Umræður á Alþingi 2 október 2001
2001-10-02 Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):
Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumræður),
Herra forseti. Góðir Íslendingar. […] Gerð hefur verið óvenjulega hatursfull árás á óbreytta borgara í Bandaríkjunum. Illvirkjarnir, sem skipulögðu árásina, hafa ekki lýst glæpnum á hendur sér. Allir góðir og réttsýnir menn í veröldinni eru sammála um að þessum árásum og þeirri ógn sem þær valda verði að svara, helst þannig að eyðingaröflin verði með öllu upprætt. Íslendingar hafa óhikað skipað sér í hóp þeirra þjóða sem bregðast vilja við af mikilli festu. Eðli málsins samkvæmt verðum við fjarri því að vera í forustu, en við hljótum að vera tilbúnir til að leggja það af mörkum sem við megum. Auðvitað er enginn að tala um blindar hefndaraðgerðir í garð heilla þjóða eða þeirra sem ekki hafa annað til saka unnið en að aðhyllast önnur trúarbrögð en við. Enginn er að tala um að fara með aðgerðir vestrænna þjóða niður á eymdarstig hryðjuverkamannanna. Hvorki NATO sem heild né einstakar bandalagsþjóðir hafa samþykkt slíkar aðgerðir, enda hefur enginn eftir slíku samþykki leitað. Þeir, sem gefa slíkt í skyn, eru á villigötum sjálfir, eða eru að reyna að villa um fyrir öðrum.
Daginn eftir árásina á Bandaríkin lýsti Atlantshafsbandalagið yfir að hún jafngilti árás á öll bandalagsríkin. Ísland bar að sjálfsögðu ábyrgð á þessari yfirlýsingu eins og önnur ríki bandalagsins. Öryggisstefna NATO, sem samþykkt var á leiðtogafundi þess fyrir tveimur árum, gerir ráð fyrir að bandalagsþjóðirnar kunni að þurfa að bregðast sameiginlega við hryðjuverkum. Aðför sú gegn hryðjuverkaöflum, sem nú er í undirbúningi á alþjóðavettvangi, er ekki hefndaraðgerð heldur refsiaðgerð og lögregluaðgerð. Okkur er skylt að taka þátt í að refsa þeim sem ábyrgð bera á hryllilegum glæp og neyta allra úrræða til að koma í veg fyrir fleiri ódæði. Önnur afstaða kemur ekki til greina, ef vært á að vera í heiminum. Að öðrum kosti er niðurstaðan sú að enginn verður óhultur nema glæpamennirnir og hjálparkokkar þeirra.
[…]
Eins og dómsmrh. hefur bent á opinberlega er nú nauðsynlegt að skoða lagaumhverfi hryðjuverkabrota í ljósi nýjustu atburða. Vinna þarf að fullgildingu tveggja alþjóðasamninga á vegum Sameinuðu þjóðanna. Þetta er samningur sem setur skorður við fjármögnun hryðjuverkastarfsemi og samningur gegn skipulagðri glæpastarfsemi. Samhliða öðrum breytingum á refsilöggjöfinni vegna hryðjuverka er stefnt að lagabreytingum sem miða að því að banna notkun dulbúninga á mótmælafundum. Er hér litið til þeirra upphlaupa og óeirða sem blásið hefur verið til í tengslum við alþjóðlega fundi þar sem hettuklæddir atvinnumenn í ofbeldi hafa staðið fyrir árásum og skemmdarverkum. Loks verður í samvinnu við nágrannaþjóðir okkar hugað að breytingum á lögum og reglum í tengslum við framsal manna fyrir alvarlegustu brot eins og hryðjuverk.
2.10.2001
Össur Skarphéðinsson:
Góðir landsmenn. Tæplega tvö hundruð Íslendingar misstu vinnuna í síðustu viku vegna voðaverkanna í Bandaríkjunum 11. september. Næstum tvö hundruð manns hér á landi, víðs fjarri vettvangi glæpsins, horfa allt í einu til óvissrar framtíðar, þurfa allt í einu að leita sér að nýrri vinnu, verða allt í einu að útskýra fyrir börnum sínum og mökum gjörbreytta stöðu á heimilinu. Við sendum þessu fólki hlýjar kveðjur okkar allra héðan úr þingsalnum.
En uppsagnir hundruða Íslendinga sýna betur en annað að árás glæpamannanna í New York og Virginíu var líka atlaga gegn okkur. Einörð samstaða okkar og Evrópuþjóðanna með Bandaríkjunum hefur þegar haft áhrif. Vegna hennar er hættan á útbreiddri styrjöld miklu minni en ella og Bandaríkjamenn hafa líka áttað sig á því að önnur vopn kynnu að reynast gagnlegri í þessari baráttu heldur en hefðbundinn vígbúnaður. Það sýna yfirlýsingar þeirra, m.a. um viðbrögð á alþjóðlegum fjármálamarkaði sem glæpamenn og hryðjuverkasamtök hafa hingað til getað nýtt sér nánast hindrunarlaust í þeim krafti að fáir skeyti um lyktina af peningum.
Atburðirnir 11. september leiða einnig til þess að Íslendingar þurfa ásamt öðrum vestrænum og evrópskum ríkjum að skilgreina öryggisþarfir sínar upp á nýtt. Ógnin sem að okkur steðjar í formi árásar skipulagðs herafla yfir landamæri hefur dvínað inn í sólarlag kalda stríðsins. Hættur nútímans eru einfaldlega orðnar öðruvísi og þær eru miklu margslungnari en áður og við Íslendingar þurfum að skilgreina af ískaldri alvöru öryggisþarfir okkar, borgaranna, mannvirkjanna og samfélagsinnviða okkar. Nú standa fyrir dyrum viðræður um bókun við varnarsamninginn og ég geng út frá því sem vísu að viðbúnaður gegn nýjum ógnum sé meðal lykilatriða í þeim viðræðum.
Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):
Herra forseti. Góðir Íslendingar. Eftir atburðina í Bandaríkjunum 11. september sl. stöndum við frammi fyrir breyttri heimsmynd. Þúsundir saklausra borgara sem mættir voru til vinnu á ósköp venjulegum þriðjudegi urðu fyrir barðinu á nýrri tegund hryðjuverka. Okkur óskiljanlegur trúarhiti og fjandsemi teymdi ódæðismennina til þessara skelfilegu verka. Heimurinn er ekki samur eftir. Við hljótum á þessari stundu að velta því fyrir okkur hvað fái ungt fólk til að framkvæma árásir sem þessar.
Viðbrögð hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. vegna hryðjuverkanna hafa einkennst af styrk og festu. Íslendingum ber siðferðisleg skylda með alþjóðasamfélaginu að leggja sitt af mörkum til að uppræta þessa hryðjuverkahópa. Í samstarfi NATO-þjóða berum við ábyrgð, en eins og fram kom hjá hæstv. forsrh. áðan var samþykkt fyrir tveimur árum að bandalagsþjóðirnar kunni að þurfa að berjast sameiginlega gegn hryðjuverkum.
Steingrímur J. Sigfússon:
Herra forseti. Góðir áheyrendur. Voðaatburðirnir vestur í Bandaríkjunum 11. sept. sl. eru mönnum að vonum ofarlega í huga. Allir þeir sem nú eiga um sárt að binda bæði í Bandaríkjunum og annars staðar eiga samúð okkar óskipta. Við fordæmum þessa atburði eins og við hljótum að fordæma ofbeldi og valdbeitingu utan laga og réttar hvar sem er, hvenær sem er og í hvaða meinta tilgangi sem er. Ekki síst gildir þetta ef saklausir borgarar eru fórnarlömb.
Í þessu sambandi, herra forseti, var ánægjulegt að heyra þann vitnisburð sem fram kom um viðhorf íslensku þjóðarinnar þegar Gallup gerði skoðanakönnun hér á landi og í nokkrum öðrum löndum. 90% íslensku þjóðarinnar vilja að þeir sem bera ábyrgð á þessum voðaverkum verði dregnir fyrir dóm og látnir sæta ábyrgð og taka út refsingu samkvæmt lögum og rétti. Sömu 90% eru ekki fylgjandi árásum eða hefndaraðgerðum af þessu tilefni. Íslendingar eru með öðrum orðum trúir arfleifð sinni sem vopnlaus og friðelskandi smáþjóð og vonandi verður þetta, sá ótvíræði þjóðarvilji sem þarna birtist, þeim ráðamönnum okkar sem hvað herskáastir hafa verið í tali holl leiðsögn.
Ásta Möller:
Herra forseti. Góðir áheyrendur. Fyrir þremur vikum varð heimurinn vitni að einu fólskulegasta ódæði allra tíma þegar fjöldamorðingar urðu þúsundum að bana í Bandaríkjunum. Ótti við frekari hryðjuverk vekur ugg í brjósti og óöryggi meðal fólks. Trúin á hið góða hefur beðið hnekki, traust hefur vikið fyrir tortryggni, heimsmyndin hefur breyst.
Til eru þeir sem halda því fram að varnarbandalög eins og Atlantshafsbandalagið séu tímaskekkja. Þeir sömu hljóta nú að endurskoða afstöðu sína. Við stöndum frammi fyrir ófriðartímum og vá af því tagi sem einungis órofa samstaða vestrænna ríkja getur varist. Vestræn ríki, í raun heimurinn allur, þarf að standa saman í að koma böndum yfir þá sem taka sér það vald að ógna lífi saklausra borgara með hryðjuverkum. Hinn harði lærdómur sögunnar hefur kennt okkur að ekki dugir að mæta hinu illa með linkind og undangjöf.
Lýðræðisríki byggja m.a. á hugmyndum um mannréttindi, ábyrgð og virðingu fyrir frelsi og lífi einstaklinga. Þau eru réttarríki þar sem brot á reglum samfélagsins leiða til refsingar. Stærri glæp en þann sem við urðum vitni að í beinni útsendingu er vart hægt að hugsa sér. Þeim sem ábyrgðina bera á að refsa — ekki í þeim tilgangi að leita hefnda heldur til að þeir standi reikningsskil gerða sinna — án þess þó að saklausir borgarar líði fyrir.
Vegir réttarríkisins og kristinnar trúar í þessa veru liggja hér samhliða. Guð kristinna manna er réttlátur, hann leitar ekki hefnda en refsar þeim sem brjóta gegn vilja hans.
Kolbrún Halldórsdóttir:
Herra forseti. Góðir áheyrendur. Í dag eru liðnar þrjár vikur frá voðaverkunum í Bandaríkjunum og sá atburður hefur varpað skugga á hvern einasta dag sem upp hefur runnið yfir þjóðir heims síðan þá. Forsrh. hóf mál sitt með því að ræða um ástandið í heimsmálunum eftir árásirnar á New York og Washington og hann ræddi um svör og hann ræddi um viðbrögð við þeim árásum. Hann fullyrti að enginn væri að tala um blindar hefndaraðgerðir í garð heilla þjóða. Við skulum vona að forsrh. reynist sannspár í þessum efnum og okkur takist að róa og hugga börnin okkar og sefa ótta allra barna á þessari jörð.
Friðarhreyfingar um allan heim sameinast nú í fordæmingu voðaverkanna en jafnframt í ákalli sínu um skynsemi og yfirvegun í aðgerðum stórveldanna. Fólk hræðist hefndarhug og fólk hræðist ofsa hvaðan sem hann er upp runninn og sendir öflugt ákall um réttlæti út um heimsbyggð alla.
Íslendingar eru sú þjóð sem lætur í ljósi hvað mestan friðarvilja í nýafstaðinni alþjóðlegri könnun. Aðeins 6% Íslendinga vilja að Bandaríkjamenn ráðist á það land eða önnur lönd sem hýsa hryðjuverkahópana er frömdu ódæðin í New York og Washington þann 11. september. Níu af hverjum tíu Íslendingum vilja frekar fá hryðjuverkamennina framselda og dregna fyrir dóm. Afstaða Íslendinga er svo afgerandi að hún staðfestir enn eina ferðina þá fullyrðingu að friðarbarátta sé meirihlutabarátta og það verða íslensk stjórnvöld að hafa í huga og sem næst hjarta sínu þegar þau mæla fyrir munn þessarar vopnlausu þjóðar norður við ysta haf.