Tjáningarfrelsi í íslenskum lögum
Tjáningarfrelsi í íslenskum lögum
72. grein Stjórnarskrár:
"Hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar á prenti; þó verður hann að ábyrgjast þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar tálmanir fyrir prentfrelsi má aldrei í lög leiða."
Þetta stjórnarskrárákvæði nær ekki til ritskoðunar og annarra tálmanna fyrir prentfrelsi sem einstaklingar og félög geta sett, t.d. í krafti fjármálastyrks og aðstöðu. Þar sem almennir fjölmiðlar eru að mestu leyti í einkaeigu, njóta borgarar landsins í raun ekki tjáningarfrelsi nema fræðilega. Þeir eru ekki "frjálsir" til að ávarpa samborgara sína, heldur eru háðir leyfi fjársterkra aðila í hvert sinn. Ritstjórar einkafjölmiðla, t.d. Morgunblaðið, DV og Dagur-Tíminn, úthluta í raun borgurum landsins að eigin geðþótta skammt af "tjáningarrétti" í hvert sinn sem þeir birta aðsenda grein. Þess ber að geta að þeir hafa fullan rétt til þess, samkvæmt gildandi lögum.Hins vegar geta einstaklingar "keypt" rými í fjölmiðlum til að ávarpa samborgara sína. Slíkt er þó ekki á færi venjulegs launafólks. Væru einstaklingar skyldaðir til að greiða fyrir það eitt að taka þátt í almennri þjóðfélagsumræðu, myndu aðeins þeir sem sjá sér fjárhagslegan hag í þátttökunni gera það, einkum fyrirtæki.
Þrátt fyrir ofangreint ákvæði Stjórnarskrárinnar hefur Alþingi sett lög sem takmarka tjáningarfrelsi hvað varðar útbreiðslu kláms, grófra ofbeldismynda, kynþáttaáróðurs og óréttmætra auglýsinga, svo eitthvað sé nefnt. Slíkar takmarkanir eru í samræmi við Mannréttindasáttmála Evrópu. Hins vegar hafa stjórnvöld neitað að setja bann við stríðsáróðri (20. gr. í alþjóðasáttmála um stjórnmálaleg og borgaraleg réttindi) á þeim forsendum að slíkt myndi brjóta í bága við Stjórnarskrána !
Tjáningarfrelsi er einnig réttur manna til að halda útifundi, láta samborgara sína fá upplýsingar á almannafæri, ofl. í þeim dúr. Þessar aðferðir eru oft síðustu friðsamleg úrræði févana einstaklinga til að láta í ljós skoðun sína á athafnir og stefnu stjórnvalda. Vegna veðráttu á Íslandi tíðkast það ekki – eins og víða erlendis – að menn dreifi upplýsingum á götum úti. Auk þess hefur bílanotkun á Íslandi dregið verulega úr vægi götunnar sem vettvangur almennings. Verslunarmiðstöðvar eru ef til vill eini raunverulegi "vettvangur" almennings, þ.e. þar sem fjöldi manns kemur saman. Þar sem verslunarmiðstöðvar eru í einkaeigu, virðast forráðamenn slíkra stöðva telja að þeir geti heft að eigin geðþótta tjáningarfrelsi borgara á yfirráðasvæði sínu. Tilraunir einkaaðila til að hefta tjáningarfrelsi borgara á almannafæri (t.d. á almennum göngum verslunarmiðstöðva) hafa ekki lagalega stoð en enginn dómsúrskurður liggur um réttindi manna til tjáningarfrelsis t.d. í skólum , vinnustöðum, verslunarmiðstöðum, umferðarmiðstöðvum, ofl.