Um hryðjuverk múslíma og hræsni íslenskra blaðamanna
Um hryðjuverk múslíma og hræsni íslenskra blaðamanna
Elías Davíðsson / 19. nóvember 1997
Þessum línum er ekki beint til þeirra fáu blaðamanna sem fordæma hryðjuverk undir öllum kringumstæðum. Þeim er beint til þorra íslenskra blaðamanna sem gera það ekki.
Fjölmiðlum á Íslandi og víða á vesturlöndum er tíðrætt þessa dagana um hryðjuverk múslímskra samtaka í Egyptalandi gegn vestrænum ferðamönnum. Þessi morð voru framin á saklausu fólki en höfðu að yfirlýstu markmiði að fá stjórn Egyptalands til að leysa úr haldi múslímskan fanga.
Það sem greinir hryðjuverk frá öðrum almennum glæpum eru tveir meginþættir. Hryðjuverkum er beint gegn saklausu fólki með það fyrir augum að aðgerðin hafi áhrif á þriðja aðila, t.d. stjórnvöld. Jafnframt eru hryðjuverk – andstætt almennum glæpum – yfirleitt tengd pólítisku eða hugmyndafræðilegu markmiði. Fjöldamorðin í Egyptalandi eru að þessu leyti dæmigerð hryðjuverk. Þeim var beint að saklausu fólki og markmið þeirra var að fá stjórnvöld til að leysa fanga úr haldi.
Íslenskir blaðamenn telja með réttu að morðin á tugum erlendra ferðamanna í Egyptalandi hafi verið fólskuleg hryðjuverk. En fordæming þeirra er óheiðarleg.
Þegar vestræn ríki, þ.m.t. Ísland, beita hryðjuverkum gegn múslímum, njóta þessi hryðjuverk þegjandi velþóknunar íslenskra blaðamanna, jafnvel þegar umfang hryðjuverkanna er margfalt meiri en öll hryðjuverk múslímskra samtaka til samans.
Dæmi um þátttöku Íslands í hryðjuverkum – aðgerðum sem beint er gegn saklausum borgurum til þess að stjórnvöld þeirra breyti um stefnu – er viðskiptabannið gegn írösku þjóðinni. Viðskiptabanninu er beint gegn öllum óbreyttum borgurum landsins, án tillits til aldurs, kyns, þjóðfélagsstöðu eða meintrar sektar. Markmið viðskiptabannsins með þessum hóprefsingum að fá almenna borgara í Írak til að þrýsta á stjórnvöld sín að virða kröfur Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Það skiptir engu máli hvort þessar kröfur séu réttmætar eða ekki. Hryðjuverk eru glæpsamleg burt séð frá réttmæti hinna yfirlýstu markmiða hryðjuverkamannanna.
Bandarísk og bresk yfirvöld hafa í raun viðurkennt að þau tækju þátt í hryðjuverkum gegn almenningi í Írak. Í kvöldfréttum í Ríkisútvarpinu 17. nóv. s.l. var t.d. haft eftir breskum embættismönnum að "stjórnir Bretlands og Bandaríkjanna væru reiðubúnar til þess að draga úr þjáningum írösku þjóðarinnar ef Bagdad-stjórnin virti samþykktir sameinuðu þjóðanna…Ó. Í þessari setningu felst hótun um að halda áfram aðgerðir gegn óbreyttum borgurum meðan stjórnvöld viðkomandi borgara láti ekki undan. Þessi hryðjuverk hafa þegar leitt til dauða einnar milljón óbreyttra borgara, þar af 600.000 barna. Við Íraksstjórn er sagt: Ef þið látið ekki undan drepum við 200 af ykkar börnum á hverjum degi. Við almenning í Írak er sagt: Ef þið risið ekki gegn einræðisráðherranum, munum við traðka ykkur og börn ykkar í svaðið. Þið getið sjálfum ykkur kennt að við séum að drepa börnin ykkar.
Niðurstaða
Framlag íslenskra blaðamanna í þágu hryðjuverka gegn börnum í Írak er að vísu óbeint og felst aðeins í kristilegri hræsni. En með framferði sitt tryggja þeir íslenskum hryðjuverkamönnum starfsfrið til að taka þátt í refsiverðum verknaði.
Elías Davíðsson, 19. nóv. 1997