VES ógnar ekki heldur styrkir NATO
Laugardaginn 17. október, 1992 – Mbl.
Willem van Eekelen framkvæmdastjóriVestur-Evrópusambandsins:
"VES ógnar ekki heldur styrkir NATO"
WILLEM van Eekelen, framkvæmdastjóri Vestur-Evrópusambandsins (VES), var staddur hér á landi í síðustu viku í boði Samtaka um vestræna samvinnu og hélt hann ræðu á fundi samtakanna á laugardag. VES var stofnað á sjötta áratugnum en lítið fór fyrir sambandinu, sem Þjóðverjar, Frakkar, Ítalir, Bretar og Benelux-ríkin eiga aðild að, fram til ársins 1984. Þá hittust utanríkis- og varnarmálaráðherrar VES-ríkjanna á fundi í Róm og ákváðu að samræma varnarstefnu ríkjanna. Það var svo samþykkt á fundi leiðtoga EB í Maastricht á síðasta ári að VES yrði hinn hernaðarlegi armur bandalagsins. Hefur þeim NATO-ríkjum, sem ekki eiga aðild að EB, verið boðin auka- eða áheyrnaraðild að sambandinu. Margir hafa vegna þróunarinnar litið á VES sem eins konar keppinaut við NATO. Van Eekelen leggur áherslu á að það megi ekki gerast. Hann hefur bæði verið utanríkisráðherra og Evrópuráðherra í hollensku ríkisstjórninni, og hefur því mikla reynslu af samskiptum við EB sem NATO. Hann segist vilja styrkja bæði bandalögin og að í þeirri afstöðu felist engin þversögn.
Þó að það hafi ekki verið formlegur tilgangur ferðar yðar til Íslands, áttuð þér viðræður við m.a. forsætisráðherra, utanríkisráðherra og formann utanríkisnefndar Alþingis, um hugsanlega aukaaðild Íslendinga að Vestur-Evrópusambandinu. Hver hafa viðbrögð þeirra við þessu boði verið?
Viðbrögð íslenskra ráðamanna hafa verið mjög jákvæð og það má segja að ferð mín hingað hafi verið mjög heppilega tímasett. Við stefnum nefnilega að því að ljúka viðræðum um þessi mál, þ.e. fulla aðild Grikkja, aukaaðild Íslendinga, Norðmanna og Tyrkja og áheyrnaraðild Íra og Dana, fyrir 20. nóvember en þá verður haldinn ráðherrafundur í Róm. Mér virðist á íslensku ríkisstjórninni sem hún telji mögulegt að ganga frá þessu máli fyrir þann tíma.
En hver er staðan varðandi önnur ríki, sem nú er rætt við um einhvers konar aðild að VES?
Danir eiga rétt á fullri aðild að VES, sem aðilar að EB, en ég býst frekar við að þeir muni kjósa áheyrnaraðild. Norðmenn og Tyrkir hafa mikinn áhuga á aukaaðild og Tyrkir hafa jafnvel lýst því yfir að þeir vilji fulla aðild. Hingað til höfum við hins vegar fylgt þeirri reglu að einungis EB-ríki geti fengið fulla aðild en NATO-ríki utan EB geti orðið aukaaðilar en tekið fullan þátt í starfi sambandsins. Vandamálið er að skilgreina hvað það þýði að taka fullan þátt í starfinu. Það er ekki vandamál hvað Íslendinga og Norðmenn varðar en við eigum enn eftir að reyna að koma betur til móts við Tyrkina.
Hversu mikilvægt er það fyrir VES að Íslendingar gerist aukaaðilar?
Það er fyrst og fremst mikilvægt vegna byggingu evrópsku stoðarinnar innan NATO. Það yrði mjög vandræðalegt ef innan bandalagsins væri að finna Bandaríkjamenn, Evrópuríki sem hefðu tengsl við VES og svo loks Evrópuríki sem hefðu ekki tengsl við VES. NATO samanstæði því annars vegar af bandarískri stoð og hins vegar af mjög sundurleytri evrópskri stoð. Auðvitað halda allir fullvalda stöðu sinni innan NATO en ef við gætum þróast í átt til þessa tveggja stoða kerfis þá væri það mjög jákvætt að mínu mati. Það væri gott fyrir VES og ekki síst NATO, því bandalagið væri þá búið að öðlast hlutverk að Kalda stríðinu loknu.
Hvernig útskýrið þér að alþjóðasamtök á borð við VES, sem um árabil hafa verið kölluð "samtök í dvala" eru allt í einu orðin að miðpunkti umræðna um evrópsk öryggismál?
Skýringin er að það var þörf fyrir VES. Sum ríki Evrópubandalagsins hefðu helst kosið að öryggis- og varnarmál yrðu hluti af Evrópusambandinu [hinum pólitíska samruna EB sem stefnt er að með Maastricht-samkomulaginu] þegar í stað. Það var hins vegar ekki framkvæmanlegt þar sem nokkur EB-ríki eru því andvíg og þurfti þar af leiðandi að finna lausn sem færi bil beggja. Þarna á VES vel við því sambandið hefur tengsl við NATO jafnt sem við EB.
En hvernig sjáið þér fyrir yður að þetta þróist áfram?
Því miður get ég ekki svarað því. Jafnvel Evrópusamband mun hafa þörf fyrir NATO. Hvernig hin evrópska stoð mun þróast, í ljósi þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Danmörku [þar sem Maastrichtsamkomulaginu var hafnað] og erfiðs ástands í t.d. Frakklandi og Bretlandi, get ég ekki sagt til um hver þróunin verður. Ég held þó að líkurnar á að mjög hröð skref verði stigin í átt til frekari samruna á þessu sviði, t.d. 1996 eins og stefnt var að með Maastricht, hafi minnkað. Aðlögunartímabilið verður líklega lengra en ég hefði spáð að það yrði fyrir ári síðan. Margir halda samt enn að VES verði einhvern tímann hluti af Evrópusambandinu, það er til dæmis stefna Frakka og Ítala. Eins og mál standa hinkrum við hins vegar við einhvers staðar á miðri leið.
Í augum margra er þessi styrking evrópsku stoðarinnar ógnun við NATO. Er það raunhæfur ótti að yðar mati?
Nei, þvert á móti held ég að NATO geti ekki lifað af án þess að evrópska stoðin verði styrkt. Þessi ótti er samt til staðar og var til skamms tíma áberandi meðal Bandaríkjamanna. Eftir leiðtogafund NATO í Róm í fyrra, þar sem sagt var að þörf væri á evrópskri öryggis- og varnarvitund, held ég að þeir hafi hins vegar sætt sig við þessa þróun. Ég tel því að styrking evrópsku stoðarinnar muni ekki veikja heldur styrkja NATO og gefa bandalaginu nýja vídd.
NATO verður áfram miðstöð hinna sameiginlegu varna. Rússland er ennþá öflugt kjarnorkuveldi og við höfum því þörf á Bandaríkjamönnum og NATO til að vega þar upp á móti. Innan VES munum við, að minnsta kosti næstu árin, einbeita okkur að málum á borð við neyðaraðstoð, friðargæslu og kreppustjórnun. Innan þessa ramma fellur einnig hlutverk hersveita í kreppustjórnun t.d. við að koma á friði. Íslendingar gætu æskt þess að taka þátt í einhverjum þessara aðgerða t.d. hjálparstarfinu eða neyðaraðstoð í kringum náttúruhamfarir, þið hafið mikla þekkingu á því sviði t.d. í gegnum almannavarnir. Ég útiloka heldur ekki að íslenskir eftirlitsmenn gætu gegnt einhverju hlutverki í tengslum við friðargæslu. Þetta eru allt svið sem NATO hefur ekki getað starfað á og má því segja að við séum að bæta við bandalagið.
En hvernig yrði samstarfinu við hina amerísku bandamenn innan NATO háttað ef evrópska stoðin innan VES réðist í einhverjar hernaðaraðgerðir utan samningssvæðis bandalagsins?
Við erum um þessar mundir að koma á laggirnar áætlanamiðstöð í Brussel, sem verður að fullu byrjuð að starfa á næsta ári. Þessi miðstöð á að gegna tvíþættu hlutverki. Hún á í fyrsta lagi að skilgreina aðgerðir af hálfu VES varðandi hjálparstarf, friðargæslu og kreppustjórnun og kanna hvað hvert aðildarríki sambandsins geti gert. Síðan verður kannað hvernig verður hægt að flytja sveitir á staðinn og hvernig samskiptum og stjórnun verður háttað. Hvað yfirstjórnina varðar gætum við stuðst við það kerfi sem þegar er til staðar innan NATO; það mál verður að kanna. Ég vil ekki byggja upp annað stjórnunarkerfi við hlið NATO og tel að þannig getum við slegið að miklu leyti á ótta Bandaríkjamanna. Á þenna hátt yrði NATO bandalag fyrir allan okkar herafla en VES fyrir ákveðnar hersveitir til að sinna afmörkuðum verkefnum.
Þetta yrði því mjög einfalt kerfi enda væri lítið vit í því að eyða miklu fé í að byggja upp tvær höfuðstöðvar.
Hvað með áframhaldandi veru bandarískra hermanna í Evrópu. Gæti þessi styrking Evrópustoðarinnar gert hana óþarfa?
Nei, alls ekki, því eins og ég minntist á áðan eru Bandaríkjamenn eina mögulega mótvægið við Rússa. Ekki það að ég telji líkur á einhverri spennu milli Rússa og Vestur-Evrópu en mótvægið verður að vera til staðar.
Þá gerir þetta tveggja stoða kerfi okkur einnig kleift að gera samkomulag milli þjóðanna sitt hvorum megin við Atlantshafið um verkaskiptingu. Við verðum að skilgreina hvað það er sem einungis Bandaríkjamenn geta gert og öfugt og gera síðan samning. Þessi samningur yrði skiljanlega fyrst og fremst pólitískur og ekki lagalega bindandi. Ég hef miklar áhyggjur af umræðunni í Bandaríkjunum þessa stundina sem snýst fyrst og fremst um tölur og fjölda hermanna. Það sem við verðum hins vegar nauðsynlega að ræða er hvert á að vera hlutverk þessara bandarísku hersveita.
Þetta er best að gera innan tveggja stoða kerfisins, þ.e. við skilgreinum hlutverk bandarísku stoðarinnar. Ég held að vera bandarískra hermanna í Evrópu sé í hættu og hef af því miklar áhyggjur. Evrópa er miklu öruggari með þeim en án þeirra. Fyrir því eru margar ástæður og athyglisvert að t.d. ríkisstjórnir Póllands, Tékkóslóvakíu og Ungverjalands líta á NATO sem forsendu áframhaldandi stöðugleika. Þetta er rétt mat en vandamálið er hvernig við getum tryggt áframhaldandi áhuga Bandaríkjamanna á Evrópu. Það verður einungis gert með þeim breytingum á bandalaginu sem ég hef áður nefnt. Rík og velmegandi Evrópa, sem ekki er reiðubúin að gera neitt á skipulegan hátt til að tryggja eigið öryggi, er ekki til þess fallin að viðhalda áhuga Bandaríkjamanna.
Þá má nefna Júgóslavíu sem dæmi um kreppu þar sem Bandaríkin eru ekki reiðubúin að gegna því forystuhlutverki sem þau hafa gert. Áður gátu við treyst á bandaríska forystu en í dag eru Bandaríkjamenn ekki eins áfjáðir í að gera allt fyrir alla.
Júgóslavía er einmitt oft nefnd sem dæmi um stöðu þar sem æskilegt hefði verið að grípa til hernaðaraðgerða af einhverju tagi. Verða aðgerðir af því tagi í verkahring VES í framtíðinni?
Já, og sem stendur eru herskip á okkar vegum og NATO stödd á Adríahafi. Það sem við erum að gera nægir hins vegar ekki og þegar fyrir einu og hálfu ári síðan var ég talsmaður þess að meira yrði gert. Júgóslavíumálið sýnir líka fram á nauðsyn þess að pólitísk samstaða sé á bak við hernaðarlegar lausnir. Áður snerust öryggismál fyrst og fremst um að tryggja varnir ef á mann yrði ráðist. Um það var auðvelt að ná samstöðu. Nú gæti málið hins vegar farið að snúast um að senda hersveitir til átakasvæða, sem snerta okkur ekki beint. Til að það sé hægt þarf pólitíska einingu.
Hvar sjáið þér fyrir yður helstu ógnirnar gagnvart öryggi Vestur-Evrópu í framtíðinni?
Ég held að það sé fyrst og fremst ójafnvægi sem geti leitt til átaka í framtíðinni. Það er líka áhyggjuefni að þau grundvallaratriði sem Evrópuþjóðir náðu saman um í Helsinki 1974 og 1975 eru nú virt að vettugi í Júgóslavíu. Ef við gerum ekkert til að verja þessi grundvallaratriði, með hervaldi ef nauðsynlegt er, munu þau fljótlega gleymast. Þá verður öll Evrópa í uppnámi.
Ég hef mestar áhyggjur af að átök breiðist út. Ég tel ekki æskilegt að við blöndum okkur inn í öll staðbundin átök en í Júgóslavíu t.d. held ég að það muni reynast nauðsynlegt. Þau byrjuðu í Króatíu, nú er barist í Bosníu, næst í Kosovo og Albanar, Grikkir, Búlgarar og Tyrkir munu senda hersveitir eða styðja beint við bakið á deiluaðilum. Þá verður þetta orðið að eins konar spænskri borgarastyrjöld og hætta á að allur Balkanskagi muni breytast í átakasvæði. Það eru okkar hagsmunir að reyna að koma í veg fyrir slíkt.
Ég sé hins vegar ekki fyrir mér hættu á árás á eitthvert VesturEvrópuríkjanna og því verður málið allt miklu flóknara. Við verðum að útskýra fyrir fólki af hverju við verðum að senda hermenn, sem margir munu láta lífið, alla leið til Júgóslavíu. Þess vegna þarf pólitíska samstöðu. Hún þarf ekki alltaf að vera innan tiltekins hóps. Stundum kann hún að vera innan NATO, stundum innan EB, stundum innan VES. Það fer eftir aðstæðum hverjum sinni og ekki síst hvað Bandaríkjamenn eru reiðubúnir að gera. Og jafnvel þótt við innan VES grípum til aðgerða án Bandaríkjamanna vona ég að þeir muni styðja okkur beint og óbeint með þekkingu sinni og tæknibúnaði.
Viðtal: Steingrímur Sigurgeirsson
Morgunblaðið/Kristinn
Willem van Eekelen