Óður til Kennarans í kassanum
Óður til Kennarans í kassanum |
Ég veit að vinnudagurinn er langur, launin lág, pabbi og mamma þreytt og börnin örg. Þess vegna lyppast fjölskyldan niður, fær sér kók og lætur Kennarann í kassanum sjá um uppeldið.
Kennarinn í kassanum sér vel um börnin litlu. Takið bara eftir hvernig þau sitja grafkyrr með opinn munn og drekka í sig fróðleikinn úr munni hans. Látið hann ala börnin því hjá honum læra þau allt annað en að
hræra, hjúkra, daðra, efa,
töfra, hekla, þvo og vefa,
brytja, mykja, krækja, slá,
steikja lúðu, segja frá,
höggva, þæfa, örva, klæða,
þreifa, þræða, vilja, ræða,
dansa, nudda, strjúka, tjá,
þora, faðma, digga, dá,
söðla, reiða, klippa, greiða,
ríða, raða, leita, veiða,
leika, túlka, þola, efna,
þætta, þróa, pæla, nefna,
temja, yrkja, mylja, sá,
sjóða, seiða, hlusta á,
lesa, skrifa, kveða dýrt,
skoða, meta, hugsa skýrt,
prenta, planta, teikna, raka,
reyta, pressa, kenna, baka,
mæla, mála, miðla, mynda,
malla, bralla, negla, binda,
sauma, bæta, tálga, sníða,
strekkja, frysta, flakka, þíða,
þrátta, sætta, iða, vera,
sykra, selta, iða, gera,
þjóna, þyrma, hlú og vernda,
þýðast, dreyma, elska án enda,
raula, syngja, kyrja um
Kennarann í kassanum,
KENNARANN… Í KASSANUM !
Kennarar og foreldrar ættu að þakka þeim framtakssömu framleiðendum sem leggja dag við nótt til að auka sjónvarpsáhorfun barna.
Jafnframt ættum við öll að krefjast þess að Alþingi leggi skólana niður, lækki skatta og feli Kennaranum í kassanum uppfræðslu barnanna, svo þau verði góðir og dyggir kaupendur í framtíðinni og spyrji ekki óþægilegra spurninga.
Ritað í ljósi gervitungls á jólunum 1985 með brosi til allra barna.
Elías Davíðsson
Color