XV. Framhaldið
XV. Framhaldið
Næstsíðasta bréf
Seint í september 1994 þegar meginþættir leyndarbréfamálsins lágu fyrir var einn þáttur eftir, sem alllengi hafði staðið til að láta reyna á. Umboðsmaður Alþingis hafði aldrei svarað efnislega ábendingum um að athuga þyrfti leyndarbréfamálið, en hann hafði ítrekað bent á að ég gæti kvartað undan einstökum stjórnsýsluaðgerðum.
Kvörtunarefnin, sem ég vildi að Umboðsmaður Alþingis athugaði, voru tvö og greindi ég frá þeim í bréfi mínu til hans, dags. 26. sept. 1994.
Annars vegar var um að ræða kvörtun vegna þess að Dómsmálaráðuneytið hafði ekki sinnt óskum mínum um gögn, það er endurrit af umsögnum Hæstaréttar um umsaekjendur um lausar hæstaréttardómarastöður, sem beðið var um í bréfi mínu til dómsmálaráðherra, dags. 21. apríl 1994. Þetta atriði tengdist ekki sérstaklega leyndarbréfunum.
Hitt atriðið sem ég taldi ástaeðu til að óska athugunar á voru skipanir tveggja nýrra hæstaréttardómara, þeirra Markúsar Sigurbjörnssonar og Gunnlaugs Claessen, í júní og ágúst 1994. Taldi ég að með réttu mætti draga óhlutdrægni beggja þeirra, sem skipunarvaldið höfðu, dómsmálaráðherrans og forseta Íslands, í efa og hér áttu við ákvæði 6. tl. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/ 1993.
Gögnin sem ég vísaði til voru einkum leyndarbréfin þrjú sem öll voru tengd Hæstarétti Íslands. Eitt leyndarbréfanna, það ódagsetta var bréf Hæstaréttar, en hin tvö voru tengd Hæstarétti á þann hátt að Hrafn Bragason, hæstaréttardómari, hafði ritað annað, það sem var dagsett 22. febrúar 1994, en Hrafn Bragason, forseti Hæstaréttar, hitt sem dagsett var 28. febrúar 1994. Hæstiréttur er lögbundinn umsagnaraðili um umsækjendur um lausar hæstaréttardómarastöður samkvæmt lokaákvaeði 5. gr. laga nr 75/1973 um Hæstarétt Íslands. Tengsl forseta Íslands við leyndarbréfin voru þau að hann mátti vita um þau þar sem ég hafði reynt að upplýsa hann og fleiri um tvö þeirra með bréfi mínu, dags. 21. apríl 1994, en um hið þriðja með bréfi mínu, dags. 18. maí 1994. Forseti Íslands og dómsmálaráðherra máttu báðir vita um þá mismunun sem fólst í þessum leyndarbréfum gagnvart lögmönnum.
Margir þeirra lögmanna, sem voru á þessum "svarta lista" Hæstaréttar hefðu verið hæfir umsækjendur um lausar stöður hæstaréttardómara, hefðu þeir sótt, en mér er ekki kunnugt um að nokkur þeirra hafi sótt. Það breytir ekki hlut forseta Íslands. Vitneskja opinbers starfsmanns, ein sér, um ólögmæt leyndarbréf umsagnaraðila, sem fela í sér mismunum mögulegra umsækjenda, hlýtur að vekja upp efasemdir um óhlutdrægni starfsmannsins og að hann gæti almennt réttra aðferða í störfum sínum.
Sömu sjónarmið eiga einnig við um dómsmálaráðherrann, en að auki er ástæða til að ætla að hann gæti hafa verið hlutdeildarmaður við ritun bréfanna, eða alla vega yfirhylmingaraðili. Ég minni á að Dómsmálaráðuneytið var viðtakandi afrits af þriðja leyndarbréfinu, því sem stílað er til útvarpsráðs og dagsett er 22. febrúar 1994.
Tvö leyndarbréfanna voru send öllum héraðsdómstólunum, sem heyra undir ráðuneyti ráðherrans og tvær mágkonur ráðherrans gegndu ábyrgðarstöðum hjá viðtakendum leyndarbréfa, útvarpsráði Ríkisútvarpsins og stjórn Lögmannafélags Íslands. Ég tel, að Halldóra Rafnar, formaður útvarpsráðs, hefði átt að tryggja formlega og efnislega afgreiðslu þess þar. Eins hefði Ásdís Rafnar, önnur mágkona dómsmálaráðherrans, átt að tryggja sem stjórnarmaður, að Lögmannafélagið upplýsti lögmenn um leyndarbréfin. Ekkert af þessu var gert.
Svar Umboðsmannsins
Svar við kæru skýrsluhöfundar til Umboðsmanns Alþingis frá 26. sept. barst vonum fyrr, því svarið er dagsett 6. október 1994, undirritað af Gauki Jörundssyni sjálfum. Það er birt á bls. 144.
Óhjákvæmilegt er að víkja nokkrum orðum að svari Umboðsmannsins, en í því segir:
- "Ég skil kvörtun yðar svo að hún lúti að tveimur meginatriðum. Í fyrsta lagi að synjun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins um að afhenda yður tiltekin gögn og í öðru lagi að þeirri spurningu hvort dóms- og kirkjumálaráðherra hafi verið vanhæfur, er hann fjallaði um skipan tvegg,ja tilgreindra hæstaréttardómara."
Síðan segir:
- "Í fyrsta lagi kvartið þér yfir því, að dóms- og kirkjumálaráðuneytið hafi neitað að veita yður afrit af skjölum ráðuneytisins, "þeim sem varða umsagnir Hæstaréttar Íslands um umsækjendur um dómaraembætti við Hæstarétt Íslands á liðnum árum", eins og segir í kvörtun yðar."
Hér hefur Umboðsmaðurinn rangt eftir mér um tvö meginatriði, sem hljóta að hafa breytt svari hans í grundvallaratriðum.
Er annað atriðið sú fullyrðing umboðsmannsins, að ég hafi sagt að Dóms- og kirkjumálaráðuneytið hafi neitað að afhenda mér tiltekin gögn, það er umsagnir Haestaréttar. Þetta er ekki rétt eftir mér haft. Í bréfi mínu segir um þetta atriði:
- "Athugað verði hvort réttmætt er af Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu að sinna ekki óskum mínum, sem fram voru settar í bréfi mínu, dags. 21. apríl 1994, um að mér yrðu látin í té afrit af skjölum Ráðuneytisins, þeim sem varða umsagnir Hæsta i réttar Íslands um umsækjendur um dómaraembætti við Hæsta rétt Íslands á liðnum árum. Hef ég, sem hef metið mig mögu legan umsækjanda um laus hæstaréttardómaraembætti, talið nauðsynlegt að athuga umsagnir Hæstaréttar Íslands um umsækjendur."
Í kvörtun minni segir ekki að Dóms- og kirkjumálaráðuneytið hafi neitað mér um skjöl, enda hefði þá verið eðlilegt að ég léti þá meintu neitun Ráðuneytisins fylgja til Umboðsmannsins, sem ég gat ekki þar sem hún lá ekki fyrir. Eftir að umboðsmaðurinn hefur gefið sér þá röngu forsendu, að mér hafi verið neitað um skjöl tekur hann til við að rökstyðja að ég hafi aldrei átt rétt á að fá þessi skjöl. Hefði Umboðsmaðurinn að mínu áliti átt að athuga rök Dóms- og kirkju málaráðuneytisins í hinni meintu neitun og fara orðum um þau, eftir ! því sem honum hefði þótt ástæða til. Taka undir rök Ráðuneytisins eða hafna þeim. Það gat hann að sjálfsögðu ekki því að þau voru I! ekki til staðar.
Við afgreiðslu á þessari kvörtun minni gerir umboðsmaðurinn i f’ það, sem ég hygg og vona að hann hafi sjaldan gert, þegar kvartað er yfir því að stjórnvald svari ekki borgara. Umboðsmaðurinn stuðlar í þessu tilviki ekki að því, að stjórnvaldið, Dóms- og kirkjumálaráðuneytið, svari sjálft erindi mínu, sem ég tel mig enn eiga rétt á. Hins vegar tekur Umboðsmaðurinn sig til og semur svar til mín sem virðist eiga að koma í stað ímyndaðs svars Dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Og þetta svar er lögfræðilega eftirtektarvert vegna álitaatriða sem Umboðsmaðurinn tengir beiðni minni.
Þannig virðast umsagnir Hæstaréttar Íslands um hæfi umsækjenda til að gegna embætti hæstaréttardómara vera orðnar persónulegar upplýsingar. Menn líta ekki svo á annars staðar, svo sem í Bandaríkjunum og er friðhelgi einkalífs fólks þó í mörgum greinum virt þar.
Þá virðist mega skilja svar Umboðsmannsins þannig, að skipanir manna í embætti sem ráðherra og forseta Íslands framkvæma, falli ekki undir stjórnsýslu og þar með ekki undir lögin um umboðsmann Alþingis.
Síðan er ævintýralega djörf og varhugaverð gagnályktun byggð á ákvæði 3. mgr. 6. gr. laga nr. 13/1987, sem er þess efnis að ekki sé unnt að kvarta til Umboðsmanns Alþingis, sé ekki unnt að kæra stjórnvaldsákvörðunina til æðra stjórnvalds. Er komist að þeirri niðurstöðu að Umboðsmaðurinn geti ekki fjallað um kvörtun mína að því er varðar meðferð meintra persónuupplýsinga vegna ákvæða í 31. gr. laga nr. 121/1989 um skráningu og meðferð persónuupplýsinga. En þar segir að úrskurðir Tölvunefndar verði ekki bornir undir aðrar stjórnvaldsstofnanir. Mér virðist hins vegar lögin kveði á um að kvarta megi til Umboðsmanns Alþingis vegna úrlausna Tölvunefndar af því að þær úrlausnir verða ekki bornar undir aðrar stjórnvaldsstofnanir. Er álit mitt byggt á því að Umboðsmaður Alþingis hafi ekki völd stjórnsýsluaðila og geti ekki sjálfur breytt ákvörðun nokkurs stjórnvalds. Heldur sé hann könnunar- og umsagnaraðili sem stað í skjóli Alþingis, sem löggjafarstofnunar.
Svar Umboðsmanns Alþingis um hæfi dóms- og kirkjumálaráðherra til að skipa hina nýju hæstaréttardómara er á þann veg, að það verði ekki séð, að ég eigi aðild að kvörtunarefninu, vegna ákvæðis 2. mgr. 5. gr. laganna nr. 13/1987 um Umboðsmann Alþingis, en þar segir: "Kvörtun getur hver sá borið fram við umboðsmann sem telur stjórnvald hafa beitt sig rangindum."
Skýrsluhöfundur vill af þessu tilefni benda á að hæfi stjórnvalda til að framkvæma stjórnvaldsaðgerð ræðst ekki að nokkru leyti af því hver kvartar eða kærir. Hæfi dómara og stjórnvalda hefur ætíð verið talið nauðsynlegt að athuga án tillits til þess.
En hér er ef til vill komin skýringin á því hvers vegna Umboðsmaður Alþingis rangfærir kæru mína um meinta neitun Dóms- og kirkjumálaráðuneytisins á að afhenda skjöl.
Hefði Umboðsmaður Alþingis spurst fyrir hvers vegna dóms málaráðherrann sinnti ekki óskum mínum um að afhenda mér skjöl var jafnframt komin staðfesting á því, að hann hafði ekki svarað gömlu erindi mínu og gat því naumast talist óhlutdrægur gagnvart mér sem mögulegum umsækjanda um lausa hæstaréttardómarastöðu og þar með ekki hæfur til að skipa hæstaréttardómarana nýju.
Að auki hafði Dómsmálaráðuneytið tekið við afriti leyndarbréfs frá forseta Hæstaréttar, sem varðaði frétt er tengdist mér, það er af bréfinu til útvarpsráðs sem er á bls. 139. En Hæstiréttur er lögbundinn umsagnaraðili um þá sem sækja um lausar stöður hæstaréttardómara.
Hitt atriðið, sem Umboðsmaðurinn rangfærði úr kvörtun minni laut að stjórnsýslustarfi forseta Íslands. Forsetinn átti hlut að skipun hæstaréttardómaranna og mátti jafnframt vita um leyndarbréfin, þar sem hann hafði verið upplýstur um þau. Umboðsmaðurinn nefndi , kvörtun mína vegna vanhæfis forseta Íslands ekki á nafn.
Eftir þessa greinargerð Umboðsmannsins og ímynduð svör hans í nafni Dómsmálaráðuneytisins taldi hann ekki grundvöll til að athuga málið eða spyrja Ráðuneytið um leyndarskjölin.
Gestalistinn
Eins og skýrslan sýnir greip skýrsluhöfundur til ýmissa úrræða til könnunar á leyndarbréfamálinu og til að fá stjórnvöld til virkra aðgerða. Voru erindi af ýmsu tagi send íslenskum stjórnvöldum, fræðafélögum, hagsmunaaðilum og fjölmiðlum til kynningar á málinu. Einnig var athugað og undirbúið að nokkru að upplýsa erlenda aðila, sem láta sig varða réttarfar almennt eða sérstaklega íslensk málefni.
Til upplýsingar á leyndarbréfamálinu erlendis var ráðist í að láta i þýða leyndarskjölin og nokkur önnur skjöl á dönsku og ensku. Dönsku þýðingunni var lokið en tímabundið hlé, sem skýrslu höfundar réði ekki, var gert á þýðingunni yfir á ensku.
Ég lá ekkert á því gagnvart þeim sem ég átti tal við og taldi mögulegt að gætu haft áhrif í málinu að unnið væri að þessum þýðingum og ráðgert væri að senda erlendum aðilum þær. Var það gert til að skapa meiri þrýsting á stjórnvöld til aðgerða, en auðvitað vonaði ég, að ekki þyrfti til þess að koma að ég "bæri út" eigin embættismenn við erlenda aðila.
Þá skal því ekki leynt að sumir þeirra sem stutt hafa mig í málinu, voru þess hvetjandi að gögn yrðu send erlendum aðilum. Var talið athugandi að senda þeim erlendu gestum sem voru á gestalista lýðveldisins vegna fimmtíu ára afmælisins þýðingar af leyndarskjölunum og fleiri skjölum ásamt ljósritum af þeim. Var leitað til Utanríkisráðuneytisins um aðgang að listanum og glögglega greint frá í hvaða tilgangi hann kynni að verða notaður. Svar upplýsingafulltrúa hátíðahaldanna, var að Ráðuneytið teldi ekki rétt að afhenda mér listann. Og sjálfur var ég feginn því svari.
Ég vil engu lofa um aðgerðir eða aðgerðaleysi mitt að þessu leyti framvegis. En ég mun ekki leggja steina í götu Íslendinga, sem telja sig þurfa að leita réttar síns erlendis. Geti þeir haft einhver not af þessum skjölum mega þeir það mín vegna.
En hvað sem líður gestalistum eru því miður ástæður til að ætla að stjórnvöld erlendra ríkja viti miklu betur um lögbrot íslenskra stjórnvalda en Íslendingar almennt. Ég minnist þess sem ungur maður á fyrstu áratugum lýðveldisins, hve æðstu fulltrúum landsins var tekið af mikilli vinsemd og virðingu í nágrannaríkjum. En nú eru aðrir tímar. Nágranna- og vinaþjóðin Noregur virðist hafa sett Íslendinga eina í sérflokk, þegar ákveðnir eru fiskikvótar við Svalbarða og það er vegna áhrifa Rússa, að því er sagt er, sem Norðmenn fást til að ræða þessi mál við íslensk stjórnvöld.
Forsætisráðherrann varð að bíða dögum eða vikum saman eftir svari um það hvort og hvenær embættismaður Evrópusambandsins gæti hitt hann dagstund í Brussel í júlí 1994. Og fulltrúi Frakka á fimmtíu ára afmæli lýðveldisins var aðstoðarráðherra þjóðar sinnar í mannréttindamálum.
Ráðgerð síðustu bréf
Við skýrslulok er ástæða til að greina frá aðgerðum sem höfundur stefnir að. Ráðgert er að fjölfalda skýrsluna ásamt fylgiskjölum í svo mörgum eintökum að dugi helstu embættum í réttarkerfinu, einnig handa alþingismönnum og fleirum. Síðan er ætlunin að senda skýrsluna ásamt ráðgerðum síðustu bréfum þessum aðilum og ljúka því eigi síðar en 25. október 1994.
Ég vona að leyndarskjölin ásamt skýrslunni og öðrum skjölum sem henni fylgja dugi til þess að þeir sem stjórna málum Íslendinga láti kanna leyndarbréfamálið og geri viðeigandi ráðstafanir.
Jafnframt útgáfu þessarar skýrslu til dreifingar meðal áhrifamanna verður leitað til bókaútgefenda í því augnamiði að gefa skýrsluna út í bókarformi og koma henni á markað fyrir almenning.
Einhver kann að segja: Barnaleg bjartsýni. Það nennir ekki nokkur maður að lesa þessa skýrslu. En leyndarskjölin eru merkileg opinber skjöl. Líklega ein eftirtektarverðustu opinberu skjölin sem samin hafa verið á síðustu árum hér á landi og þótt víðar væri leitað. Þá eru viðbrögð opinberra aðila við þeim ekki síður athyglisverð.
Íslenskir valdamenn hafa gert áhugaverða og einstaka þjóðfélagslega tilraun. Tilraun til að beita leyndarskjölum Hæstaréttar ásamt leynd og aðgerðaleysi opinberra aðila og þögn fjölmiðla sem stjórntæki á upplýsingaöld. Tilraunin hlýtur að teljast djörf þegar litið er til þess að upplýsingar voru eitt öflugasta tæki Bandamanna til að vinna heimstyrjöldina síðari og stjórnmálaflokkar Ítalíu hrundu þegar upplýst var um vinnubrögð þeirra og tengsl við Mafíuna.
Nokkrar líkur eru á því að nemar í félagsvísindum, svo sem lögfræði, almennum félagsvísindum og fjölmiðlun vilji kynna sér hina hliðina á samfélaginu. Þessa sem valdhafar vilja ekki upplýsa um og sýna. Ekki kæmi á óvart að fræðimenn í félagsvísindagreinum vildu sjálfir athuga leyndarbréfamálið. Ef til vill gæti það orðið Lagadeild og Félagsvísindadeild Háskólans einhver tekjulind að liðsinna erlendum fræðimönnum við athuganir þeirra á leyndarbréfunum og umhverfi þeirra.
Grínlaust vil ég upplýsa, að samantekt skýrslunnar hefur skerpt sýn mína á samfélagið. Óska ég þess að Íslendingar sem lesa skýrsluna verði nokkru fróðari um réttarfar í landinu og ráði þeim málum vel til lykta. Til réttarfarsumbótanna dugir ekkert minna en þjóðarátak.
Reykjavík, 20. október 1994.