Tjáningarfrelsi og einkaeign á landrými
Mega menn tala saman á almannafæri ?
Eru gangar verslunarmiðstöðva "almannafæri"?
Miðvikudaginn 4. nóvember 1998 fórum Stefán Þorgrímsson og undirritaður til að afhenda vegfarendum í Kringlunni dreifibréf með upplýsingum um aðild íslenskra stjórnvalda að refsiverðri hátterni gegn almenningi í Írak. Að afhenda manni blað jafnast við það að tala við mann, nema hvað það er minni truflun að afhenda manni blað en að stöðva mann og ræða við hann.
Við komum okkur fyrir fáein skref frá innganginum á jarðhæð Kringlunnar og afhentum þeim sem fram gengu dreifiritið. Sumir tóku við bréfinu og aðrir gengu bara sína leið. Einstaka fólk taldi málið athyglisvert og ræddi við okkur. Stuttu síðar birtust öryggisverðir Kringlunnar sem sögðu okkur að við mættum ekki afhenda fólki dreifirit í leyfisleysi og báðum okkur að fara úr verslunarmiðstöðinni. Við töldum hafa þann grundvallarrétt að mega tala við fólk hvar sem okkur sýndist eða afhenda fólki lestrarefni. Við værum hvorki að trufla einn eða neinn né að selja vöru eða þjónustu. Við gættum þess vandlega að standa afsíðis og trufla engan, hvorki með tali eða með öðrum hætti. Starfsmenn Kringlunnar hótuðu samt að færa okkur með valdi en við vöruðum þá við því. Þeir sögðust þá kalla á lögregluna sem þeir og gerðu. Lögreglumaður kom eftir nokkra stund og bað okkur kurteislega, án þess þo að hafa annað tilefni en ósk öryggisvarða Kringlunnar, að yfirgefa staðinn ella verða handteknir. Eini rökstuðningur hans var sá að þetta væri "einkarými" þar sem við ættum að hlýða vilja húsbænda. Við töldum okkur hafa rétt til að njóta tjáningarfrelsis þar sem almenningur á greiða og frjálsa leið og að við hvorki trufluðum starfsemi verslana eða kaupenda með einum eða öðrum hætti né stæðum í viðskiptum. Þessar röksemdir dugðu ekki og lögregluþjónninn, sem bersýnilega taldi sér dómbæran til að vega og meta lagaleg álítamál, skipaði okkur að fara með sér á lögreglustöð. Þetta gerðum við fúslega og báðum jafnframt við skýrslutöku að framferði okkar verði kært, fyrst það hafi verið talið ólöglegt.
Eftir skýrslutöku var okkur sleppt og málið var síðar látið niður falla með bréfi sem við fengum frá lögreglunni. Í raun hafði lögreglan brotið á rétti okkar – og þar af leiðandi á tjáningarfrelsi almennra borgara – með því að handtaka okkur án nokkurs sýnilegs tilefnis. Lögreglan lék hér hlutverk dómara með því að ákvarða á staðnum að einkaréttur Kringlunnar stæði ofar tjáningarfrelsi okkar. Hefðu eigendur Kringlunnar talið að framferði okkar bryti gegn hagsmunum þeirra, hefði þeim verið í lófa lagt að stefna okkur fyrir rétti en ekki síga lögregluna á okkur.
Við vildum að dómstóll skæri úr hvort borgarar hefðu rétt til að afhenda hverjum öðrum skriflegt efni á almannafæri, hver svo sem ætti viðkomandi landrými. Ef eignahald á landrými er nægileg forsenda til að svipta fólki grundvallarmannréttindum, m.a. til tjáningarfrelsis, getur aukin einkavæðing opinberra svæða leitt til þess að tjáningarfrelsið verði í raun afnumið. Þetta á ekki síst á Íslandi, þar sem almennir borgarar eyða æ meiri tíma innan veggja verslunarmiðstöðva vegna veðurs. Réttindi til frjálsrar tjáningar eru ekki skraut heldur er það skylda ríkisins að tryggja að borgarar geti notið þessar réttar með skilvirkum hætti. Þar sem hefur gerst í Kringlunni er vísir að því sem gæti hent, ef borgarar gæta þess ekki að verja áunnin réttindi til að tjá sig með frjálsum hætti við breyttar þjóðfélagsaðstæður. Vert er að hafa í huga að frelsi til tjáningar er ekki ótakmarkað. Aðrir hagsmunir leika einnig hlutverki. Það er hins vegar langsótt að yfirfæra einkarétt manna, t.d. rétt manna að vísa óboðnum gestum frá heimilum sínum, yfir á staði sem hafa tekið við hlutverki göngugatna, s.s. gangar í verslunarmiðstöðvum, og þar sem menn þarfnast ekki sérstaks leyfis til að fara inn og geta jafnvel eytt heilum dögum þar á vappi. Ef það er ekki ólöglegt að ónáða fólk á heimilum þess með því að hringja á bjölluna og bjóða því varning til sölu, er erfitt að sjá hvers vegna er mönnum bannað að afhenda samborgurum sínum blað í göngum eða á bílastæðum verslunarmiðstöðva.
Þeir sem hafa áhuga að kynna sér nánar málið, geta lesið bréfaskriftir milli undirritaðs og embættis Lögreglustjóra á þessari vefsíðu.