Ávarp Sveins Rúnar Haukssonar við bandaríska sendiráðið
Ávarp Sveins Rúnar Haukssonar
við Stjórnarráð 3. maí 2003 Gegn stríði og hernámi Íraks
Góðir félagar,
Enn stöndum við hér til að mótmæla árásarstríði Bandaríkjanna, Bretlands og bandamanna þeirra gegn Írak og til að lýsa yfir stuðningi við írösku þjóðina í baráttu hennar gegn hernámi síns lands. Síðast en ekki síst erum við hér til að mótmæla þeirri þjóðarskömm að nafn Íslands skuli hafa verið lagt við þá stríðsglæpi sem framdir eru með fullkomnustu stríðsvél heims gegn þriðjaheims landi, – þjóð sem mátt hefur þola stöðugar loftárásir af hálfu Bandaríkjanna og Bretlands í meira en áratug – ofan í viðskiptabann sem sérfræðingar Sameinuðu þjóðanna telja að hafi valdið dauða milljóna manna, ekki síst barna í hundruða þúsunda tali.
Hvernig má vera að slík grimmd fái viðgengist fyrir allra augum nú á tímum og að viðbrögð okkar séu ekki meiri en raun ber vitni? Stöku ályktanir og einn og einn mótmælafundur. Hvernig má það líka vera að ríkisstjórn Bandaríkjanna komist upp með að leggja undir sig önnur ríki í blóðugum styrjöldum, setja þar upp eigin landstjórn eða leppstjórnir.
Stríðsherrarnir reyna ekki einu sinni að fara í felur með fyrirætlanir sínar. Á dögum Nixons og Kissingers var þó reynt að ljúga og fela glæpina. Nú liggur það fyrir af hálfu Bush og Rumsfield, að Írak verði undir beinni stjórn Bandaríkjanna í að minnsta kosti tvö ár en sennilega mun lengur. Það liggur fyrir að settar verði upp fjórar gríðarstórar herstöðvar og þar mun ekki tjaldað til einnar nætur. Bandaríkin eru komin til að vera í Írak, rétt einsog þau lögðu Afganistan undir sig. Þar er nú fjölmennari her en þegar bardagar stóðu sem hæst. Og nú beina heimsvaldasinnarnir augum að Sýrlandi og Íran.
Þeir Írakar sem voga sér að mótmæla hernáminu hætta lífi sínu. Þegar hafa tugir óbreyttra íraskra borgara verið skotnir til bana fyrir þátttöku í mótmælaaðgerðum. Sú grimmd ætti svo sem ekki að koma á óvart þeim sem fylgst hafa með framferði bandaríska heimsveldisins, ekki bara í Víetnam og um gjörvallan heim, heldur líka gegn eigin borgurum. Það hittist svo á að á morgun, 4. maí, eru einmitt liðin 33 ár síðan þjóðvarðliði var sigað á stúdenta sem voru að mótmæla Víetnamstríðinu í bandaríska háskólabænum Kent. Fjölmargir lágu í valnum þann dag.
Í Bandaríkjunum er oft minnst þeirra 60 þúsunda hermanna sem féllu í Víetnamstríðinu. Þá eru ótalin hundruð þúsunda andlegra og líkamlegra öryrkja sem sneru heim á lífi. Sjaldan er hins vegar minnst þeirra milljóna óbreyttra borgara í Víetnam, sem féllu í gjöreyðingarstríði Bandaríkjhers. Og enn, nærri þrjátíu árum eftir að stríðinu lauk, er fólk að deyja af völdum þess úr krabbameini, sem orsakast af eiturhefnahernaði Bandaríkjanna, og enn eru að fæðast stórlega vansköpuð börn af sömu orsök. Þjóðarmorð er nafn leiksins.
Í stuttu ávarpi verður ekki rakinn sá hryllilegi blóðferill sem Bandaríkjaher og vopnabræður hans hafa skilið eftir sig í öllum heimsálfum á liðnum árum og áratugum. Orsakir stríðsins gegn Írak eru græðgi auðhringanna, olían, hernaðarsamvinnan við Ísrael, í stuttu máli heimsvaldastefna Bandaríkjanna. Áróðurinn fyrir stríðinu gekk út á að "afvopna Saddam" eins og það var kallað, ná frá honum öllum gereyðingarvopnum og eldflaugum sem drægu lengra en 150 km. Það átti líka að refsa Írökum fyrir að hlíta ekki ályktunum Sameinuðu þjóðanna. Engin eiturefnavopn, engin lífræn vopn, engin kjarnorkuvopn og engar bannaðar eldflaugar hafa fundist í Írak, hvorki í vopnaeftirliti Sameinuðu þjóðanna né eftir að Bandaríkjaher lagði landið undir sig. Það hefur sýnt sig einsog sagði á forsíðu breska, óháða stórblaðsins Independent fyrir viku, að leiðin að stríði var þakin lygum.
Gnægð gereyðingarvopna er hins vegar að finna í nálægu ríki, sem er skjólstæðingur Bandaríkjanna og hefur um leið ótrúlega mikil áhrif á utanríkis- og hernaðarstefnu ofurveldisins. Það er ríki sem ástundað hefur hernám á landi nágranna sinna lengur en nokkurt annað ríki í mannkynssögu síðari tíma og beitir grimmilegri kúgun en sögur far af. Og það er ríki sem lætur sér í léttu rúmi liggja ályktanir Sameinuðu þjóðanna og Öryggisráðsins. Ekkert ríki og enginn utanaðkomandi aðili mun hafa þrýst eins á að Bandaríkin réðust inn í Írak, eins og litla ríkið Ísrael sem er hernaðarlega öflugra en flest önnur í heiminum og hefur yfirburði yfir öll nágrannaríkin samanlögð. Stríðsæsingamennirnir sem þar ráða ríkjum, Sharon og Mofaz, eru nákomnir Bush og Rumsfield. "Öxull hins illa" heyrðist úr Hvíta húsinu. Þeir ku vera góðir speglarnir þar.
Það voru forsætis- og utanríkisráðherra sem skrifuðu upp á víxilinn fyrir Bandaríkjastjórn og drógu Ísland þannig inn í stríðsrekstur sem er á skjön við grundvallarreglur Sameinuðu þjóðanna og í andstöðu við yfirgnæfandi meirihluta íslensku þjóðarinnar. Það vill vel til að þjóðin hefur tækifæri til að draga þessa herramenn til ábyrgðar í kosningum eftir rétta viku,
Ég minnist þess frá einum útifundinum af mörgum sem haldinn var gegn stríðinu hér á Lækjartorgi, að ungur maður kom upp á svið eftir að dagskrá var lokið og rappaði nokkur vers af mikilli tilfinningu. Meðal annars hrópaði hann: Davíð – þú ert rekinn. Halldór – þú ert rekinn. Undirtektir voru öflugar. – Stríðsábyrgðin er brottrekstrarsök, þótt ekkert annað kæmi til. Tökum umdir með unga manninum: Rekum þá – rekum þá – rekum þá 10. maí!
Sveinn Rúnar Hauksson læknir, email: srhauks@isholf.is