XIV. Niðurstöður
XIV. Niðurstöður
Svar útvarpsstjóra
Mögulegt er að draga ýmsar ályktanir af leyndarskjölunum og viðbrögðum opinberra aðila við þeim, sem lýst er í skýrslunni. Skýrsluhöfundur hefur jafnan litið svo á að réttarkerfið hefði síðustu orðin í öllum málum. En fjölmiðlarnir, helstu upplýsingagjafar þjóðarinnar, eru mikilvægari en ég hef talið og það reynir meira á þá, sérstaklega eftir að réttarkerfið lokaðist að því er varðar afgreiðslur eigin mála eins og leyndarbréfamála. Ríkisútvarpið er ein örfárra opinberra stofnana sem hafa svarað fyrirspurnum mínum um leyndarbréfamálið. Heimir Steinsson, útvarpsstjóri, gerði það með bréfi sínu til mín, dagsettu 14. júlí 1994 og lét fylgja með ljósrit af bréfi sínu til forseta Hæstaréttar, dagsettu 7. mars 1994. Afrit af því bréfi voru send Lögmannafélagi Íslands og Dómsmálaráðuneytinu. Bréfið frá 7. mars 1994 er birt á bls. 143.
Athygli vekur að útvarpsráð svarar ekki þriðja leyndarbréfinu, sem tengt er Hæstarétti Íslands og stílað var til útvarpsráðs en samt var bréfið lesið upp á fundi útvarpsráðsins 25. febrúar 1994. Virðist svo sem enginn hinna sjö útvarpsráðsmanna hafi talið tilefni til að hafa þau afskipti af málinu að tryggja formlega og efnislega afgreiðslu þess í útvarpsráði. Það hefði leitt til bókunar á efnislegu svari í fundargerð útvarpsráðs og einhvern tíma hafa minni fréttir en afskipti Hæstaréttar Íslands af störfum Ríkisútvarpsins leitt til frétta af ályktunum útvarpsráðs. Kann ég ekki aðra skýringu á því en þá að útvarpsráðsmenn hafi viljað fela meint lögbrot forseta Hæstaréttar gegn Ríkisútvarpinu, en fróðlegt væri að fá að heyra skýringu útvarpsráðs, ef hún er önnur.
Ég hef rakið þennan þátt hér og birt bréf útvarpsstjóra, vegna þess að mér virðist það upplýsandi um afstöðu fjölmiðils sem hefur ótvíræðar lögbundnar skyldur til að leita frétta af málum og segja þær. Ríkisútvarpið hefur ekki gert þögn dómara og stjórnvalda að fréttaefni heldur tekið þátt í að fela fréttaefni. Aðrir fjölmiðlar hafa heldur ekki gert þessa þögn hins opinbera að fréttaefni. Áhrif Hæstaréttar eru því víðtæk og taka ekki aðeins til dómsmála.
Leyndarsambönd
Fregnin 18. febrúar 1994 um leyndarbréf og "svartan lista" Hæstaréttar sem beindist að lögmönnum sérstaklega kom skýrsluhöfundi í opna skjöldu. Hann taldi sig eitt af skotmörkunum og spurði þess vegna um tilurð og forsendur skjalanna.
Seinna, eftir því sem skýrslugerðinni hefur miðað, hafa f~arlægari leyndartengsl komið fram. Auðvitað taldi ég mig vita um sambönd milli aðila í réttarkerfinu og raunar víðar í samfélaginu sem ekki fóru hátt. Þau hlutu að vera mörg og í mörgum tilvikum geta slík sambönd verið eðlileg og leitt til réttari niðurstaða. Það er til að mynda algengt að lögmaður beri mál undir annan lögmann, sem er kunnugri á einhverju sviði til að fá upplýsingar og viðhorf hans. Oftast eru nöfn málsaðila ekki nefnd, en kunnugur maður getur stundum getið í eyður, ef hann nennir því. Ég man ekki eftir réttarspjöllum vegna þess að slíkur trúnaður hafi verið brotinn.
Öðru máli gegnir um lögbundnar starfsaðferðir opinberra aðila. Starfsaðferðirnar eiga að vera aðgengilegar öllum sem vilja kynna sér þær og efnisatriði mála ættu að vera kunn hlutaðeigandi málsaðilum. Hefur verið litið svo á að opinberri starfsemi ætti ekki að halda leyndri nema það ætti stoð í glöggum lagaákvæðum. Talið hefur verið að trygging fyrir réttmæti opinberra aðgerða væri sú helst, að þeir sem hlut eiga að máli gætu kynnt sér mál og borið þau undir hlutlausa dómstóla, þætti þeim tilefni til. Einnig gætu fjölmiðlar greint frá málum.
Afbrotamenn hafa komið úr öllum stéttum og öllum áttum. En langmikilvirkustu afbrotamenn sögunnar hafa haft opinber völd. Hitler og Stalín hafa verið nefndir sem dæmi. Hefur reynslan sýnt að með ólíkindum er hve lengi samfélög hafa látið gróf lögbrot valdamanna yfir sig ganga. Og leyndin hefur verið helsta skálkaskjól afbrotamanna í opinberum stöðum jafnt sem annarra afbrotamanna. Þess vegna er gagnsæi opinberra starfshátta helsta tryggingin fyrir því, að rétt sé farið að.
Í skýrslunni eru á víð og dreif upplýsingar sem gefa til kynna leyndarsambönd opinberra aðila. Stundum eru þetta einhliða sambönd eins og leyndarbréfaskrif Hæstaréttar til héraðsdómstólanna. En stundum er um gagnkvæmni að ræða eins og þegar útvarpsstjóri svarar "trúnaðarmálabréfi" forseta Hæstaréttar Íslands næstum því eins laumulega. Að minnsta kosti var ekki gætt þeirrar óhlutdrægni að láta skýrsluhöfund vita og tengdist hann þó fréttinni, sem verið var að þagga niður. Helst kemur á óvart hve margir opinberir aðilar tengjast leyndarbréfunum.
Ef marka má fyrsta og ódagsetta leyndarbréfið hafa að minnsta kosti einhverjir hæstaréttardómarar, aðrir en forseti Hæstaréttar, vitað um bréfið og það mun hafa komist í hendur flestra héraðsdómara landsins. Stjórn Lögmannafélagins hefur einnig fengið öll þrjú leyndarbréfin. útvarpsráð fékk að vita um eitt leyndarbréfanna og einhverjir fleiri starfsmenn Ríkisútvarpsins. "Brennivínsmál" Hæstaréttar virðist hafa verið á vitorði allmargra svo og hæstaréttarmálið nr. 427/1993, sem vikið er að í þættinum "Mál fyrir Hæstarétti á hendur héraðsdómurum og tleiri" á bls. 79. Þá kom tilskipunin frá 23. júlí 1992 á óvart, sbr. bréf Héraðsdóms Norðurlands vestra og Héraðsdóms Austurlands, bls. 63 og 64, en upplýsingar um hana höfðu farið fram hjá mér.
Loks er ástæða til að greina frá undarlegri tilkynningu sem hékk við dyrabúnað dómsalar 1 í Héraðsdómi Reykjavíkur 19. maí 1994 og hafði þá hangið þar í nokkra daga, en hún er svohljóðandi:
"HÉRAÐSDÓMUR REYKJAVÍKUR.
Opinber frásögn af framburði ákærðu í þinghöldum í máli nr. S – 189/1994 er bönnuð samkvæmt ákvörðun dómsins."
Tilkynningin var óundirrituð og ódagsett og ekki er vitað til, að hún hafi nokkurs staðar verið birt með formlegum hætti, til að mynda í Stjórnartíðindum eða Lögbirtingarblaði.
Ókunnugir gátu ekki vitað hvaða mál S – 189/1994 var eða hverjir væru málsaðilar þess, en um málið var almennt fjallað sem "Stóra fikniefnamálið". Ekki kom fram í tilkynningunni hvenær þessi ákvörðun Héraðsdóms Reykjavíkur var tekin eða hve lengi hún ætti að gilda.
Fyrir forvitni sakir sendi ég Héraðsdómi Reykjavíkur fax 19. maí og spurðist fyrir um forsendur og tilurð tilkynningarinnar. Ég hef engin svör fengið en tilkynningin mun hafa verið tekin niður samdægurs.
Þessi tilkynning um að banna opinberar frásagnir, en ekki aðrar, af opnu þinghaldi fyrir íslenskum dómstóli á sér ekkert fordæmi í íslenskri réttarsögu og lagaframkvæmd og engar forsendur svo ég viti. Dómararnir þrír sem dæmdu í ofangreindu máli hafa ekki haft orð á sér fyrir glannagang í dómstörfum. Meðan ekki er birt skýring á þessari óskiljanlegu dómsákvörðun hef ég tilhneigingu til að ætla að dómararnir hafi fengið leynileg fyrimæli frá háttsettum en ekki vel upplýstum aðila í réttarkerfinu.
Samsærið
Kunningi, sem vissi að ég var að semja skýrslu um leyndarbréfamálið og hafði hlustað á frásögn mína um þögn og aðgerðaleysi opinberra aðila og hlífð fjölmiðla við þá, sagði að skýrslur sem fjölluðu um samsæri væru alltaf ótrúverðugar. Enda er með hugtakinu samsæri átt við sérstakar löglegar og eða ólöglegar aðgerðir fleiri en eins aðila, sem beinast að einhverjum einum eða fáum aðilum til að gera hlut þeirra lakari.
Ljóst er, að skýrsluhöfundur var ekki einn skotspónn fyrsta og ódagsetta leyndarbréfsins. Reyndar beindist það fyrst og fremst að héraðsdómurum landsins. Þeir fengu það í hendur og í því felast upplýsingar um viðhorf Hæstaréttar Íslands til kærumála, lögmanna og fleira. Lögmenn, þar með talinn skýrsluhöfundur, gátu verið sælir í fáfræði sinni um þessi viðhorf Hæstaréttar meðan þeir vissu ekki um þetta eða önnur leyndarbréf. Afleiðingar ódagsetta leyndarbréfsins hefðu á sennilega á fyrstu stigum komið illa við suma málsaðila, en væntanlega vel við aðra. Með leyndarbréfum og leyndartengslum réttarkerfisaðila er fyrst og fremst verið að vinna ! spjöll á réttarkerfinu og stjórnskipuninni allri.
Eftir að skýrsluhöfundur fær upplýsingar um fyrsta og ódagsetta leyndarbréfið er það hann sem hefur í frammi aðgerðir. Opinberu aðilarnir, sem skýrsluhöfundur telur að eigi að svara fyrir fyrsta og ódagsetta leyndarbréfið, eru í vörn. Helsta úrræði þeirra hefur verið þögn og aðgerðaleysi, nema að því marki sem þeir hafa talið sig neydda til aðgerða. Þögn og aðgerðaleysi opinberra aðila er ekkert sérfyrirbæri gagnvart skýrsluhöfundi. Allar líkur eru á að hvaða lögmaður, sem óskað hefði upplýsinga um leyndarbréfin, hefði fengið sömu útreið. Og viðbrögð opinberra aðila í réttar kerfinu eru ekkert öðru vísi en víða gerist annars staðar í þjóðlífinu. Valdhafar leitast við að tryggja og auka völd sín, stundum með ólöglegum aðgerðum.
Öll íslenska þjóðin var skotmark samsæris réttarkerfisaðila sem leyndarbréfin og meint leynitengsl bera vott um. Þarna var komin af stað hljóðlát og hægfara, ólögleg bylting á stjórnskipan lýðveldisins sem beindist að lögmönnum. Forseti Hæstaréttar Íslands virtist í forystu byltingarinnar með þegjandi samþykki dómsmálaráðherrans. Dómstjórar héraðsdómstólanna, utan einn, áttu allir þann óbeina þátt í málinu að þeir leyndu skjölum gagnvart mönnum utan dómstólanna. Og byltingartækin voru ekki byssur eða sprengjur, heldur ólögmæt leyndarbréf og meint leyndarsambönd, sem voru til þess fallin að breyta niðurstöðum í dómsmálum og draga úr trausti fólks á dómstólunum.