Um áróðursmyndina United 93
Um áróðursmyndina United 93
Elías Davíðsson
4. sept. 2006
Ég hef séð myndina United 93, útsmogna, hreinræktaða áróðursmynd í þágu utanríkisstefnu Bandaríkjastjórnar. Tilgangur hennar er hvorki að skemmta né fræða, heldur að festa í sessi trú manna á lygum bandarískra ráðamanna um atburðina 11. september og ala á tortryggni í garð múslíma. Þetta allt blasir strax við.
Hvað efnistök varðar, er hún lítið meira en skáldskapur sem byggist ofan á annan skáldskap. Myndin á lítið skylt við raunverulega atburði, enda veit enginn óbreyttur borgari hver steig upp í flugvélina sem nefnd var United 93 (farþegalistarnir hafa aldrei verið birtir) né hvort flugvélin sem hrapaði í Pennsýlvaníu hafi verið flug United 93. Ekki er heldur sannað að öll símtölin áttu sér stað né hvaðan símtölin voru gerð. Kvikmyndahöfundur segir okkur ekki að allar sannanir eru ríkisleyndarmál og að myndin byggist á sögusögnum. Hafi kvikmyndastjórinn fengið aðgang að upplýsingum sem jafnvel bandarískir þingmenn hafa ekki fengið, þá hefur hann þagað um það. Sviðsettri ringulreið hjá bandarísku flugeftirlitinu (FAA) er ætlað að láta okkur halda að Bandaríkjamenn séu aular og að bandaríski herinn viti ekki sitt rjúkandi ráð. Samkvæmt opinberum tölum eru samskipti milli FAA og flughersins allt að því dagleg rútína og fylgir settum reglum. Um 100 sinnum á ári er herinn sendur á loft til að mæta flugvél sem týnist af leið eða samband rofnar við hana. Til þess þarf ekki heimild ráðamanna. Halda menn virkilega að bandaríski herinn fylgist ekki með lofthelgi Bandaríkjanna?
Það er því dapurlegt að horfa á hvernig fjölmiðlamenn sem hafa ekki gert heimavinnu sína hefja slíka áróðursmynd til vegs og virðingar. Þeir sem hafa áhuga að kynna sér ýmsar hliðar á flugi United 93 mættu t.d. skoða þann aragrúa heimilda sem finna má á vefsíðu minni á ensku undir http://www.aldeilis.net/aldeilis/content/category/10/102/107/
Þótt við sem störfum í 11 september hreyfingunni séum ekki mótfallnir að kynna sjónarmið okkar í fjölmiðlum og greina frá þeim mótsögnum og lygum sem fylla umræðuna um 11. september, teljum við það frekar hlutverk atvinnublaðamanna að leita sannleikans og miðla hann. Fá þeir ekki kaup fyrir það? Eða er þeim greitt fyrir að hylma yfir óþægilegum staðreyndum? Svör óskast.