XI. Hæstiréttur lokar hringnum
XI. Hæstiréttur lokar hringnum
Málflutningur Jóhönnu
Í kaflanum “Dómar Hæstaréttar og áhrif” hér að framan, á bls. 54 er vikið að atriðum, sem skýrsluhöfundi þóttu sæta tíðindum og athugasemdir raktar við fyrri dóma Hæstaréttar 29. mars 1994. Eins og áður er fram komið reyndist dómurinn mér afdrifarlcur því að hann leiddi til þess að ég ákvað að hætta málflutningi fyrir Hæstarétti að minnsta kosti um sinn. Átti ég þá ekki von á, að kröfur mínar og viðhorf yrðu fljótlega til sérstakrar umfjöllunar í dómsmáli fyrir Réttinum. Enginn lögmaður hætti hagsmunum með því að vísa til leyndarskjalamálsins. En það breyttist.
Síðdegis sumardaginn fyrsta, 21. apríl, þegar ég hafði samið og sent kæru mína til Ríkissaksóknara og fleiri, hafði viðskiptamaður minn, Jóhanna Tryggvadóttir, samband við mig út af máli eiginmanns hennar, Jónasar Bjarnasonar læknis, sem hún hafði sjálf kært til Hæstaréttar. Jónas átti í ágreiningi við Ríkisútvarpið – Sjónvarp, út af nauðungarsölu fasteignar. Sumardaginn fyrsta 1994 var staða þess máls sú, að Jóhanna ráðgerði að ljúka gerð kæruskjala til Hæstaréttar og hringdi hún í mig út af því. Ég sagði Jóhönnu að ég væri hættur málflutningi fyrir Hæstarétti og hefði raunar þennan sama dag verið að senda kæru til Ríkissaksóknara og tleiri, vegna meintra lögbrota við skipan og störf Réttarins. Ég væri því ekki rétti maðurinn til að gefa ráð um rekstur máls fyrir Hæstarétti. Jóhanna spurði mig nánar um þessi kærugögn og hvort hún gæti fengið eintak af þeim, sem var auðsótt.
Við framlagningu skjala og samningu greinargerðar í hæstaréttarmáli Jónasar læknis, nr. 172/1994, gerði Jóhanna sér lítið fyrir og lagði fram í Hæstarétti, auk annarra skjala, bókun mína sem ég ráðgerði að leggja fram í Skúmsmálinu í Héraðsdómi Reykjavíkur, endurrit þinghalds Héraðsdómsins í því máli frá 20. apríl 1994, afrit af bréfi mínu til dómsmálaráðherra, dags. 21. apríl 1994, og afrit af kæru minni til Ríkissaksóknara og fleiri, dags. 21. apríl 1994, sem merkt voru sem skjöl D, E, F og G. Og í greinargerð Jóhönnu, dagsettri 21. apríl 1994, stóð:
- "Meðan ekki liggur fyrir niðurstöður úr opinberri rannsókn á skipan og starfsháttum Hæstaréttar, sbr. réttarskjal - G - er krafist að Hæstiréttur taki mál þetta ekki til umfjöllunar eða dóms."
Hér var djarflega að verki staðið, en það var áhugavert að sjá hvernig Hæstiréttur fjallaði um svo alvarleg kæruatriði, sem beindust að Réttinum sjálfum og dómurum við hann.
Dómur Hæstaréttar 29. apríl 1994
I dómi Hæstaréttar 29. apríl 1994 í málinu nr. 172/1994 er ekki greint frá efni kæruskjala nema feitletraða kaflanum hér að ofan en síðar í dómi Hæstaréttar segir:
- "Dómskjal G, sem sóknaraðili vísar til í kröfugerð sinni, er máli þessu óviðkomandi og eru engin efni til að sinna kröfu sóknaraðila vegna þess."
Og í lok dómsforsendna Hæstaréttar segir:
- "Kæra máls þessa er með öllu ófyrirsynju. Meginhluti þeirra gagna og málsástæðna, sem sóknaraðili ber fyrir sig, varðar í engu það mál, sem hér er til úrlausnar. Er þessi málatilbúnaður stórlega vítaverður."
Samkvæmt þessum dómi Hæstaréttar er krafa um opinbera rannsókn á skipan og starfsháttum Hæstaréttar óviðkomandi þeim sem leggja mál fyrir Réttinn og það þarf ekki einu sinni að rekja þau atriði sem talin voru tilefni til opinberrar rannsóknar, hvað þá heldur að fjalla um þau og hrekja þau.
Auðvitað var þetta kjörið tilefni fyrir dómstól, sem var vandur að virðingu sinni, að leggja fram skjöl og mótmæla efnislega ásökunum sem að honum var beint. Og auðvitað á dómstóll ekki að þola lögmanni að hafa uppi rangar ásakanir á hendur Hæstarétti Íslands eða dómendum við Réttinn. Undir öllum kringumstæðum hefði Hæstiréttur átt að taka undir kröfu skýrsluhöfundar um opinbera rannsókn. Honum bar skylda til þess að enginn vafi væri á því að skipan og starfshættir Hæstaréttar væru í alla staði löglegir. Ásakanir þar um varð að taka alvarlega. Dómurum Hæstaréttar Íslands var skylt að gæta virðingar Réttarins og það á ekki að líða nokkrum manni, hvorki lögmanni eða öðrum, að bera Hæstarétt Íslands eða dómendur eða aðra starfsmenn þar röngum sökum. Miðað við að mál Hæstaréttar hefðu verið í lagi, hefði krafan um opinbera rannsókn átt að leiða til ákæru á hendur lögmanninum og refsingar hans.
Þar sem Ríkissaksóknaraembættið, hafði ekki hinn 29. apríl 1994 og hefur raunar ekki enn, 20. okt. 1994, svarað kæru skýrsluhöfundar frá 21. apríl 1994, til dæmis á þann veg að það teldi ekki tilefni til aðgerða, var rangt að taka mál Jónasar læknis eða nokkur önnur mál til dóms. Ástæða er til að benda á, að Hæstiréttur Íslands hefur lengi gert strangar kröfur um hæfi dómara og gert dómurum að víkja sæti við minnstu möguleika á hagsmunaárekstri.
Þá er á það bent, að málflytjandinn í þessu tilviki, Jóhanna Tryggvadóttir er ekki löglærð, en það dregur ekki úr skyldum Hæstaréttar til að fjalla efnislega um kröfur hennar, gögn og málsástæður. Hæfi dómara og dómstóls til að fjalla um mál er samkvæmt meginviðhorfum í réttarríkjum ætíð, ef einhver tilefni eru til, meðal viðfangsefna dóms.
Með dómnum í hæstaréttarmálinu nr. 172/1994 lokuðu dómendur Hæstaréttar Íslands hringnum. Í nafni Hæstaréttar Íslands höfðu verið skrifuð leyndarbréf sem fólu í sér gróf og ólögmæt afskipti af héraðsdómstólunum sem eiga að vera sjálfstæðir og óhlutdrægir í störfum sínum. Þegar leitað var til Hæstaréttar og einstakra dómara um skýringar og forsendur fyrir leyndarbréfunum er fyrst vísað til Lögmannafélags Íslands, en síðan er þagað og engin svör fengust frá Hæstarétti, önnur en þau takmörkuðu óbeinu svör sem fólust í dómum Réttarins frá 29. mars 1994. Og Lögmannafélagið gat engin svör gefið.
Eftir að þessir starfshættir Hæstaréttar og önnur atriði hafa verið kærð til Ríkissaksóknara og kæruskjölin lögð fram í dómsmáli fyrir Hæstarétti, taka þeir dómendur sem þagað hafa, sig til og dæma að kæruefnin séu dómsmálum Réttarins óviðkomandi. Og það gera þeir án þess fyrir liggi svar Ríkissaksóknara við kæruatriðum.
Dómur Haestaréttar 18. maí 1994
Eftir dóm Hæstaréttar í málinu nr. 172/1994 leið ekki á löngu uns Jóhanna Tryggvadóttir þurfti aftur að leggja mál fyrir Hæstarétt Íslands. Hún og eiginmaður hennar áttu óuppgerð mál við bankastofnun, sem varðaði kr. 2.000.000,- kröfu, auk vaxta og kostnaðar, sem kom til kasta Hæstaréttar Íslands sem mál nr. 185/1994, en dómur var felldur í því 18. maí 1994. Jóhanna mun aftur hafa lagt fyrir Hæstarétt kæruskjöl skýrsluhöfundar til Ríkissaksóknara og fleiri, og krafist að ekki yrði fjallað um mál hennar þar fyrr en kæruatriðin hefðu fengið formlega umfjöllun.
Í dómi Hæstaréttar segir:
- "Sóknaraðilar tilgreina þær ástæður fyrir kæru sinni,'að Héraðsdómur Reykjaness starfar ekki eins og sjálfstæður óhlutdrægur dómstóll, sem vinnur að því að upplýsa málið, heldur hindrar hann upplýsingu málsins.' Sóknaraðilar hafa engin haldbær rök fært fram fyrir þessum áburði sínum. Þá bera sóknaraðilar því við, að héraðsdómari hafi ekki gefið þeim tækifæri til að sýna fram á, að 'víxill, sem notaður er sem grundvöllur að kröfum í málinu sé falsaður að því er varðar útgáfudag, gjalddaga og fjárhæð.'"
Síðar segir í dómi Hæstaréttar:
- "Önnur atriði í málflutningi þeirra, er varða Hæstarétt, eru málinu óviðkomandi. Er allur þessi málatilbúnaður stórlega vítaverður."
Þá er sérstakur kafli í dómnum, II. kafli:
- "Það er ljóst, að það er ekki á færi Jóhönnu Tryggvadóttur, sem flutt hefur þetta mál og önnur að undanförnu, að reka mál þannig fyrir dómstólum, að viðunandi sé, sbr. dóma Hæstaréttar 24. nóvember 1993 og 29. apríl 1994. Héraðsdómara í þessu máli er rétt að taka afstöðu til þess, hvort neyta beri úrræða 6. mgr. 17. gr. laga nr. 91/1991."
Síðan kom dómsorð Hæstaréttar þar sem kveðið var á um að hinn kærði úrskurður væri staðfestur og sóknaraðilar skyldu greiða varnaraðila kærumálskostnað.
Dómur í þessu máli nr. 185/ 1994 er rakinn hér til að sýna hversu hrikalegar ógöngur dómstóll getur komist í þegar hann gætir ekki að grundvallaratriðum við skipan sína og starfshætti. Því hér rekst allt hvað á annað. Skulu nokkur atriði nefnd og aftur minnt á að Jóhanna Tryggvadóttir er ekki löglærð.
1. Hæstiréttur kemst að þeirri niðustöðu í forsendum sínum að Jóhanna Tryggvadóttir sé ekki hæf til að reka mál fyrir dómstólum svo viðunandi sé. Þessi niðurstaða var fengin í máli sem Hæstiréttur taldi liggja það ljóst fyrir að forsvaranlegt var að dæma í því. Þá var ekki kunnugt um nokkur gögn, sem lögð höfðu verið fram í málinu, sem vörðuðu hæfi Jóhönnu og var ekki vitað til að óskað hefði verið eftir nokkrum slíkum gögnum, eða Jóhönnu bent á að skynsamlegt væri fyrir hana að afla þeirra. En hafi þessi fullyrðing verið rétt hjá Hæstarétti bar Réttinum að kynna Jóhönnu þessi viðhorf sín, fá gögn um þau og athuga þau og gefa henni og umbjóðanda hennar tækifæri á að fá nýjan málflytjanda. Ekkert af þessu gerði Hæstiréttur í þessu tilviki.
2. Rökin fyrir meintu vanhæfi Jóhönnu sem Hæstiréttur notar 18. maí 1994 í málinu nr. 185/ 1994 er að vísa í fjögur önnur mál sem Hæstiréttur hafði áður dæmt í. Þar af voru þrjú mál höfðuð af löggiltum endurskoðanda Jóhönnu á hendur Jóhönnu og hafði henni verið gert að flytja öll málin munnlega fyrir Hæstarétti á einum og sama morgninum. Við uppkvaðningu dóma Hæstaréttar í þeim málum og málinu nr. 172/1994 var hvergi vikið að hæfi Jóhönnu til að flytja mál og niðurstöður Hæstaréttar í þeim málum gáfu ekki annað til kynna en Hæstiréttur hefði talið málin nægjanlega vel flutt til að unnt væri að dæma í þeim.
Minnist ég þess ekki að gamlir dómar Hæstaréttar eða nokkurs annars dómstóls hafi verið misnotaðir svo herfilega sem þessir gömlu dómar voru notaðir í málinu nr. 185/1994. Fólst í því mikill áfellisdómur yfir störfum þeirra sem kváðu eldri dómana upp.
3. Rökrétt afleiðing af fullyrðingu Hæstaréttar um meint vanhæfi Jóhönnu var að kveða ekki upp dóm í því eftir flutning hennar. Og það var ekki tilefni fyrir Hæstarétt að gefa héraðsdómara í Reykjanesi ráð um dómstörf, úr því að Hæstiréttur taldi sig ekki þurfa að athuga málið sjálfur. Enda fór svo að Héraðsdómur Reykjaness sinnti ekki ábendingu Hæstaréttar að nokkru þegar Jóhanna, viku síðar, tók til varna í málflutningi bankastofnunarinnar gegn Jóhönnu og eiginmanni hennar.
En Hæstiréttur gerði annað með athugasemdum sínum um hæfi Jóhönnu Tryggvadóttur í málinu nr. 185/1994. Hann setti hana á stall, nokkurs konar heiðursstall ólöglærðra Íslendinga, sem hafa verið taldir svo gjörsamlega vanhæfir til að flytja mál sín fyrir Hæstarétti Íslands að það hefur ekki einu sinni þurft að fjalla um það, hvað þá að leggja fram nokkur skjöl þar um. Fyrsti maður á þessum heiðurstalli sem ég veit um er Þorgeir Þorgeirson rithöfundur. Og afleiðingin af synjun Hæstaréttar á því að Þorgeir fengi að flytja mál sitt sjálfur þar, varð síðar sú að hann tók þátt í flutningi og hafði sigur í fyrsta málinu sem flutt var fyrir Mannréttindadómstóli Evrópuráðsins í Strassborg og varðaði Ísland.
Stóri dómurinn
Laugardagur um miðjan maí var verslunardagur fjölskyldunnar. Ys og þys var í fatabúðinni í Kringlunni. Þar rekst ég á gamlan kunningja, utanbæjarmann, sem ég hafði sem unglingur í sveit verið í vist með. Við höfðum haldið sambandi, slitróttu að vísu, og hann hafði nokkru fyrr leitað til mín út af máli sem tengdist atvinnu hans sem sjálfstætt starfandi manns. Einkum til að upplýsa um stöðu mína sem lögmanns hafði ég sent honum leyndarbréf Hæstaréttar og gögn um kærumálin og sagt að ég væri ekki lengur í þeirri venjulegu stöðu lögmanns sem ég áður hafði verið.
Fljótlega eftir að við hittumst, spurði ég hvort hann hefði fengið gögnin sem ég sendi. Hann játti því. “Ertu búinn að líta yfir þau?” Og aftur játti félagi minn. “Hvað fannst þér um þau?” Félagi minn þagði við og ég spurði: “Fundust þér þau ekki dálítið svakaleg?” “Ja, þú ert í sama ruglinu og flestir aðrir.”
Á augabragði hugleiddi ég mál félaga míns, sem var ferilsmál á þann hátt að ekki var tekist á um eitt einangrað ágreiningsefni eða tvö, heldur um alllangan feril, þar sem ágreinings- og álitaefnin voru mörg.