í samræmi við álverðshækkanir, ekki háð afkomu ISALs á sama hátt og skattar hljóta að verða".
Meðfylgjandi tafla sýnir þróun raforkuverðs til ÍSALs í samanburði við þróun heildsöluverðs Landsvirkjunar til almennings rafveitna á árunum 1970-1979. Eins og sést á töflunni var verð til almenningsveitna tæplega 2,6 sinnum hærra en til ÍSALs árið 1970, en árið 1979 var það tæplega 3,1 sinnum hærra. Nógu lágt var þó orkuverð til ÍSALs í fyrstu. Markmið áðurnefnds frumvarps, a.m.k. hvað varðar leiðréttindu raforkuverðs í þágu Íslendinga hefur bersýnilega ekki náðst.
Raforkuverð til almenningsrafveitna og til ÍSAL 1970-1979
Verðið er umreiknað yfir í bandarísk cent/KWst og notað vegið meðaltal fyrir hvert ár |
|||
Heildsöluverð til almennings-veitna (A) |
Verð til ÍSAL (B) |
Hlutfa)ll (A) : (B |
|
1970 | 0,77 | 0,30 | 2,6 |
1971 | 1,00 | 0,30 | 3,3 |
1972 | 1,00 | 0,31 | 3,2 |
1973 | 1,17 | 0,30 | 3,9 |
1974 | 1,54 | 0,31 | 5,0 |
1975 | 1,47 | 0,38 | 4,7 |
1976 | 1,35 | 0,38 | 4,7 |
1977 | 1,60 | 0,43 | 3,7 |
1978 | 1,48 | 0,51 | 2,9 |
1979 | 1,77 | 0,58 | 3,1 |
Það er ekki ástæðulaust að birta þennan samanburð hér og nú. Sami embættis- og stjórnmálamannahópur, sem stóð á sínum tíma að samningum við ALUSUISSE um byggingu álvers í Straumsvík og vann að endurskoðun samninganna við ALUSUISSE árið 1975, rekur nú að nýju áróður fyrir erlendri stóriðju og um ágæti ÍSALs. Til marks um það skal bent á skipuleg skrif þar að lútandi á síðum Morgunblaðsins og víðar. Einn þeirra embættismanna sem hvað mest hefur komið við sögu þessa máls, er Jóhannes Nordal. Jóhannes er seðlabankastjóri, stjórnarformaður Landsvirkjunar og gegnir auk þess mikilvægum trúnaðarstörfum fyrir Alþjóðabankann og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn á Íslandi. Hvað eftir annað t.d. í Fjármálatíðindum, málgagni Seðlabankans, hefur hann lagt til að áliðnaður verði aukinn um helming hérlendis.
Spurningar
Það er margt að athuga við hugmyndir og tillögur seðlabankastjórans, einkum með tilliti til þróunar áliðnaðar í heiminum og með hliðsjón af hinni nyju alþjóðlegu efnahagsskipan, sem unnið er að. Slík greining verður þó að bíða betri tíma. Hins vegar vakna spurningar af öðrum toga, í tilefni af áróðursherferð seðlabankastjóra og annarra:
1. Er aðilum, sem stóðu ekki betur að samningum við ALUSUISSE en raun ber vitni, treystandi til að mæla með frekari samningum við ALUSUISSE eða önnur fjölþjóðafyrirtæki varðandi stóriðjurekstur hérlendis ?
2. Hvernig stendur á því að seðlabankastjórinn mælir með uppbyggingu áliðnaðar í eigu Íslendinga, þegar ársreikningar ÍSALs sýna ár eftir ár lélega rekstrarafkomu ? Eða eru tölur ÍSALs aðeins sjónhverfingar snjallra bókhaldara ? Ef sú er raunin, væri fróðlegt að vita hvers vegna Seðlabankinn, sem hefur með höndum lögbundið eftirlit með gjaldeyrismálum og útbýr skýrslur um greiðslujöfnuð landsins, hafi látið það viðgangast að ÍSAL gefi upp ótrúverðugar tölur um rekstur sinn ?
3. Hvers vegna hefur seðlabankastjórinn sem hefur mikil völd, talsverða þekkingu og góða starfsaðstöðu, ekki barist fyrir því, að ÍSAL greiði hér samsvarandi hluta af veltu sinni til raforkusalans og álfyrirtæki gera erlendis? Arðbær álfyrirtæki um allan heim greiða um og yfir 15% af veltu sinni fyrir raforku en dótturfyrirtæki ALUSUISSE í Straumsvík er aðeins látið greiða 7% af veltu sinni fyrir raforku. Væri ekki æskilegra að seðlabankastjórinn sýndi landsmönnum fyrst hæfileika sína í samningum við erlend auðfélög, með því að láta ALUSUISSE greiða samsvarandi orkuverð og hliðstæð álver í öðrum löndum gera, áður en hann beitir sér fyrir auknum áliðnaði hér á landi ?
4. Sem liður í að byggja upp jákvætt almenningsálit", verður haldin hér dagana 14.-15. september n.k. ráðstefna á vegum norrænna álfrirtækja á borð við Norsk-Hydro og ALUSUISSE. Ekki er gert ráð fyrir umræðum á ráðstefnunni. Ástæða er til að ætla, að seðlabankastjóri hafi þegar hafið óformlegar áþreifingar við einhverja þeirra erlendu aðila sem hingað koma, svo og við erlendar fjármálastofnanir í sambandi við hugmyndir um aukinn áliðnað. Í framhaldi af þessu er rétt að spyrja, við hvaða erlenda aðila seðlabankastjórinn hafi þegar rætt um þessi mál; út á hvað gengu þessi samskipti og í umboði hvers tekur seðlabankastjórinn þátt í slíkum hápólítiskum áþreifingum"?
Ályktanir
Þótt rétt sé að beina ofangreindum spurningum til seðlabankastjóra, er það reynsla undirritað – og vafalaust margra annarra – að embættismenn, sem telja sig hafa erlendar valdamiðstöðvar eða erlend ríki að bakhjarli, gera sjaldan grein fyrir embættisstörfum sínum, þótt þau skipi sköpum fyrir samfélagið. Í krafti valds og aðstöðu telja þessir menn sig hafna yfir hvers kyns umræðu, rökræðu og þjónustusemi við almenning. Þeir svara ekki formlegum erindum venjulegra borgara, frekar en þeim sýnist eða svara þeim seint og síðar meir, með ódulbúnum hroka. Almennum borgurum meina þeir ennfremur aðgang að frumheimildum í viðkomandi málaflokkum, til þess að koma í veg fyrir að fólk geti myndað sér sjálfstæða, og e.t.v. aðra skoðun í málinu.
Undirritaður hefur þó nokkra reynslu af viðureign við þessa íslensku kommissara, embættismenn sem myndu sóma sér vel í skrifræði austantjaldsríkja. Til áréttingar skal geta þess, að þessir menn eru þjónar almennings, sem þiggja laun sín af hinu opinbera.
Barátta Íslendinga fyrir varðveislu og eflingu efnahagslegs og stjórnmálalegs sjálfstæðis er órjúfanlega tengd viðleitni ungra og framsækinna manna til að auka lýðræði í landinu og brjóta niður úrelt embættismannakerfi. Erindrekar erlendra hagsmunaaafla hér geta aðeins komið sínu fram í skjóli pukurs. Lokamarkmið þeirra virðast ekki þola lýðræðislega málsmeðferð. Þetta sýnir á hve veikum siðferðislegum grunni slík markmið eru reist.
Athugasemd: Þessi grein átti að birtast í Morgunblaðinu, enda skrifuð í tilefni greina Jóhannesar Nordal og viðtala við hann í því blaði. Hún fékkst þó ekki birt þar vegna þess að undirritaður hefur verið úrskurðaður í birtingarbann hjá Morgunblaðinu [sem er enn við lýði árið 2000 ! – siðbúin athugasemd].
Color