Tvískinnungur um viðskiptabönn (grein)
Tvískinnungur um viðskiptabönn
Árni Páll Árnason í Morgunblaðinu 29. janúar 1999 |
Hér er ein af bestu vörnum fyrir viðskiptabanninu gegn almenningi í Írak sem birtist í íslensku blaði. Höfundur er lögfræðingur.
Elías Davíðsson
STEINGRÍMUR J. Sigfússon alþingismaður svaraði grein minni til varnar viðskiptabönnum hér í blaðinu þann 20. þ.m. Í greininni staðfestir hann tvennt: Hann er ekki siðferðilega andvígur viðskiptabönnum sem slíkum og hann viðurkennir skyldu Íslands sem aðildarríkis Sameinuðu þjóðanna til að framfylgja ákvörðunum öryggisráðs SÞ.
Fyrst um skyldur okkar gagnvart Sameinuðu þjóðunum. Þrátt fyrir að Steingrímur viðurkenni skyldur okkar til að framfylgja viðskiptabönnum, bendir hann á að Ísland þurfi að fullgilda slíkar ákvarðanir með einum eða öðrum hætti, t.d. með reglugerð af hendi utanríkisráðherra, og virðist gefa í skyn að við getum sem best látið slíkt undir höfuð leggjast. Þetta er ekki mikilfengleg skýringartilraun og hefur verið notuð um aldir, þegar ríki hafa kosið að virða samninga einungis að því marki að hentar þeirra hagsmunum og nota hnefaréttinn í staðinn. Sameinuðu þjóðirnar voru stofnaðar til að binda enda á það öngþveiti og óöryggi sem ríkt hafði í alþjóðamálum vegna þessa og grunnmarkmið þeirra var að binda þjóðir heims saman í eitt öryggiskerfi, þar sem allir ættu sömu réttindi og skyldur. Þetta öryggiskerfi er svo að sjálfsögðu gallað, en það verður ekki betra með því að menn þykist leysa málin með því að virða það að vettugi.
Steingrímur gerir greinarmun á "góðum" viðskiptabönnum, s.s. eins og viðskiptabanninu á Suður-Afríku á sínum tíma og "slæmum" viðskiptabönnum, eins og yfirstandandi viðskiptabanni á Írak. Að hans áliti felst greinarmunurinn helst í því að viðskiptabannið í Írak bitnar á saklausu fólki, konum og börnum, sem líða næringarskort, en viðskiptabannið á Suður-Afríku hafi ekki bitnað á almenningi, enda hafi Suður-Afríka verið ríkt land, auk þess sem hinn undirokaði meirihluti í landinu hafi óskað eftir viðskiptabanninu.
Steingrímur vill einnig setja skorður við viðskiptabönnum til að tryggja að þau bitni ekki á saklausum almenningi og valdi ekki hungursneyð. Steingrími yfirsést hins vegar algerlega sú staðreynd að ástæða vannæringar og barnadauða í Írak er ekki viðskiptabann Sameinuðu þjóðanna, heldur viðurstyggilegt stjórnarfar í landinu. Íraksstjórn hefur frá upphafi viðskiptabannsins verið heimilt að afla sér tekna til að kaupa mat og lyf, en hún kaus fremur að svelta sitt fólk, allt fram til þess að stofnanir Sameinuðu þjóðanna náðu að þvinga hana til samstarfs árið 1996. Þá ber fulltrúum alþjóðastofnana saman um að Íraksstjórn hafi beitt ýmsum ráðum til að torvelda dreifingu matvæla og hjálpargagna, beinlínis í því skyni að skapa eymd og hungur meðal sinna eigin borgara. Vitað er að írösk stjórnvöld hafa látið undir höfuð leggjast að kaupa ungbarnamjólk og önnur hjálpargögn fyrir börn, þrátt fyrir að heimild hafi verið fyrir hendi. Þrátt fyrir allt þetta hefur stofnunum Sameinuðu þjóðanna tekist að stöðva vannæringu og tryggja almenningi helstu lyf og lækningatæki. Viðskiptabann á Írak er ekki markmið hins alþjóðlega samfélags og vestræn ríki hafa veitt gífurlegt fé í mannúðaraðstoð í Írak, fyrir utan það fé sem Írakar afla nú loks sjálfir til sinna þarfa með sölu á olíu.
Af hálfu Sameinuðu þjóðanna er fjöldi manns við störf til að reyna að tryggja íröskum almenningi heilnæmt vatn, hreinsibúnað og vatnsveitur; námsgögn; jarðyrkutæki, áburð og fræ; raforku og endurbætur á olíuöflunarkerfinu, þrátt fyrir að þeirra eigin stjórnvöld geri það sem hægt er til að spilla fyrir. Oft tekur mánuði að fá hjálpargögn afhent, vegna hindrana stjórnvalda, sem oftar en ekki hafa miðað að því að sitja á birgðunum nógu lengi til að valda umtalsverðum skaða. Til að fullkomna myndina eru vestrænir fréttamenn svo kallaðir til valinna staða og þeim sýnd hræðilega útleikin fórnarlömb íraskra stjórnvalda með þeim orðum að hörmungarnar séu afleiðingar viðskiptabannsins og mannvonsku stjórnvalda vestrænna ríkja. Það er einfaldlega ósatt. Greinarmunur Steingríms á góðum og slæmum viðskiptabönnum og tillögur hans um að settar verði hömlur við beitingu viðskiptabanna hrekja hann hins vegar enn frekar út í röklegar ógöngur.
Harðstjórar hafa yfirleitt alla þræði þjóðfélagsins í hendi sér og það er þeim í lófa lagið að láta viðskiptabannið bitna hart á almenningi, en halda verndarhendi yfir sjálfum sér og sínum klíkubræðrum. Á að mati þingmannsins alltaf að hætta viðskiptabönnum þegar harðstjórar uppgötva þá auðveldu leið að láta sína eigin borgara líða og deyja fyrir framan myndavélarnar? Á að verðlauna siðleysið með þeim hætti? Á þá Slóbódan Mílósevíc að hætta þeirri heimskulegu iðju að ráðast gegn þjóðernisminnihlutum, vítt og breitt á Balkanskaga, og snúa sér þess í stað að því að láta sína eigin borgara svelta? Mun Steingrímur þá hlaupa til og krefjast afnáms viðskiptabanns á Júgóslavíu? Eins og ég sagði í fyrri grein minni tel ég viðskiptabönn gallað úrræði, en það er engu að síður annað tveggja úrræða sem fyrir hendi eru. Hitt úrræðið er valdbeiting. Öll viljum við á einhvern hátt reyna að halda aftur af harðstjórum í illvirkjum þeirra. Til þess verður að beita tiltækum ráðum, en jafnframt forðast að valda saklausu fólki þjáningum. Í því samhengi er fráleitt að afbaka staðreyndir málsins, gera Sameinuðu þjóðirnar að skúrki og úthrópa íslensk stjórnvöld sem barnamorðingja. Málflutningur íslenskra stjórnvalda innan alþjóðastofnana á að miða að því að viðskiptabanninu verði aflétt svo fljótt sem auðið er, en að þess verði jafnframt gætt að íröskum almenningi og nágrannaríkjum stafi ekki hætta af ofbeldi íraskra stjórnvalda í kjölfarið. Afnám viðskiptabannsins má ekki verða til þess að verðlauna ofbeldismenn, sem hafa fórnað lífi ótaldra þúsunda saklausra borgara til þess eins að þurfa ekki að standa við gerða samninga um afvopnun.