Tíu staðreyndir um refsiaðgerðirnar, saknæmi og þögn
Tíu staðreyndir um refsiaðgerðirnar, saknæmi og þögn
Elías Davíðsson / Febr. 1999
1. Viðskiptabannið gegn Írak: Villandi nafngift
Viðskiptabannið gegn Írak er villandi nafngift sem hylur inntak aðgerðanna. Réttara væri að kalla þessar aðgerðir Refsiaðgerðir gegn írösku þjóðinni, enda er þeim beint gegn öllum 22 milljónum íbúa Íraks, án tillits til aldurs, kyns og þjóðfélagsstöðu.
2. Er viðskiptabannið saknæmt ?
Samkvæmt íslenskum lögum er það saknæmt að valda dauða annarra. Viðskiptabannið hefur valdið dauða 750.000 íraskra barna. Þar af leiðandi eru þeir sem beita þessu vopni (viðskiptabanni) sekir um manndráp eða morð.
3. Er viðskiptabann mannúðlegra en loftárásir ?
Þegar viðskiptabanni er beitt gegn þjóð sem er háð innflutningi á nauðsynjavörum, geta afleiðingarnar orðið mannskæðari en hernaðaraðgerðir. Í hvorugu tilfelli er heimilt að ráðast að óbreyttum borgurum. Fleiri óbreyttir borgarar hafa látið lífið í Írak af völdum viðskiptabannsins en í kjarnorkuárásum á Hiroshima og Nagasaky. Viðskiptabann getur því orðið að tortímingarvopni, ekki síst en kjarnorkusprengjur.
4. Var ekki viðskiptabannið gegn Suður-Afríku réttmætt ?
Viðskiptabannið gegn Suður-Afríku var sett á, að beiðni Afríska þjóðarráðsins (ANC), en ekki að frumkvæði utanaðkomandi ríkja. Samtökin ANC nutu stuðnings þorra íbúa Suður-Afríku. Viðskiptabannið var því stuðningur heimsbyggðarinnar við sjálfsákvörðunarrétt suðurafrísku þjóðarinnar og því réttmæt aðgerð. Viðskiptabannið gegn Kúbu, Libýu, Serbíu og Írak var sett á án samráðs við viðkomandi þjóðir heldur gegn vilja þeirra. Atlaga af þessu tagi gegn heilum þjóðum er tilræði við sjálfsákvörðunarrétt þessara þjóða og því brot á 1. grein (2. mgr.) í sáttmála Sameinuðu þjóðanna.
5. Er ekki Saddam Hussein ábyrgur fyrir dauða 750.000 íraskra barna ?
Það er ef til vill unnt að saka Saddam Hussein fyrir að verja ekki sem skyldi íbúa landsins fyrir árásum annarra (viðskiptabannið og loftárásir). Meginábyrgð á dauða þessara barna bera hins vegar þeir sem framfylgja viðskiptabanninu, ekki sá sem veitir börnunum ekki næga vörn gegn utanaðkomandi árásum.
6. Er athæfið framið að ásettu ráði ?
Það hefur lengi orðið ljóst að viðskiptabannið veldur dauða 150-200 barna á degi hverjum. Samt hefur því verið viðhaldið í meir en 8 ár. Athæfið er hvorki framið í hita bardaganna né í sjálfsvörn. Það er ekki framið af slysni eða gáleysi heldur með fullri vitund um afleiðingarnar.
Af þessum sökum er ekki unnt að taka til greina mótbárur aðstandenda viðskiptabannsins að þeir hafa ekki í hyggju að valda dauða. Dauðavopninu – hér viðskiptabannið – er beitt af ásettu ráði með fullri vitund um banvænar afleiðingar af beitingu þess.
7. Hver er lagaleg skilgreining hins saknæma athæfis ?
Þar sem þessar aðgerðir eru alþjóðlegar, falla þær undir ákvæðum þjóðaréttar. Samkvæmt ákvæðum Genfarsáttmálanna frá 12. ágúst 1949, mun viðskiptabannið flokkast til stríðsglæpa. Að áliti sérfróðra manna í þjóðarétti, telst það einnig þjóðarmorð.
Það er lagaleg skylda allra aðildarríkja þessara samninga að draga fyrir dómstóla hvern þann sem tekur þátt í slíkum glæpum gegn mannkyninu, án tillits til þjóðernis eða stöðu. Hér á Íslandi hafa tveir einstaklingar gerst sekir um slíka háttsemi: Jón Baldvin Hannibalsson og Halldór Ásgrímsson.
8. Er Lýðveldið Ísland aðili að þessum glæp gegn mannkyninu ?
Með undirritun Auglýsingar um bann á öllum viðskiptum Íslendinga við Írak, sem birtist í Lögbirtingarblaðinu og í Stjórnartíðindum, hefur Jón Baldvin Hannibalsson, þáverandi utanríkisráðherra, löggilt þátttöku Íslands í viðskiptabanninu og gerst þannig meðþátttakandi í stríðsglæpum og þjóðarmorði gegn almenningi í Írak. Sama gildir um Halldór Ásgrímsson, sem viðhélt með ásettu ráði þátttöku Íslands í þessu saknæma athæfi, þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar um saknæmt eðli þess. Auk þessarar refsiábyrgðar ber ríkissjóður, ásamt ríkissjóðum annarra ríkja, ábyrgð á tjóni sem þátttaka Íslands í viðskiptabanninu kann að hafa valdið íbúum í Írak.
9. Er það saknæmt að styðja viðskiptabannið í orði eða á prenti ?
Samkvæmt íslenskum lögum er það saknæmt að hvetja til saknæmra verka eða styðja ásetning annarra til framningar slíkra verka. Langflestir alþingismenn sem styðja viðskiptabannið hafa því þagað kyrfilega yfir afstöðu sinni til stefnu yfirvalda í þessu máli.
Athygli vekur að meðal stjórnarliða hafa aðeins einn ráðherra og einn þingmaður stutt viðskiptabannið opinberlega. Forsætisráðherra, Davíð Oddsson, hefur neitað að lýsa afstöðu sinni í þessu máli. Í hvert skipti sem málið hefur verið til umræðu á Alþingi, hvarf hann af þingi. Þingmenn Framsóknarflokksins hafa veigrað sér að styðja á baki flokksformanns síns, þótt 200 Íslendingar hafi opinberlega sakað hinn síðarnefnda um saknæmt athæfi í þessu máli. Þeir einnig hafa þagað þunnu hljóði og þegja enn.
10. Hvernig ber að túlka þögn alþingismanna og ráðherra í þessu máli ?
Með embættisverkum sínum hafa utanríkisráðherrar löggilt þátttöku Íslands að viðskiptabanninu. Þar með ber ríkisstjórn Íslands, fyrir hönd íslensku þjóðarinnar, samábyrgð á afleiðingum þessa verks gagnvart alþjóð og gagnvart fórnarlömbunum. Alþingismenn sem gera engar athugasemdir við stjórnarstefnu í einstökum málum styðja í reynd viðkomandi stefnu og bera að sjálfsögðu siðferðilega ábyrgð á henni.
Alþingismenn geta ekki haldið því fram að þeir hafa ekki vitað um afleiðingar viðskiptabannsins né að þeim sé ekki kunnugt um alvarlegar ásakanir margra landsmanna á hendur ráðherra um þátttöku í alþjóðaglæpum. Allir þingmenn hafa fengið margvísleg tækifæri til að kynnast þessu máli, bæði með bréfum og áskorunum frá almennum borgurum, í fréttum sem birtust í íslenskum og erlendum fjölmiðlum, með greinargerð sem lögð var á Alþingi, o.fl.
Með þögn sinni hafa stjórnarliðar og samráðherrar Halldórs Ásgrímsssonar veitt honum brautargengi til að viðhalda þátttöku Íslands í saknæmu athæfi, nánar tiltekið í stríðsglæpum og þjóðarmorði. Þögn þeirra má því túlka sem samþykki við stefnu sem felur í sér þátttöku í stríðsglæpum og þjóðarmorði.