Uppar og niðrar
Fréttablaðið, 16 janúar 2006
Á vesturlöndum segja margir að hin pólítiska skipting til hægri eða vinstri sé búin að syngja sitt síðasta. Líka hér á landi. Það sem greinir millir stjórnmálaflokka rétt dugir til að krydda stefnuskrárnar svo að þjálfaðir fíkniefnahundar og fréttamenn geti þekkt þær sundur. Það er meiri munur á kjötætu og grænmetisætu en Sjálfstæðismanni og Samfylkingarfélaga. Í pólítik eru menn ekki lengur til hægri eða vinstri heldur uppí eða niðrí. Uppinn er í þingsæti, niðrinn án þingsætis.
Stjórnmálaflokkar hafa í kyrrþey þjóðnýtt sjálfa sig meðan ríkisfyrirtæki hafa verið á útsölu. Stjórnmálaflokkar lífa ekki lengur á framlögum meðlima sinna heldur á föstum ríkisframlögum og svörtum vasapeningumsem geta sviðið út úr fyrirtækjum þegar kosningar nálgast. Tilgangur stjórnmálaflokka er að viðhalda sjálfum sér með einokun á nýliðun í stjórnmálum. Flokksmaskínur klóna nýliða í samræmi við sínar eigin þarfir og framtíðaráætlanir ekki almennings. Þingmenn hugsa fyrst um sjálfa sig, (sbr. embætti og eftirlaun), svo um flokkinn sinn og síðast um kjósendur.
Stjórnmálaflokkar heilla fólk ekki lengur. Vöruframboðið er of einhæft. Klónin ekki nógu mannleg. Slagorðin komin fram yfir síðasta neysludag. Engar glitrandi hugsjónir í hillunum. Þjónustan stirð.
Alþingi er verndaður vinnustaður. Þeir sem þaðan hverfa leggjast eins og mara á ríkisstofnanir sem eru misnotaðar og breytt í hjúkrunarheimili fyrir langveika sjúklinga. Hinir pólítisku uppar hafa afhent peninga-uppum hin raunverulegu völd yfir þróun samfélags okkar. Svo þykjast hinir valdalausu uppar úr pólítikinni ætla að hafa eftirlit með peninga-uppunum sem felst í því að krækja í sömu launahækkanir og þeir. Uppinn er sjálftökumaður, ekki þjónn samfélagsins. Bilið milli hægri og vinstri hedur verið afmáð. Nú stýra menn ekki lengur eftir áttavita heldur hæðarmæli. Niðrarnir í niðaþoku, en upparnir skýjum ofar í sjöunda himni. Lýðræðið sendur áttavillt á jörðinni og sést varla á bestu gervitunglamyndum frekar en almenningur og spillingin.