Ummæli þingmanna/ráðherra
Afstaða alþingismanna til viðskiptabannsins
gegn írösku þjóðinni
Ummæli þingmanna/ráðherra við umræður og svör til Elíasar Davíðssonar
Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra
21.1.98 á Alþingi: "Sameinuðu þjóðirnar hafa þá skuldbindingu að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að varðveita heimsfriðinn og það eru Sameinuðu þjóðirnar að gera. Ábyrgðin í málinu liggur ekki fyrst og fremst hjá alþjóðlega samfélaginu. Hún liggur hjá þeim sem stjórna þessu ríki undir forustu Saddams Husseins og þeim mönnum þarf að koma frá.
Alþingi, febr. 1998: "Íslenska þjóðin tekur ekki þátt í árásum á grundvallarréttindi Íraka eða annarra þjóða. Íslendingar taka aftur á móti þátt í starfi Sameinuðu þjóðanna að tryggja frið og öryggi í heiminum. Íraksstjórn hefur, eins og flestum er kunnugt, haldið uppi árásarstefnu, gert innrás í nágrannaríki og brotið mannréttindi þegna landsins…. Enn fremur líta íslensk stjórnvöld svo á að viðhalda beri viðskiptabanninu frá árinu 1990 uns Írakar sýni í verki að þeir virði vilja samfélags þjóðanna og geri hreint fyrir sínum dyrum á sviði afvopnunarmála."
Geir H. Haarde, í umræðum á Alþingi í febrúar 1998:
"Vandamálið í Írak er ekki viðskiptabannið. Vandamálið er stjórnarfarið í landinu og þau stjórnvöld sem þar ráða ríkjum sem kúga þjóðina og hafa gert til margra ára, m.a. beitt hana sinnepsgasi eins og bent var á áðan… Hverjir sitja í öryggisráðinu? Er þingmönnum ekki kunnugt um að þar sitja stórveldin öll og þar sitja löndin öll sem hafa neitunarvald og að helsti stuðningsmaður Bandaríkjamanna í þessu máli er auðvitað enginn annar en uppáhaldsvinur vinstri manna á Íslandi, Tony Blair og ríkisstjórn Verkamannaflokksins?"
Hjörleifur Guttormsson á Alþingi, febr. 1998:
"Einnig þurfa menn vitanlega að fara yfir hina stóru spurningu um viðskiptabann, hvort það sé réttlætanlegt í þessu tilviki og ýmsum fleiri, og vænlegt til árangurs."
Jóhanna Sigurðardóttir, í svarbréfi til Elíasar Davíðssonar, febr. 1999:
Ágæti Elías. Fyrir skömmu síðan áttum við skoðanaskipti um þetta alvarlega mál, þar sem ég lýsti skoðun minni á málinu.
Kristín Ástgeirsdóttir á Alþingi 27. jan. 1998:
"Menn standa nokkuð berskjaldaðir gagnvart því hvernig hægt sé að breyta þessari stöðu en í mínum huga er alveg ljóst að viðskiptabannið hefur þvílík áhrif og svo alvarlegar afleiðingar að þetta getur ekki haldið svona áfram. Ég stend eins og aðrir býsna ráðalaus gagnvart því hvað hægt er að gera en það er ekki hægt að horfa upp á þetta lengur…
Sú von alþjóðasamfélagsins eða Sameinuðu þjóðanna, að með því setja þjóðina í svelti með þessu móti mundi það leiða til þess að einræðisherranum yrði steypt af stóli, hefur því engan veginn ræst, enda er það svo sem þekkt úr sögunni og þarf ekki að fara lengra aftur en til síðari heimsstyrjaldarinnar að þegar reynt er að sauma svona að þjóðum eða með loftárásum eða hvað það er, þá verða slíkar aðgerðir oftast til að þjappa fólkinu saman. Flestir eiga í erfiðleikum og svona aðgerðir þjappa fólkinu saman…. Það getur ekki verið réttlætanlegt að halda þessu áfram og því er afar brýnt að íslensk stjórnvöld beiti sér fyrir því að þessu viðskiptabanni verði aflétt og menn leiti þá annarra leiða til þess að breyta stjórnarfarinu í þessu ríki."
Kristín Halldórsdóttir, í svarbréfi til Elíasar Davíðssonar, febr. 1999:
Ég reikna með að þú þekkir efni tillögu til þingsályktunar um endurskoðun viðskiptabanns á Írak. Steingrímur J. Sigfússon er fyrsti flutningsmaður, en ég er í hópi meðflytjenda. Hér með vísa ég til þess rökstuðnings sem fylgir tillögunni."
Magnús Árni Magnússon til Elíasar Davíðssonar, febr. 1999:
Ég tel að Saddam Hussein beri ábyrgð á dauða þeirra írösku borgara sem þú vitnar til…. Vesturlönd hafa engan hag af því að íraskir borgarar falli úr hungri og hor, síður en svo, en Vesturlönd hafa á hinn bóginn fullan rétt til sjálfsvarnar þegar þeim er ógnað. Viðskiptabann er slæmur kostur, en er í raun viðbragð við því að lýðræðisríki eiga æ erfiðara með að heyja beinar styrjaldir.
Margrét Frímannsdóttir við fyrirspurn Elíasar Davíðssonar, febr. 1999:
Það að saklaus börn gjaldi á grimmilegan hátt fyrir pólitískar og eða trúarlegar deilur milli þjóða er óverjandi hver sem í hlut á.
Ólafur Örn Haraldsson, í svarbréfi til Elíasar Davíðssonar 19. des. 1995.
Þakka þér bréfið í tölvupóstinum. Þessu máli hefur verið hreyft hér á Alþingi. Hvatning þín verður til þess að ég kynni mér málið betur.
Ragnar Arnalds, úr svarbréfi til Elíasar Davíðssonar, febr. 1999
Alþýðubandalagið og talsmenn þess hafa margsinnis mótmælt viðskiptabanninu á Írak eins og þú veist best sjálfur. Um það þarftu ekki að spyrja.
Sigríður Jóhannesdóttir við fyrirspurn Elíasar Davíðssonar, febr. 1999:
Afstaða mín til viðskiptabannsins á Írak hefur lengi verið ljós. Ég leggst eindregið gegn því og tel að slíkur gerningur vegi einkum að þeim sem enga sök eiga í því máli sem um er deilt og eiga enga möguleika á að hafa áhrif á framgang mála í þessum átökum sem Bandaríkjamenn kjósa að halda við og gera allt til að blása þar í glæðurnar. Mér finnst satt að segja þolinnmæði heimsins gegn framferði þeirra í þessum átökum illskiljanleg.
Steingrímur J. Sigfússon á Alþingi 27.1.98:
"Fyrir löngu er ljóst að afleiðingar viðskiptabannsins hafa snúist upp í andhverfu sína. Það er þeim aðila til styrktar, þ.e. Saddam Hussein, sem það var sett til höfuðs en bitnar fyrst og fremst á saklausum almenningi og börnum sem fá engum vörnum við komið. Ísland er í öðru lagi aðili að mannréttindasáttmálum eins og Genfarsáttmálanum og verður þá að gera það upp við sig hvort það vill heldur brjóta slíka mannréttindasáttmála með því að taka þátt í viðskiptabanninu, sem er að mati mjög margra skýlaust brot á þeim, eða taka þátt í aðgerðum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Í þriðja lagi getur Ísland að sjálfsögðu hvenær sem er ef vilji er fyrir hendi tekið upp á alþjóðavettvangi að beita sér fyrir endurskoðun á viðskiptabanninu. Það er allt og sumt sem sú tillaga felur í sér sem hefur ekki fengist afgreidd í þrjú ár.
Við getum ekki skotið okkur undan ábyrgð með ræðum af því tagi sem hæstv. utanrrh. flutti. Ísland hefur fyrir það fyrsta sjálft fullgilt með innlendri stjórnsýsluaðgerð þátttöku sína í þessum aðgerðum. Þátttaka Íslands er ekki sjálfvirk afleiðing af ákvörðun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna heldur innlend stjórnsýsluaðgerð…
Ég held að fleiri og fleiri lögfræðingar séu að verða þeirrar skoðunar að það sé engin leið að komast fram hjá því að afleiðingar viðskiptabannsins í Írak ganga gjörsamlega í berhögg við ákvæði viðurkenndra mannréttindasáttmála, þá fyrst og fremst Genfarsáttmálann sjálfan og viðauka við hann, þannig að við erum þá komin í þá ótrúlegu stöðu, þjóðasamfélagið, að vera með aðgerðum af þessu tagi að brjóta grundvallarsáttmála sem reynt hefur verið að byggja á einmitt í sókn fyrir auknum mannréttindum og friðsamlegri heimi…
Sömuleiðis fer auðvitað lítið fyrir hið svokallaða viðskiptafrelsi og stofnsáttmáli nýju Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar þegar menn vegna einhvers áratuga gamals stjórnmálaágreinings, eins og á sér stað í tilvikinu Bandaríkin-Kúba, viðhalda viðskiptabanni og jafnvel herða það. Hvernig sem á þetta mál er litið, herra forseti, hvort sem við nálgumst það frá mannúðarhliðinni, út frá okkar siðferðislegu ábyrgð og siðferðislegu skyldum, frá hinni pólitísku hlið og spurningu um hvort það skili tilætluðum pólitískum árangri, þeim að knésetja harðstjórnina í Írak eða, í þriðja lagi, hvort við nálgumst það frá lögfræðilegum eða þjóðréttarlegum sjónarhóli, það skiptir ekki máli. Það er jafn óþolandi að þetta ástand heldur áfram. Þess vegna þurfum við að beita okkur fyrir því að koma því á hreyfingu og Ísland gæti vel orðið sú þúfa sem veltir hlassinu í þessu máli eins og það hefur stundum áður reynst í afdrifaríkum málum, þ.e. ef menn vildu það viðhafa að beita okkar möguleikum sem sjálfstæðs ríkis til þess að koma þessu máli á dagskrá…. Það kann ýmsum að finnast lítil ástæða til að við Íslendingar séum að eyða tíma okkar á löggjafarþinginu eða annars staðar í þjóðfélaginu til að hafa áhyggjur af þessum málum, hvort heldur það er barnadauði í Írak, þær þvinganir sem Kúbverjar hafa um áratuga skeið mátt búa við eða þess vegna, herra forseti, mannréttindaástandið í Indónesíu. Mönnum finnst kannski nærtækara að stunda útúrsnúninga í umræðum um slík mál en taka þau fyrir af einhverri alvöru en sá sem hér stendur hyggst ekki láta aftra sér frá því að hafa slík mál á dagskrá ef svo ber undir. Ég held að þá fyrst yrði nú pólitíkin lágkúruleg og lítils virði ef menn létu það alveg vera að láta sig varða örlög meðbræðra sinna þó að þeir búi einhvers staðar annars staðar á jörðinni….
Ef ég kem aftur að hinni siðferðilegu og pólitísku ábyrgð sem við berum á ástandinu í Írak, þá er hún hrein og bein, ósköp einfaldlega vegna þess að íslensk stjórnvöld hafa fullgilt með sérstakri útgáfu reglugerðar, sem birt er í Stjórnartíðindum, aðild okkar að viðskiptabanninu sem öryggisráð Sameinuðu þjóðanna tók ákvörðun um að setja á. Sú birting er dagsett 28.apríl 1992 og undirrituð af hv. þm. Jóni Baldvini Hannibalssyni og þáv.hæstv. utanrrh. og Þorsteini Ingólfssyni, sem ég hygg að þá hafi verið ráðuneytisstjóri í utanrrn. Með þessari auglýsingu, nr. 160/1992, umráðstafanir til að framfylgja ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr.661/1990 vegna innrásar Íraka í Kúveit tökum við Íslendingar að okkar leyti fulla pólitíska og siðferðilega ábyrgð á afleiðingum þessara gjörða. Við getum með öðrum orðum ekki skotið okkur undan því á einn eða annan hátt. Þó að viðskipti þessara landa kunni að hafa verið lítil eða ekki umtalsverð breytir stærðargráðan hér ekki máli heldur hitt að við eins og aðrar þjóðir sem fullgilt hafa þessa ályktun öryggisráðsins berum sameiginlega ábyrgð…
Bæði fyrrv. hæstv. utanrrh. og núv. hæstv. utanrrh. eru þeir menn sem stjórnskipulega annast um framkvæmd þessara mála fyrir okkur og ég verð að segja, herra forseti, að mig hefur stundum undrað þögn þeirra í umræðum um slík mál. Hvorugur er til staðar hér í dag, en það er ekki í fyrsta skiptið sem fjarvera þeirra er nokkuð æpandi þegar umræður um þessi mál ber á góma. Þær ríkisstjórnir og þeir meiri hlutar sem stutt hafa bæði fyrrverandi og núverandi ríkisstjórn verða að sjálfsögðu líka að sínu leyti að axla ábyrgð á þessum ákvörðunum og út af fyrir sig einnig þingmenn allir og Alþingi sem hefur að sjálfsögðu möguleika á því að grípa inn í ef svo ber undir.
Svavar Gestsson, Alþingi 27.1.98:
Ég tel að sú uppsetning mála sem kom fram hjá hæstv. utanrrh. að málið snúist um að koma Saddam Hussein frá hvað sem það kostar er hræðileg utanríkispólitík og ég hafna henni.
Ögmundur Jónassaon, á Alþingi 27.1.98:
"Í yfirlýsingu framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna í framhaldi af athugunum á afleiðingum af viðskiptabanninu á Írak kemur fram að bannið veldur nú mjög alvarlegum næringarskorti hjá almenningi í landinu. Þá kemur fram í vönduðum rannsóknarskýrslum, sem unnar hafa verið á vegum stofnana Sameinuðu þjóðanna og aðskiljanlegra sjálfstæðra stofnana, að bannið hefur orðið þess valdandi að mörg hundruð þúsund manns hafa látist af völdum þess og hefur verið talað um 750 þúsund börn í því sambandi. Þetta eru alvarleg tíðindi fyrir Sameinuðu þjóðirnar. Þetta eru alvarleg tíðindi fyrir Íslendinga sem eiga aðild að banninu og framfylgja því fyrir sitt leyti. Þetta eru alvarleg tíðindi fyrir ríkisstjórnina sem ber ábyrgð á skuldbindingum okkar í þessu efni. Þetta eru alvarleg tíðindi fyrir Alþingi Íslendinga sem ber ábyrgð á ríkisstjórninni því að í umboði Alþingis starfar hún…. Það yrði ömurlegur vitnisburður fyrir Alþingi Íslendinga þegar komandi kynslóðir munu lesa í sögubókum um hörmulegar afleiðingar viðskiptabannsins á Írak sem er til komið að kröfu Bandaríkjastjórnar og viðhaldið vegna neitunarvalds hennar í öryggisráðinu að málið hafi aldrei fengist til lykta leitt á Alþingi.
Ögmundur Jónassaon, á Alþingi febr. 1998:
"Hæstv. utanrrh. sagði áðan að íslenska ríkisstjórnin væri sammála refsiaðgerðunum. Hann sagði jafnframt að hún hefði ekki séð ástæðu til að gera sérstaka samþykkt um málið…
Ákvörðun um viðskiptabannið á Írak var tekin í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Framkvæmd viðskiptabannsins er hins vegar í höndum einstakra fullvalda ríkja sem bera hvert fyrir sig ábyrgð á gerðum sínum og afleiðingum þeirra. Þessi ábyrgð er lagaleg, siðferðileg og pólitísk. Enda þótt ákvarðanir öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna séu skuldbindandi þá eru til þær aðgerðir sem undir öllum kringumstæðum er rangt að framfylgja. Ef ákvarðanir öryggisráðsins stríða gegn grundvallarreglum og markmiðum Sameinuðu þjóðanna og þeim samningum og sáttmálum um mannréttindi sem þjóðir heimsins hafa skuldbundið sig til að fylgja, þá er rangt undir öllum kringumstæðum að fara að vilja öryggisráðsins og þetta segir maður sem vill veg Sameinuðu þjóðanna sem mestan. Ég tel hins vegar að verið sé að misnota nafn Sameinuðu þjóðanna á grófan hátt og grafa undan tiltrú almennings á þessari mikilvægustu alþjóðastofnun heimsins…
Hér gefst ekki tími til að ræða hinar lagalegu hliðar þessa máls, t.d. þá staðreynd að það mundi flokkast undir alvarlegt hryðjuverk að hóta og síðan framkvæma aðgerðir sem hafa í för með sér dauða 100 saklausra barna á degi hverjum. Þetta er hins vegar að gerast í Írak…
Kjarni málsins er sá að fórnarlamb þessara aðgerða er ekki Saddam Hussein heldur alþýða manna í Írak. Þess vegna er sú krafa sem við hljótum að reisa að viðskiptabannið verði numið úr gildi og þjóðir heimsins hætti að ofsækja saklaust fólk…
Hér á landi hafa á annað hundrað manns undirritað ásakanir gegn núv. og fyrrv. utanrrh. á þessum grundvelli og ég verð að segja að mér finnst ekkiganga að afgreiða ásakanir af þessu tagi sem öfgar sem ekki séu svaraverðar. Um er að ræða ábyrgð okkar þjóðar í þessum efnum og hæstv. utanrrh. skuldar Alþingi og þjóðinni skýringar á því hvers vegna hann telji ásakanir af þessu tagi ekki eiga við rök að styðjast sem hann væntanlega gerir. Mér er kunnugt um að þeir einstaklingarsem í hlut eiga vildu að ráðherra lögsækti þá fyrir dómstólum vegna meiðyrða.
Í fjórða lagi er spurt hvort írakska þjóðin hafi gefið Íslendingum tilefni til að taka þátt í árásum á grundvallarmannréttindi Íraka."
Össur Skarphéðinsson, við umræður á Alþingi, febr. 1998
"Ég tel að kominn sé tími til að íslensk stjórnvöld taki til endurskoðunar aðild sína að viðskiptabanninu á Írak… Ég tók eftir að hæstv. utanrrh. sagði að rökrétt væri að menn veltu því fyrir sér hvort það þjónaði þeim markmiðum sem að var stefnt. Ég held að það geri það ekki lengur… Hæstv. utanrrh. sagði líka að öllum stofnunum sem hefðu rannsakað málið bæri saman um að næringarástand t.d. barna í Írak væri slíkt að það væri ekki viðunandi. Þá segi ég einfaldlega að ég held að það sé ekki siðferðilega verjandi fyrir okkur Íslendinga annað en a.m.k. að leyfa okkur þann munað að taka þetta til umræðu, hvort við eigum að styðja þetta viðskiptabann, og ég held að það sé kominn tími til að við gerum það ekki."
Pétur Blöndal til Elíasar Davíðssonar 19. des. 1995
"Þakka þér fyrir tilskrifin. Þú bendir réttilega á vanda, sem erfitt er að leysa. Viðskiptabann er talið hafa haft áhrif til góðs í S-Afríku en það virðist gefast hörmulega í Írak. Þeirri spurningu er ósvarað hvernig staðan væri ef ekki hafði komið til viðskiptabanns."
Kristán Pálsson við fyrirspurn Elíasar Davíðssonar
"Ég er ekki sammála þér varðandi Íraks málið og þá áráttu þína að gera íslensk stjórnvöld ábyrg fyrir hörmungum írösku þjóðarinnar.
Grimmd Sadams Hussein í garð óvina sinna er öllum ljós og hvernig hann hefur reynt að murka lífið úr kúrdum og öðrum ættflokkum sem ekki fylgja honum að málum er óverjandi. Hann hefur gert innrás í nágranna ríki sitt og er það grimmur og ofstopafullur að ekki er hægt að treysta honum. Að slíkur maður gæti haft undir höndum gereyðingarvopn er einnig hættulegt öllum heiminum og því ber að halda honum í skefjum. Það getur ekki skrifast a reikning neins nema Sadam Hussein kvernig komið er fyrir hans eigin þjóð, hann er svo grimmur að dauði nokkura barna er bara tæki í áróðursstríði fyrir hann, honum þykir ekki vænt um þjóð sína heldur eigin völd. Íraska þjóðin verður að taka taka ráðin í sínar hendur, þá mun hörmungum þeirra linna, fyrr ekki."