VII. Annað leyndarbréfið
VII. Annað leyndarbréfið
Ljós í myrkri
Viðbrigðin við að koma úr birtu Ítalíu í drungalega þögn og viðbragðaleysi íslenska réttarkerfisins og fjölmiðlanna voru talsverð. Með þögninni var Hæstiréttur væntanlega enn að ætlast til þess að Lögmannafélag Íslands upplýsti um fyrsta og ódagsetta leyndarbréfið. En kafla úr þessu sama bréfi hafði Hæstiréttur engu að síður tekið upp í dóm sinn 29. mars 1994.
Enginn héraðsdómstólanna átta hafði látið mig fá staðfest endurrit af fyrsta og ódagsetta leyndarbréfinu, sem varðaði mig sjálfan persónulega, og höfðu þó flestir staðfest móttöku sína á bréfinu og jafnframt nokkrir upplýst að þeir hefðu dreift bréfinu til löglærðra starfsmanna sinna. Sumir fjölmiðlar höfðu birt fréttir um það, en fylgdu því ekki eftir með því að spyrja opinbera starfsmenn, sem málinu gátu tengst eða voru líklegir til að láta það sig varða. Þögn opinberra aðila og aðgerðaleysi vegna staðfests leyndarbréfs Hæstaréttar Íslands var þó aðalfréttaefnið.
Aðrir fjölmiðlar nefndu málið ekki.
Þá gerist nokkuð, sem ég var nánast hættur að búast við. Héraðsdómur Vestfjarða svarar erindi mínu skilmerkilega með bréfi til mín, dags. 6. apríl 1994, og sendir staðfest endurrit af fyrsta og ódagsetta leyndarbréfinu, en einnig af öðru leyndarbréfi forseta Hæstaréttar, dags. 28. febrúar 1994, til Lögmannafélags Íslands. Listar yfir lögmenn og fleiri listar, sem fylgdu fyrsta og ódagsetta leyndarbréfinu frá Lögmannafélaginu fylgdu þó ekki með frá Héraðsdómi Vestfjarða. Áratuga skrápur minn sem lögmanns gagnvart dómum og öðrum skjölum dómstóla hefur sennilega haft talsvert meiri áhrif en ég gerði mér grein fyrir og hafði ég þó talsvert rýnt í dómskjöl og látið mig efni þeirra miklu skipta. Bréfið frá Héraðsdómi Vestfjarða var óvænt og kærkomið. Svo kært að ég undraðist.
Opinber íslenskur dómstóll hafði svarað mér skýrt og skilmerkilega og staðfest móttöku sína á leyndarbréfum frá Hæstarétti Íslands. Aðrir opinberir íslenskir dómstólar, sem hefðu fengið sambærileg eða lík leyndarskjöl, sem vörðuðu mig, yrðu í ljósi þess að rökstyðja hvers vegna þeir sinntu ekki óskum mínum um að afhenda mér skjölin. En var leyndarbréfamálið þá ekki loksins leyst? Var nauðsynlegt að fá hugsanlega sama leyndarbréfið staðfest frá öllum héraðsdómstólunum? Þegar um leyndarskjöl er að ræða og sá sem sendir vill ekki staðfesta þau, geta menn ekki verið vissir um að um sömu leyndarskjölin sé að ræða, nema athuga þau og staðreyna hjá öllum sem hafa fengið þau.
Í afhendingu Héraðsdóms Vestfjarða á leyndarskjölum hans til skýrsluhöfundar, fólst að því er ég taldi, yfirlýsing um að viðkomandi dómstóll mundi ekki halda öðrum skjölum leyndum gagnvart þeim sem það varðaði. En það var forsenda þess að unnt væri að fjalla um og meta slík skjöl eðlilega í dómstólnum. Því miður var ekki unnt að álykta á sama veg um hina héraðsdómstólana, vegna þess að þeir héldu skjölunum leyndum.
En bréf Héraðsdóms Vestfjarða frá 6. apríl 1994 var vissulega ljós í myrkri.
Birting annars leyndarbréfsins
Hér verður fjallað um bréf forseta Hæstaréttar Islands, dags. 28. febrúar 1994, til Lögmannafélags Íslands sem annað leyndarbréf Hæstaréttar, vegna þess að það var annað í röð þriggja leyndarbréfa sem skýrsluhöfundur hefur fengið í hendur og tengjast Hæstarétti. Það er ritað á bréfhaus forseta Hæstaréttar og undirritað af honum. Bréfið fjallar auk annars um meinta stjórnsýslu Hæstaréttar, en hún er undir yfirstjórn forseta Réttarins og á hans ábyrgð eins og segir í öðru leyndarbréfinu sem er birt á bls. 133.
Í lok annars leyndarbréfsins segir:
- "Bréf þetta er öllum lögmönnum heimilt að lesa mín vegna. Hins vegar vona ég að það eða ljósrit af því verði ekki afhent út af skrifstofu félagsins. Þá er það alls ekki til birtingar í fjölmiðlum."
Þótt forseti Hæstaréttar Íslands láti í ljós að honum sé ekki að skapi að bréfið sé birt opinberlega, tel ég óhjákvæmilegt að gera það. Bréfið varðar skýrsluhöfund sjálfan að hluta og ritun þess í nafni forseta Hæstaréttar Íslands virðist ekki geta byggst á embættislegum gögnum eða með vísun til laga um Hæstarétt Íslands eða annarra laga. Raunar felst í því gróf mismunum gagnvart lögmönnum og alvarleg misnotkun og lögbrot gagnvart embætti forseta Hæstaréttar Íslands. Með vísun til þess og sem liður í upplýsingu og leiðréttingu lögbrota telur skýrsluhöfundur nauðsynlegt að birta bréfið.
Athugasemdir við annað leyndarbréfið
Tilefni til athugasemda við efni annars leyndarbréfsins eru mörg og örfá skulu nefnd.
Athygli vekur fremst í bréfinu, þar sem forseti Hæstaréttar Íslands segir:
- "Af þessu tilefni þykir mér rétt að ítreka sumt af því sem áður hefur komið fram í samtölum mínum við formann og framkvæmdastjóra Lögmannafélagsins."
Í framhaldi af staðhæfingu forseta Hæstaréttar Íslands, þess efnis að skýrsluhöfundur og Jón Oddsson hrl., hafi sent öllum fjölmiðlum fyrsta og ódagsetta leyndarbréfið og komið fram sem heimildarmenn að furðulegustu fréttum um málið í DV og Stöð 2 segir í bréfinu:
- "Mér þykir þetta mjög miður eins og stjórn félagsins er kunnugt og ég og formaður félagsins reyndum með öllum ráðum að koma í veg fyrir að samantektin yrði birt. Samantekt þessi var svo sem hún ber með sér aldrei ætluð til opinberrar birtingar, enda á hún ekkert erindi nema við lögmenn og dómara."
Tvískinningur forseta Hæstaréttar er hér greinilegur. Í öðru leyndarbréfinu segir að samantektin með fyrsta og ódagsetta leyndarbréfinu hafi átt erindi við lögmenn, auk dómara og í þakkarbréfinu á bls. 124 er skýrsluhöfundi vísað til Lögmannafélagsins til að fá upplýsingar um ódagsetta leyndarbréfið. En síðan segist forseti Hæstaréttar hafa ásamt formanni Lögmannafélagsins gert allt sem hann gat til að koma í veg fyrir að samantektin yrði birt.
Og hvaða ástæður geta réttlætt að Hæstiréttur Íslands sé að halda málum leyndum gagnvart öðrum en lögmönnum og dómurum? Er það ekki einmitt almenningur sem á allan rétt á upplýsingum? Og á hvaða lagaákvæðum og embættisgögnum er það byggt?
Forseti Hæstaréttar Íslands svarar þessum spurningum að nokkru síðar í bréfinu, en þar segir:
- "1. Gögnin og samantektin voru ykkur send af mér sem stjórnanda réttarins og eðlilega í hans nafni. Samantekt þessi er ekki eiginlegt bréf. Athugunarefnin sem fram koma eru mínar persónulegu hugleiðingar og ykkur sendar í framhaldi af ávarpi mínu á fyrsta yfirfærsludegi þessa árs."
Hér virðist tilurð ódagsetta leyndarbréfsins önnur en fram kom í fyrsta og ódagsetta leyndarbréfinu og í þakkarbréfinu. Ódagsetta leyndarbréfið er ekki lengur eða að minnsta kosti ekki að öllu leyti bréf Hæstaréttar Íslands þótt það hafi verið móttekið sem slíkt af flestum héraðsdómstólunum. Heldur felast í því persónulegar hugleiðingar forseta Hæstaréttar. Aðrar yfirlýsingar í öðru leyndarbréfinu hníga í sömu átt.
En mest kom á óvart sú yfirlýsing forsetans, að "Fáir dómarar hafa haft meira samráð og samstarf við lögmenn síðari árin en ég." Skýrsluhöfundi var ekki kunnugt um þetta samráð og samstarf forseta Hæstaréttar Íslands við einstaka lögmenn. Ég hef að fyrra bragði leitast við að trufla dómara sem minnst og talið að það væri í bestu samræmi við eðli lögmanns- og dómarastarfsins. Og tel mig ekki hafa tekið þátt í nokkru samráði eða samstarfi við einstaka hæstaréttardómara, heldur aðeins ætlað og átt skipti við Hæstarétt Íslands sem sjálfstæðan, óhlutdrægan dómstól.
Enn segir í öðru leyndarbréfi forseta Hæstaréttar Íslands: "4. Þótt hrapalega hafi tiltekist vegna frumhlaups fyrrgreindra lögmanna vona ég að þetta skapi ekki langvarandi örðugleika í samstarfi stjórnar Hæstaréttar og lögmanna." Fyrrgreindir lögmenn eru Tómas Gunnarsson og Jón Oddsson.
Ég met þessi ummæli forsetans þannig að í þeim felist hryggð hans yfir því hvernig til hefur tekist, þótt hann kenni tveimur lögmönnum alfarið um.