XIII. Ritskoðun Morgunblaðsins
XIII. Ritskoðun Morgunblaðsins
Birting stöðvuð
Upplýsingarnar fyrirferðarlitlu í þriðja leyndarbréfinu: "Afrit Dómsmálaráðuneytið", settu leyndarbréfamálið í allt aðra stöðu en það áður hafði verið í eins og fyrr er rakið. Skýrsluhöfundur hefur eins og áður er fram komið talið að þessi litla athugasemd um afritið til Dómsmálaráðuneytisins feli í sér að dómsmálaráðherrann hafi sjálfur vitað strax, 22. febrúar 1994, að forseti Hæstaréttar var að skrifa leyndarbréf, að minnsta kosti þetta sem fór í afriti til Ráðuneytisins. Einnig virðist sem ráðherrann hafi vitað um fyrsta og ódagsetta leyndarbréfið, sem breiða átti yfir. Ef til vill hafði dómsmálaráðherrann frá upphafi verið upplýstur um aðgerðir forseta Hæstaréttar. Var dómsmálaráðherrann jafnvel að einhverju leyti hvatamaður að ritun leyndarbréfanna?
Þessar upplýsingar breyttu alla vega mjög stöðu manna í leyndarbréfamálinu. Forseti Hæstaréttar var ekki lengur aðalmaður leyndarbréfamálsins. Dómsmálaráðherrann, sem hafði tök á að hnekkja valdi, stöðu og meintum ólögmætum aðgerðum forseta Hæstaréttar, samanber tvö brottvikningarmál hæstaréttardómara, hlaut hér eftir að teljast aðalmaður leyndarbréfamálsins. Nú varð ljóst hvers vegna enginn meðdómenda Hrafns Bragasonar í Hæstarétti treysti sér til að upplýsa mál og enginn dómstjóra héraðsdómstólanna að undanskildum Héraðsdómi Vestfjarða. Sama á við Lagadeild Háskólans og fleiri opinbera aðila.
Nú varð einnig skiljanlegt hvers vegna stjórn Lögmannafélags Íslands þagði og hélt skjölum leyndum fyrir lögmönnum. Henni var væntanlega ljóst við hvern var að eiga. Fjölmiðlarnir, sem háðir voru tjárveitingum, viðskiptum eða jafnvel sérleyfum ríkisvaldsins urðu líka að fara varlega hagsmuna sinna vegna. Fjölmiðlar gátu ekki gengið hart eftir svörum um leyndarbréfamálið, til dæmis hjá dómsmálaráðherranum. Í þessu máli urðu menn að sitja og standa eins og miðstjórnin, forysta allsherjarvaldsins, það er ríkisstjórnin með meiri hluta Alþingis, kvað á um. Átti einhver lögmaður úti í bæ að fara að riðla þessu öllu? Eða voru þetta bara loftkastalar lögmannsins?
úr þessu varð að fá skorið ef mögulegt var og því ritaði ég dómsmálaráðherranum opið bréf, dags. 21. maí 1994, sem ég óskaði eftir að Morgunblaðið birti þann sama dag.
Mér var mikið í mun að bréfið birtist í Morgunblaðinu fyrir sjómannadaginn 5. júní og Stefán Friðbjarnarson, starfsmaður Morgunblaðsins, upplýsti mig mánudaginn 30. maí að bréfið yrði birt þá í vikunni. En síðdegis miðvikudaginn 1. júní hringdi Björn Jóhannsson, annar starfsmaður Morgunblaðsins til mín út af opna bréfinu. Hann sagði mér að ritstjórn Morgunblaðsins mundi ekki birta bréf mitt óbreytt í blaðinu. Það væru tvö atriði í bréfinu sem Morgunblaðið sætti sig ekki við. Annað varðaði mægðir dómsmálaráðherrans, þar sem nefnt var að ein mágkona ráðherrans væri formaður útvarpsráðs, en önnur mágkona hans væri stjórnarmaður í Lögmannafélaginu. Ég sagði Birni að ég teldi þetta rétt. Björn mótmælti því ekki, en sagði að Morgunblaðið teldi að í þessu orðalagi gætu falist óviðeigandi ummæli. Hitt atriðið varðaði það að dómsmálaráðherrann hefði eitt sinn verið starfsmaður Morgunblaðsins. Ég taldi svo hafa verið. Björn staðfesti það en tók fram að það breytti engu um ritstjórnarstefnu blaðsins.
Upplýsingar Björns komu mér á óvart. Ég hafði á liðnum árunum skrifað sennilega yfir tug greina í Morgunblaðið og ekki allar með viðteknum viðhorfum. En aldrei hafði Morgunblaðið farið svona illa út af sporinu að þyldi ekki það sem var satt og rétt. Afstaða Björns var ákveðin og aðspurður áréttaði Björn, að hann teldi að blaðið mundi birta greinina, ef þessum tveimur atriðum yrði breytt.
Mér var í fyrstu gróflega misboðið, en í aðra röndina varð ég feginn. Ég hafði loksins fengið greinileg viðbrögð. Nú skildi ég betur hvar Morgunblaðið stóð og hafði staðið síðan þetta leyndarbréfamál kom upp. Það hafði enga frétt birt af leyndarbréfamálinu svo ég vissi. Og ég áttaði mig einnig á því hver viðkvæmi aðilinn var í málinu og hve lítið mátti blaka við dómsmálaráðherranum.
Nú var enn brýnna að fá opna bréfið birt fyrir sjómannadag.
Hálftíma seinna hringdi ég í Björn Jóhannsson og bar undir hann nýja útgáfu af greininni þar sem sleppt var þeim atriðum sem Björn hafði nefnt. Björn sagðist ekki sjá annað en að þetta ætti að geta gengið, en nefndi að Morgunblaðið hefði ekki gert athugasemdir við þá fullyrðingu mína að Þorsteinn Pálsson hefði verið ritstjóri Vísis. Ég sagði Birni að ég vildi sjálfur sleppa því atriði, úr því tengsl Þorsteins við Morgunblaðið féllu út.
Að lokum ráðlagði Björn mér að láta þessu nýja opna bréfi fylgja skriflegt erindi til annars hvors af ritstjórum Morgunblaðsins, til að stuðla enn frekar að birtingu fyrir sjómannadag. Og þrátt fyrir langa samleið okkar Styrmis Gunnarssonar, ritstjóra og lögfræðings, í skólum, meðal annars í Lagadeild Háskólans, beindi ég erindi mínu til skáldsins og fagurkerans Matthíasar Jóhannessen ritstjóra. Hann hefur látið sig varða tjáningarfrelsi í Austur – Evrópu.
Ný skipan Sólkerfisins
Þegar ég ritaði opna bréfið til dómsmálaráðherra, sem birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 4. júní 1994, var ýmislegt sem gaf til kynna að staða Hæstaréttar Íslands og margra stofnana réttarkerfisins svo og aðferðir væru allt aðrar en áður hafði verið talið. Og ekki hafa svör dómsmálaráðherrans við opna bréfinu í Morgunblaðinu breytt þeim ályktunum. Hann hefur engu svarað.
Þessi nýja staða og nýju aðferðir virðist vera staðfest af Hæstarétti Íslands sjálfum, héraðsdómstólunum, öðrum er Héraðsdómi Vestfjarða, og dómsmálaráðherra. Hún felur ekki aðeins í sér að Hæstarétti virðist leyfilegt að skrifa leyndarbréf án þess að láta í té afrit af þeim, að svara fyrir þau og greina frá forsendum þeirra, til dæmis lagalegum og að því er varðar staðreyndir.
Í henni felst einnig að dómarar Hæstaréttar Íslands taka sér löggjafarvald með því að gefa út tilskipun þann 23. júlí 1992, en hún þrengir mjög heimildir héraðsdómslögmanna til að kæra mál til Hæstaréttar. Hún felur einnig í sér, að héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjavíkur, sem jafnframt er formaður Dómarafélagsins, lætur hjá líða að lesa skjöl yfir áður en hann hafnar þeim sem dómskjölum, enda varða skjölin varaformann Dómarafélagsins, sem jafnframt er forseti Hæstaréttar. Þessi nýja staða hefur jafnvel áhrif í stjórnmálunum. Í stað þess að stjórnmálamenn vilji almennt tala og svara